Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:09:04 (1959)

1996-12-10 14:09:04# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), VH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:09]

Vigdís Hauksdóttir:

Hæstv. forseti. Ofbeldi ungs fólks er vissulega eitt það hörmulegasta sem maður heyrir um og verður vitni að daglega í fjölmiðlum, auk fíkniefna- og áfengisvanda. Þessar hörmungar haldast venjulega í hendur og aldur gerendanna er alltaf að færast neðar og neðar eins og hv. málshefjandi bendir á. Þróunin er óhugguleg en ekkert öðruvísi en í nágrannalöndunum, því miður. Reykjavík er smátt og smátt að breytast í stórborg með kostum og göllum. Með auknum fólksfjölda verða vandamálin sýnilegri, stærri og alvarlegri. Það eru vissulega kaldar staðreyndir að í rannsókn við félagsvísindadeild Háskóla Íslands frá því fyrr á þessu ári sem gerð var í framhaldsskólunum reyndust 5% nemanna hafa komist í fyrstu áfengisvímuna 12 ára, 25% 14 ára og 30% nemanna 15 ára. Þetta er þróun sem verður að snúa við.

Börn og unglingar eru að mínu mati fórnarlömb. Fórnarlömb fégráðugra glæpamanna sem nýta sér æsku landsins og skeyta engu um afleiðingarnar. Þessir menn fórna mannslífum. 70 unglingar bíða nú meðferðar og greiningar á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Unglingarnir eru afleiðing en ekki orsök. Afleiðing kynslóðabils sem við verðum að útrýma. Hinir minnstu samskiptaörðugleikar á heimilum gætu verið örvæntingarfullt kall á hjálp. Sölumenn dauðans eru við næsta horn.

Nú kalla ég foreldra þessa lands til og skora á þá að taka virkari þátt í foreldrastarfi skólanna og bið þá um að halda lengur í hendur barnanna og hvetja þau til æskulýðsstarfs, íþróttaiðkana og námskeiða. Ég, sem foreldri, uppalandi og Íslendingur, fagna því stjórnarfrv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð sem lagt verður fyrir þingið á næstu dögum þar sem ríkisstjórn, Alþingi og heimili landsins taka höndum saman um upprætingu mesta bölvalds þjóðarinnar.