Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 14:21:09 (1964)

1996-12-10 14:21:09# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[14:21]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið góð umræða þó að hún væri stutt og þingmenn sem hafa talað hafa komið að þessu máli frá ólíku sjónarhorni og umræðan verður vonandi til þess fallin að þeir sem munu beita sér í málunum hafi gagn af. Ég tek undir það að um leið og við lýsum áhyggjum okkar af ofbeldi ungmenna verðum við að halda því til haga að stærsti hópurinn er heilbrigður og tápmikill hópur ungmenna sem eru góðir krakkar eins og við segjum gjarnan.

Ég tek líka sannarlega undir orð Guðmundar Lárussonar um unglinga og barnavænt þjóðfélag og samfélagsbreytingar og möguleika foreldra til að ala upp börn sín í ástríki og leiðbeinandi aga. Það eru stórpólitísk mál sem við ættum öll að sameinast um. En nú er verið að ræða afmarkað mál og viðbrögð ríkisvaldsins við ofbeldismálum sem komu upp. Ég er mjög ánægð að heyra hjá félmrh. og fá það upplýst að í dómsmrn. er verið að taka á þeim málum sem snerta úrræði sem verður að vera hægt að grípa til þegar skaðinn er skeður og alvaran blasir við. Ég verð hins vegar að lýsa því yfir að lögræðislögin eru búin að vera til endurskoðunar árum saman en ég er mjög ánægð að heyra um önnur lög, vopnalögin og fleira, sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir gat um.

Heilbrrh. nefndi stefnu í vímuefnamálum. Ég verð að geta þess að við þekkjum ekki þá stefnu. Hún hefur ekki verið kynnt hér enn þá en ég hlakka til að fá tækifæri til þess að heyra þessa stefnu og úrræði og mun sannarlega styðja ríkisstjórnina í góðum verkum hvað það varðar, svo oft hefur verið kallað eftir að það verði tekið á.

Ég er mjög þakklát ráðherrunum fyrir að vera viðstaddir þessa umræðu og þakka forsrh. svörin. Vissulega reyndist það svo að hann kom ekki með beinar upplýsingar um breytingar á löggjöf eða annað sem fram undan væri. Ég skil það mjög vel. En að lokum, virðulegi forseti, varðandi umræðu um sjálfræðisaldurinn, þá verður að horfa á að verið er að flytja frumvörp sem taka til þess að börn eigi að vera börn til 18 ára aldurs. Ég nefni atvinnuleysisfrumvarpið sem hefur verið kynnt. Ég nefni alþjóðasáttmála þar sem börn eru börn til 18 ára aldurs, Tryggingastofnun sem hefur þau börn til 18 ára, barnaverndarlögin sem virka ekki og verða þar með ónýtt tæki á meðan sjálfræðisaldurinn miðast við 16 ár. Ég vona að við eigum eftir að taka saman á í þessum málum til að afstýra frekara ofbeldi meðal ungmenna.