Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 15:14:10 (1968)

1996-12-10 15:14:10# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[15:14]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera tilraun til að svara ákveðinni fyrirspurn sem kom fram hjá hv. þm. og varðaði eftirlaunakjör fyrrv. bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands. Um önnur atriði mun ég ekki fjalla í þessu andsvari.

Því miður get ég ekki gefið alveg fullnægjandi svör við þeim spurningum sem fram eru komnar, en þannig er að fjmrn. fer með málefni Útvegsbankans gamla, þ.e. eftirlaunakjörin, en um Landsbankann og um kjör bankastjóra Landsbankans er þannig farið að það eru bankaráðsmenn sem ákveða laun bankastjóranna. Talið hefur verið að með launakjör fyrrv. bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbankans ætti að fara með sama hætti og reikna sem hlutfall af bankastjórakjörum Landsbankans. Það er síðan Seðlabankinn sem gerir þessa útreikninga og fram hafði komið að breytingar hefðu orðið á kjörum bankastjóra Landsbankans 1. des. 1993. Hér er verið að gera leiðréttingu á kjörum frá þeim tíma og til dagsins í dag. Þessi útreikningur Seðlabankans birtist ekki fjmrn. fyrr en 23. maí 1996. Leiðréttingin tekur til 15 einstaklinga, ýmist fyrrv. starfsmanna bankans eða eftirlifandi maka. Því miður sé ég mér ekki fært að birta nöfn þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Ástæðan fyrir því að beðið er um þetta nú er að ekki lágu upplýsingar um það frá Seðlabankanum fyrr en á miðju þessu ári.