Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:30:42 (1975)

1996-12-10 16:30:42# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:30]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson velti því fyrir sér hvort tilviljun réði því hvort tekið væri á rekstrarvanda einstakra sjúkrastofnana en hv. þm. fjallaði fyrst og fremst um það í sinni ágætu ræðu. Það er fjarri því. Í hv. fjárln. er farið mjög rækilega ofan í málefni einstakra stofnana með fulltrúum ráðuneytanna og reynt að átta sig á hvar þurfi að taka á og hvar þurfi að flytja brtt. við fjáraukalagafrv. ef um rekstrarvanda er að ræða. Eitt er algjört grundvallaratriði í þeirri vinnu og það er að fyrir liggi einhverjar tillögur um úrbætur í rekstri þannig að reikna megi með og treysta því að fyrir endann sjái á þeim vanda sem verið er að bæta. Þetta skiptir mjög miklu máli. Vegna þess að hv. þm. nefndi vanda Sjúkrahúss Suðurnesja þá verður að segjast eins og er að stjórnendur þess sjúkrahúss hafa ekki náð nægilega góðum tökum á rekstrinum sem sést á því að á þessu ári er með afgreiðslu þessara fjáraukalaga sem eru til umræðu búið að bæta halla upp á 50 milljónir. Það er auðvitað mjög há fjárhæð sem þar er um að ræða. En aðalatriðið er, virðulegi forseti, að kröfu verður að gera til að stjórnendur sjúkrastofnana geri tillögur um lausn á vanda og að viðkomandi fagráðuneyti geri þá tillögur um breytingar sem feli í sér úrbætur á rekstri ef ekki á að gera viðbótartillögur eða tillögur um hækkun.