Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:35:00 (1977)

1996-12-10 16:35:00# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:35]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þm. velti því fyrir sér hvort ekki væri tekið á málum annarra stofnana vil ég geta þess og minna á að í fjárlögum ársins 1996 var úthlutað sérstökum potti, ef svo mætti segja, sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hafði úr að moða til að koma til móts við þær sjúkrastofnanir sem þá lá fyrir að ættu í nokkrum vanda en væru að vinna í sínum málum. Þarna var um að ræða, minnir mig, 70 millj. kr. og ég get upplýst hér að úr þessum sjóði hefur verið úthlutað reyndar allt fram á þetta ár. Meðal annars hefur verið úthlutað til þeirrar stofnunar sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefnd, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, þannig að skýringin á því að ekki er sérstaklega tekið á máli þeirrar stofnunar í fjáraukalögunum núna er að ráðuneytið hafði möguleika á að koma til móts við þá stofnun með þeim hætti. En allt minnir þetta okkur auðvitað á þær staðreyndir að það er mjög brýnt verkefni hjá okkur núna að reyna að stemma af þær fjárveitingar sem ganga til sjúkrastofnana. Meta þarf þörfina fyrir þá þjónustu sem viðkomandi stofnun á að veita á viðkomandi svæði og umfram allt, og það vil ég undirstrika, að reyna að nýta þá þjónustu sem er til staðar á hverju svæði en ekki eilíflega líta til þess að allt skuli sækja suður til hinna stóru stofnana sem þar sinna þjónustu með miklum ágætum. Við verðum að reyna að nýta aðstöðuna í landinu með eins eðlilegum og ódýrum hætti og kostur er.