Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:42:22 (1980)

1996-12-10 16:42:22# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:42]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið í einu og öllu sammála hv. þm. í þessum efnum enda vék ég ekki orði að því í minni ræðu að það væri heilagt hlutverk hv. þm. að heiðra skálkinn, þ.e. að hlaupa til og lagfæra þá sem sökum óráðsíu og bruðls eða af einhverjum öðrum orsökum halda sig ekki innan fjárlagarammans. Það voru ekki mín orð. Það sem ég var hins vegar að vekja athygli á voru þær staðreyndir sem við okkur blasa af ýmsum orsökum og stundum eru réttmætar, ef við getum orðað það þannig, ástæður fyrir því að ekki hefur reynst unnt að halda sig innan fjárlagaramma. Ég get nefnt í því sambandi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem var reyndar skorinn við trog 1992 og hefur aldrei jafnað sig frá þeim tíma. Í tíð minni sem heilbrrh. reyndi ég af vanmætti mínum þó aðeins að lagfæra þar stöðuna en hef greinilega ekki gert nóg þannig að það eru ýmsar orsakir sem má skýra og hafa réttmæta skýringu að baki.

Hvað varðar Fjórðungssjúkrahús Akureyrar get ég deilt þeirri skoðun með hv. þm. að þar hafi rekstur allur verið með miklum ágætum og sköruleg og prýðileg stjórn á því sjúkrahúsi. Ég hef líka verið þeirrar skoðunar og sýnt það í verki að ég vil sjá það sjúkrahús sem raunverulegt mótvægi við stóru hátæknisjúkrahúsin í Reykjavík sem geti gegnt ámóta vel því hlutverki sem við þekkjum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölunum. Í þeim efnum beitti ég mér fyrir því og var raunar í ágætu samstarfi við þáv. og núv. hæstv. fjmrh., aldrei þessu vant, að fara í það að auka við húsakost þar nyrðra. Nú reynir hins vegar á að menn ljúki því verki en hef ég heyrt ýmsar áhyggjuraddir norðan heiða um að menn ætli sér ekki að taka skrefið til fulls. Með öðrum orðum að einhver áhöld séu um það á ýmsum bæjum að hafa þetta sem steinkassa og enga starfsemi og ljúka ekki framkvæmdinni heldur láta reka á reiðanum. Það þykir mér afspyrnuslæmt og (Forseti hringir.) eru vondar fjárfestingar.