Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:46:14 (1982)

1996-12-10 16:46:14# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessu er ég hjartanlega sammála. En ég sagði áðan að svo bregðast krosstré sem önnur tré og í andsvari rétt áðan gat ég um eina stofnun sem ég þekki mætavel, kannski jafn vel og hv. þm. þekkir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þ.e. Sólvang í Hafnarfirði. Ég bið hv. varaformann fjárln. að leggja við eyrun. Þar er um að ræða stofnun sem hefur verið í nokkuð venjubundnum og lítt breytanlegum rekstri ár frá ári og hefur ævinlega haldið sig vel innan ramma fjárlaganna. En nú bregður svo við af ákveðnum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja í stuttu andsvari að stofnunin lendir í vandamálum. Mér finnst þetta vera lýsandi dæmi um það til hvers eigi að nota fjáraukalög. Það á ekki að skapa fyrirmyndarstofnunum eins og Sólvangi í Hafnarfirði, þar sem fyrirmyndarstjórn hefur verið á öllum málum, erfiðleika inn í framtíðina með því að skilja slíkan halla eftir fram á næsta ár. Þessi stofnun ræður ekki við það af sínu sjálfsaflafé. Þar er um slíkan rekstur að ræða að svigrúmið er lítið sem ekki neitt. Þetta er því dæmi sem ég vildi sérstaklega nefna þar sem ,,réttmætar`` ástæður eru fyrir því að menn hafa ekki ráðið við að halda sig innan rammans. Ég vil lengst allra orða fara þess á leit við hv. fjárln. að hún skoði nú alvarlega á milli 2. og 3. umr. --- þetta dæmi nefni ég af því að ég þekki það vel --- hvort ekki eigi að leysa þann vanda í eitt skipti fyrir öll með því að taka á honum núna við samþykkt og afgreiðslu fjáraukalaga.

Að öðru leyti er ég sammála hv. þm. um að ekki skulum við heiðra skálkinn. Fremur skulum við rétta þeim lítilræði sem kunna til verka og hafa sýnt það í gegnum árin með því að halda sig innan ramma þeirra laga sem þeim er gert að starfa eftir.