Fjáraukalög 1996

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 16:50:30 (1984)

1996-12-10 16:50:30# 121. lþ. 38.8 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[16:50]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að fyrir liggur að fækka mjög þeim sjúkrahúsum á landsbyggðinni sem lenda undir niðurskurðarhnífnum. Með öðrum orðum, hv. þm. hefur upplýst að sökum þess að Hafnafjörður og Reykjanesbær eru ekki á landsbyggðinni þá komi sjúkrahúsin þar ekki til álita þegar hnífnum verður veifað varðandi 160 milljónirnar og fer þeim þá fækkandi þessum sjúkrastofnunum. Ég gæti kannski óskað eftir því, virðulegi forseti, að einstakir hv. stjórnarliðar kæmu hver af öðrum, úr hverju kjördæminu á fætur öðru og segðu: ,,Ekki ég, ekki ég.`` Maður veltir því fyrir sér til að mynda, af því að ég gerði Akranes að umræðuefni áðan, hvort hv. þm. Árni M. Mathiesen eða einhver annar geti upplýst okkur um það hvort sjúkrahúsin tvö á Vesturlandi sem eiga í verulegum erfiðleikum, lendi undir þessum sama hníf. Þar hafa menn verið að gera samninga líka með tilsjónarmanni. Tilsjónarmaður hefur verið á kreiki á Vestfjörðum, í Vesturbyggð. Þýðir það að þar af leiðandi verður Vesturbyggð ekki lögð undir hnífinn? Eru það kannski sjúkrahúsin þrjú á Norðurlandi vestra sem einkanlega lenda þarna undir þessum stóra niðurskurðarhníf? Hvað segja nú hv. þm. þess kjördæmis um þau mál? Ég fagna því mjög einlæglega að þessi sjúkrahús sem ég nefndi til sögunnar og staldraði örlítið við, í Hafnarfirði og Reykjanesbæ, lenda ekki í þessari afeitrun eða undir þessum niðurskurðarhníf. En þess meiri verður niðurskurðurinn væntanlega á öðrum sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Við bíðum og sjáum hvað setur. Stóridómur fellur væntanlega á fimmtudag eða föstudag, ekki satt?