Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 17:16:00 (1988)

1996-12-10 17:16:00# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., VE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:16]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum á þskj. 79 við frv. til laga um breyting á umferðarlögum sem hér er til umræðu. Ásamt mér eru fimm aðrir hv. þm. samflutningsmenn að þessari tillögu. Tillagan gengur í stórum dráttum út á það að hækka almennan hámarkshraða úr 90 km í 110 km hraða á vegum úti.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að þessi tillaga er flutt. Þó hygg ég að hún sé flutt fyrst og fremst í nafni hins þögla meiri hluta sem keyrir eftir þjóðvegum landsins á 110--120 km hraða. Þessu fólki finnst ekki að það sé að brjóta nein lög og finnst ekki að það sé að gera neitt sem sé andstætt almennum sjónarmiðum, sé ekki að stofna lífi sínu og limum í neina hættu og því síður lífi og limum annarra í hættu með því að aka á þessum hraða. Enda er það svo að lögreglan hefur enga aðstöðu til þess að fylgja því eftir að hér sé ekið um á 90 km hámarkshraða og þess vegna er ekki heldur ástæða til þess að takmarka hámarkshraðann við 90 km hraða.

Það má deila um þetta og margir hafa tekið til máls í umræðu um þessa tillögu og fundið henni margt til foráttu. Flestir þeir sem hafa tekið til máls eru reyndar utan hins þögla meiri hluta, sem ég tel að ég sé fulltrúi fyrir með því að flytja þessa tillögu, og kannski fyrst og fremst fólk sem hefur með einhverjum hætti atvinnu af því að fást við umferðarmál og hefur að því er mér hefur oft virst hafa atvinnu af því að vera á móti þessu máli. En það skiptir kannski ekki höfuðmáli. Það sem skiptir höfuðmáli er spurningin: Er rétt að hækka hámarkshraðann eða ekki? Ég tel tvímælalaust að svo sé. Vegir hafa batnað mjög á Íslandi á undanförnum árum. Umferðarþunginn á þessum vegum er ekki svo mikill þannig að venjulega eru tvær akreinar undir þegar menn eru að aka eftir vegunum og venjulega er það líka þannig að menn ráða mjög vel við þá bíla sem þeir eru að aka einmitt á þessum hraða. Bílarnir hafa líka batnað mikið og öryggisbúnaður þeirra einnig. Það er því ekki ástæða til þess að halda sig við 90 km hámarkshraðann lengur.

Við meðflutningsmenn mínir lögðum fram þessa tillögu til að allshn. mundi fjalla um hana og að sjálfsögðu hefur það verið þannig að þeir sem allshn. leitar venjulega álits hjá eru ekki par hrifnir af þessu, enda flestir menn eða fólk sem er í vinnu við það að vera á móti þessu, en það hefur ekki verið leitað mikið álits hjá hinum þögla meiri hluta sem ekur eftir þjóðvegum landsins.

Vissulega má segja að á ýmsum stöðum sé ekki eðlilegt að keyra á 110 km hámarkshraða og nauðsynlegt að draga úr ferð á ákveðnum stöðum á þjóðvegunum. Eins eru að sjálfsögðu oft þær aðstæður að ekki er hægt að aka á slíkum hraða. Ég vil þó nefna sérstaklega að það má gera miklu betur í því að merkja þá staði úti á þjóðvegum þar sem eru hætta á ferðum, sérstaklega í kringum einbreiðar brýr og hættulegar beygjur. Slíkum merkingum er afar ábótavant og það þyrfti að gera stórkostlegt átak til þess að laga slíkar merkingar. Þetta kemur að sjálfsögðu ekki svo mikið að sök þegar vanir ökumenn eru á ferð. Þá vita menn nokkuð hvar þarf að draga úr hraða og hvar er hægt að gefa í. En þar sem óvanir ökumenn eru á ferð, er náttúrlega ekki hægt að menn séu að koma kannski í myrkri að einbreiðum brúm og komast að því fyrst 100 metrum áður að einbreið brú er fram undan. Þessar merkingar þarf þess vegna að bæta að miklum mun og mörg slys hafa einmitt orðið í kringum þessa hættulegu staði vegna slæmra merkinga miklu fremur en vegna mikils umferðarhraða og eru mörg dæmi um slíkt.

Hæstv. forseti. Ég hygg að hægt sé að ræða þetta mál allítarlega ef út í það er farið. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég er þess fullviss að ef Alþingi fellir þessa tillögu, þá muni hinn þögli meiri hluti halda áfram að keyra á sínum 110--120 km hraða og hlutirnir verða eins og áður. Það er hins vegar spurning hvort það sé gott í lagasetningu að standa þannig að verki. Hluti af þeim rökum sem hafa komið á móti þessu gengur einmitt út á það að segja að ef hinn löglegi hámarkshraði hækkar upp í 110, þá muni menn taka sig til og fara að keyra á 120--130 km hraða. En ef þetta gilti um öll lög að það ætti að hafa lögin svona til viðmiðunar og það ætti að ganga út frá því að þau væru alltaf brotin að einhverju marki, hvernig stæðum við þá? Ég nefni að ef við gengjum alltaf út frá því t.d. að kastað væri svona 10--15% af þeim fiski sem veiddist við Íslandsstrendur, ættum við þá að miða t.d. við það þegar 180 þúsund tonna hámarksafli er leyfður, að úthluta bara 160 þúsund tonnum af afla vegna þess að við göngum út frá því að 20 þúsund tonnum sé fleygt? Ég held að ekki sé hægt að standa þannig að verki. Ef menn ætla sér að hafa hámarkshraða í lögum, þá á að sjálfsögðu að hafa einhvern hámarkshraða sem menn vilja að sé virtur. Og ég spyr: Hvað hafa margir ökumenn verið sektaðir á bilinu 90--100 km hámarkshraða þar sem 90 km hámarkshraðinn hefur gilt? Hefur nokkur einasti maður verið sektaður á þeim hraða? Virða dómstólar landsins yfirleitt þennan 90 km hámarkshraða eða reynir lögreglan að stoppa menn og láta sekta menn fyrir að keyra á milli 90 og 100? Ég hygg að svo sé ekki. Þess vegna tel ég að það eigi að miða hámarkshraðann við þann hraða sem menn ætla sér að framfylgja, en ekki að búa til einhvers konar lög um þetta efni sem menn ganga út frá að ekki verður framfylgt. Ég tel að það sé einfaldlega slæmt siðferði í lagasetningu að setja lög sem menn ætla sér ekki að framfylgja.