Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 17:25:55 (1990)

1996-12-10 17:25:55# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:25]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mig ekki þurfa að hafa neitt sérstakt bílpróf upp á það að tala í nafni hins þögla meiri hluta í þessu efni. Ég ek um vegi landsins eins og hver annar og ég tek eftir því að þegar ég ek á 90 km hámarkshraða þá keyri ég ekki fram úr einum einasta bíl en fjöldamargir, eiginlega allir, keyra fram úr mér. Þetta er einfaldlega staðreynd sem hver og einn þekkir sem keyrir um þjóðvegi landsins. Mér finnst dálítið undarlegt að hv. þm. sem er fyrrv. samgrh. og þekkir manna best til á vegum landsins, skuli koma upp og ekki kannast við það að almennur ökuhraði sé meiri en 90 km. Mér þykir það afar undarlegt að hv. þm. skuli koma upp og tala eins og 90 km hámarkshraði sé almennt virtur ökuhraði.

Í annan stað kemur hann og ber saman Svíþjóð og Ísland. Umferðarþungi á þeim vegum sem leyfður er 110 km hámarkshraði í Svíþjóð er miklum mun þyngri en á þeim vegum sem við höfum á Íslandi. Þetta eru ekki vegir sem eru endilega með tveimur akreinum í hvora átt. Þeir eru með einni breiðri akrein og þegar einhver ætlar fram úr, þá víkur sá sem á undan er út á öxl. Ég hef ekið eftir þessum vegum og þekki þá þess vegna nokkuð vel. Varðandi þá vegi þar sem er 80 km hámarkshraði, þá er þar bara miklu meiri umferðarþungi en á þeim vegum sem við höfum hér. Síðan eru aðstæður oft á sænskum vegum mun verri en hér. T.d. er hinn frægi sænski skógur oft þannig að hann teppir útsýn miklu meira en þekkist hér á landi og það er því engin ástæða til þess að bera þetta saman eins og hv. þm. gerir.

Ég spyr: (Forseti hringir.) Er það þannig að ... (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég er alveg að

(Forseti (ÓE): Tíminn er búinn.)

ljúka máli mínu. Ég ætlaði einfaldlega að spyrja hv. þm. að því hvort hann hefði aldrei tekið eftir því að menn keyrðu hraðar en á 90 km hraða.