Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 17:30:40 (1992)

1996-12-10 17:30:40# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:30]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það hljóti að vera þannig að hinar almennu leikreglur sem gilda í landinu, hvort sem það eru umferðarlög eða önnur lög, hljót að þurfa að standa í einhverju samhengi við það hvað fólki almennt finnst og hvernig fólk almennt breytir og hvernig siðferðiskennd fólks er almennt varðandi mál eins og þessi. Ég verð að segja að það er mín reynsla sem ökumaður og ég hygg að það sé reynsla fleiri að fólk keyrir almennt ekki á 90 km hraða á vegum úti. Það keyrir hraðar. Ég hygg að hinum venjulega Íslendingi sem er að keyra á 110--120 km hraða á góðum vegi á góðum bíl finnist ekki að hann sé að gera neitt rangt og þess vegna sé það mjög eðlilegt að löggjafinn láti löggjöfina endurspegla þessa siðferðiskennd sem hinn venjulegi ökumaður hefur.

Ég sá um daginn tölur sem Hagstofan hefur tekið saman um umferðarslys. Þar kom fram að banaslysum í umferðinni hafi fækkað mikið þrátt fyrir það að menn keyra líklega aldrei hraðar en nú. Ég sé ekki að það sé neitt beint samhengi þarna á milli. Það hefur alla vega ekki tekist að sannfæra mig um það. Ég held að það væri hægt að gera mjög margt til þess að bæta merkingar á vegum og ganga þannig frá að vegirnir þyldu mjög vel 110 km hámarkshraða. Það er hálfbroslegt, hæstv. forseti, þegar hv. þm. talaði um sveigjanleika í framkvæmd. Það þýðir að sjálfsögðu ekki annað en að það á að framfylgja þessari reglu af handahófi og að menn geti keyrt á 110 km alveg eins og þá lystir ef aðstæður eru þannig.