Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 20:30:11 (1993)

1996-12-10 20:30:11# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:30]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Svo sem fram kemur í afgreiðslu hv. allshn. á frv. til laga um breyting á umferðarlögum, þá stend ég að niðurstöðunni ásamt öðrum nefndarmönnum, fyrirvaralaust. Ég hafði stutt og staðið að breytingartillögu þess efnis að hækka hámarkshraða við bestu aðstæður upp í 110. Það er ekki mál sem maður berst fyrir af mikilli sannfæringu. Mér þótti eðlilegt fyrst farið var að gera breytingar á umferðarlögum að sú tillaga kæmi fram og studdi hana því. Hins vegar höfum við fengið margar og ítarlegar umsagnir og ein ástæða fyrir því að slík tillaga er sett fram er að fá umræður um hana og upplýsingar þeirra sem gerst til þekkja. Þær hafa komið og að athuguðu þessu máli öllu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé tímabært að hækka umferðarhraðann. Ástæður eru þessar helstar eins og ég segi að þeir sem starfa að umferðarmálum og bættu umferðaröryggi hafa lagst mjög gegn hækkun, t.d Slysavarnafélag Íslands, Umferðarráð, Samband tryggingafélaga, lögregla og sýslumenn svo einhverjir séu nefndir og afstaða þeirra hlýtur að vega þungt. Ég tel því eðlilegt að við samþykkjum ekki hækkun að svo stöddu.

Hins vegar er margt um þetta að segja. Það hefur komið fram í umræðu t.d. í þinginu að hraðamælar bifreiða eru ónákvæmir og sýna allt að því 10% meiri hraða við venjulegar aðstæður en raunin er. Að því viðbættu að lögreglan hefur í sínum mælingum nokkurt borð fyrir báru, 10 km einnig, þá er varla nokkur maður tekinn á hraða sem er undir 105--110 km. Gott og vel. Þetta er víst staðreyndin. Mér er hins vegar kunnugt um að meðal ýmissa annarra þjóða gengur vel að halda hámarkshraðanum við tilsett mörk þar sem menn vilja það á annað borð.

Herra forseti. Ég hygg að umferðarslys verði ekki fremur þar sem ekið er á leyfilegum hámarkshraða við bestu aðstæður heldur þar sem ekið er hratt við aðrar og verri aðstæður og þá jafnvel á enn meiri hraða en nokkurt velsæmi er í.

Það er einkum annað sem veldur slysum. Það er aðgæsluleysi, sofandaháttur og kæruleysi. Hafa menn áttað sig á því hversu mörg slys verða á fólki almennt af völdum bíla á mjög hægri ferð á bílastæðum og í leikgötum í borginni og vissulega annars staðar? Og hversu mörg slys verða vegna ölvunaraksturs? Hversu mörg slys verða vegna þess að menn gera bílana að leiktækjum?

Margt þarf að bæta í umferðarmenningu okkar Íslendinga. Því höfum við til dæmis í fjárln. þingsins tekið vel í það að veita fé til þess að keyptir verði ökuhermar til hjálpar við ökukennslu auk þess sem í tillögum hv. allshn. er lagt til 12 mánaða tímabil fyrir æfingaakstur áður en ökuleyfisaldri er náð. Ég er hins vegar ekki hlynntur því að hækka ökuleyfisaldurinn. Hann er eðlilegur við 17 ára aldursmarkið. En ég vil nota tækifærið og hvetja Umferðarráð og þá aðila sem vinna að slysavörnum í umferðinni að herða róðurinn og vinna að meira öryggi umferðarmála. Slysin eru allt of mörg. Eitt slys er of mikið og einhver tiltekin slysatíðni eins og talað var um í dag í umræðunni er aldrei ásættanleg. Margt þarf að batna í umferðarmenningunni og þar þurfa allir að leggjast á eitt. Öðruvísi vinnst ekki vel. Til þess vil ég heita mínum stuðningi.

Mér hefur einmitt komið í hug í þessari umræðu um umferðarmál undanfarna mánuði sem hefur verið á margan hátt þörf og ágæt, að koma þyrfti upp sjálfvirkum eftirlitsbúnaði, bæði í dreifbýli og þéttbýli, eftirlitsbúnaði með hraða og ýmsu öðru því sem fram fer í umferðinni. Fleira er lögbrot en of hraður akstur í umferð. Þá má líka benda á að lögreglan gæti almennt tekið sér til fyrirmyndar lögreglumenn og lögreglustjórn í Húnavatnssýslunum og eflt eftirlitið, en þar eru lögreglumenn þjóðkunnir fyrir árvekni í störfum að því að halda hraðanum við velsæmismörk.

Það má einnig nefna að eðlilegt er að herða viðurlög, en hækkun á sektum vegna umferðarlagabrota hefur ekki átt sér stað alllengi.

Herra forseti. Ég hygg að umræðan um umferðarmálin hafi verið þörf undanfarið og ég hvet til meiri varkárni í umferðinni almennt talað.