Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 20:41:36 (1995)

1996-12-10 20:41:36# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:41]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þau ummæli hv. þm. sem hér talaði á undan, Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, um það að sú tillaga sem ég ásamt fleirum hef flutt um hækkun hámarkshraðans væri vond tillaga, þá hefur hv. þm. að sjálfsögðu rétt á því að halda það. En rökstuðningurinn sem þessu fylgdi, þ.e. að vegakerfið tæki ekki við slíkum umferðarhraða, fannst mér dálítið á skjön við raunveruleikann vegna þess að þetta er sá umferðarhraði sem er við lýði á vegunum. Almennt keyrir fólk á þessum hraða og virðist bara líða nokkuð vel. Í Morgunblaðinu á sunnudaginn var var birt niðurstaða af úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þeirrar virtu stofnunar, þar sem m.a. kom fram að banaslysum í umferð á Íslandi hefur stórfækkað á undanförnum árum. Þau eru fjórðungur af því sem þau voru 1979, þessi banaslys, miðað við ekna kílómetra. Þetta finnst mér vera afar merkilegar niðurstöður og sýna að vegakerfið hefur stórbatnað og bílarnir hafa stórbatnað. Ég skil ekki af hverju hv. þm. vill ekki halda upp á þessar framfarir á vegum og bílum með því að fólk fái að keyra á þeim umferðarhraða sem það telur eðlilegt.