Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 20:53:21 (1998)

1996-12-10 20:53:21# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:53]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það slær mig í sambandi við þessar umsagnir og það sem hér er sagt á móti þessari tillögu um að hækka hámarkshraðann að alltaf er vísað í einbreiðar brýr og slæmar aðstæður, eins og það sé ekki hægt að merkja það rækilega þegar kemur einbreið brú eða hætta á veginum fram undan eða að ökumenn hafi ekki vit á því að draga úr hraða þegar aðstæður eru ekki þess eðlis að hægt sé að keyra á fullum hámarkshraða. Ég vísa til þess að aðstæður geta verið prýðilega góðar. Vegirnir geta verið beinir og án þess að neinar hindranir séu. Ég nefni t.d. að þegar menn eru keyra norður í land og komnir upp á Holtavörðuheiði og það hallar norður af, þurr vegur, ekki nokkur bíll í sjónmáli, jöklasýn og Hrútafjörðurinn baðaður í sól, þá náttúrlega sér það hver maður að enginn keyrir á 90 km hraða við slíkar aðstæður. (Gripið fram í: Jú, jú.) --- Það keyrir enginn á 90 km hraða við slíkar aðstæður (SJS: Ef menn eru að virða fyrir sér jöklana.) Jafnvel á 120 km hraða er hægt að virða fyrir sér jöklana, hv. þm. (SvG: Úr Hrútafirðinum?)

Síðan þetta að vegakerfið hér standi langt að baki því sem annars staðar er. Aðstæður á íslenskum vegum eru allt aðrar vegna þess að umferðarþunginn er miklu minni. Og að bera þá saman við vegi í Noregi og í Svíþjóð og víðar sem eru krókóttir og þar sem útsýni oft er mjög lítið vegna skóga og fjalllendis, því er náttúrlega ekkert saman að jafna. Eða sveitavegi í Mið-Evrópu, þeim er ekki saman að jafna við sveitavegi á Íslandi. Ég hef keyrt nokkuð um þessa vegi og tel að ég þekki bærilega muninn þar á. Þessi tillaga er einfaldlega flutt vegna þess að ég tilheyri þessum þögla meiri hluta sem keyrir á þessum eðlilega venjulega umferðarhraða þar sem enginn fer fram úr mér og ég ekki mikið fram úr öðrum. Ég tel að það eigi bara að haga umferðarhraðanum í samræmi við vilja fólksins í landinu. (SJS: Þú ert nú ekki þögull núna.)