Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 21:15:32 (2002)

1996-12-10 21:15:32# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:15]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það þarf að vega saman ýmsa þætti. En hv. þm. gleymir að vega það inn í þessi mál að frá því að hámarkshraðinn var ákveðinn 90 km hafa orðið ýmsar breytingar. Vegakerfi landsins hefur almennt stórbatnað á þeim tíma og bílar og öryggisbúnaður þeirra hefur líka almennt batnað. Mér finnst, hæstv. forseti, að það megi vega þessa þætti inn í og taka tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið.

Það er að sjálfsögðu alltaf þannig að það geta ekki allir ekið á hámarkshraða hvort sem það er 90, 100 eða 110 eða hvað það er. En ég met þetta út frá minni reynslu og mér þykir það ansi einkennilegt, hæstv. forseti, ef ekki má taka tillit til þess við endurskoðun á þessum málum að vegirnir hafa batnað og bílarnir hafa batnað. Þá spyr ég, hæstv. forseti: Til hvers erum við þá að þessu öllu saman?