Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 21:16:56 (2003)

1996-12-10 21:16:56# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[21:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hafi ekki orðið í sjálfu sér miklar grundvallarbreytingar á vegakerfinu frá því að umtalsverðir kaflar komu til sögunnar með bundnu slitlagi, byggðir að mestu leyti eftir sömu stöðlum og notaðir eru enn í dag. Það er ekkert ýkjalangt síðan. Nú man ég þetta ekki nákvæmlega í árum en ég gæti ímyndað mér að þetta væri einhvers staðar í nágrenni við 10 ár síðan. Með öðrum orðum var hámarkshraðinn hækkaður þegar til sögunnar var komið vegakerfi að hluta til í nokkurn veginn sambærilegu formi og það er í dag. Þá var talið réttlætanlegt að hækka hraðann um 10 km frá því sem var á malarvegunum en ekki meira.

Það er vissulega rétt að vegir eru heldur að batna. Það er aðallega þó í því formi að sá hluti vegakerfisins sem er að komast í sambærilegt ástand það er að lengjast. Því miður eru enn þessar slysagildrur, einbreiðar brýr, í stórum stíl á öllum hringveginum, öllum aðalvegunum. Og þó ekkert annað kæmi til en það, þá held ég að það eitt og sér væru næg rök til þess að vara við þessari tillögu. Bílar eru að verða öruggari, það er rétt en það eru þeir líka að verða út um allan heim og eftir hverju eru menn að sækjast sér í lagi með því? Það er að draga úr slysunum, þessum skelfilega tolli sem umferðarslysin hér á landi og út um allan heim taka. Það hlýtur auðvitað að vera okkar markmið og það er einmitt þess vegna sem menn hafa ekki hækkað umferðarhraðann nema þá í einstöku tilvikum, kannski í einhverjum fylkjum Bandaríkjanna þar sem hann var settur mjög langt niður í olíukreppunni, en víða annars staðar hefur hámarkshraðinn verið heldur á niðurleið sem hluti af markvissum slysavörnum samfara miklum áróðri sem yfirleitt beinist án undantekninga að því að draga úr umferðarhraða og vara við hraðakstri og ofsaakstri. Hv. þm. getur m.a. horft á auglýsingar og þann áróður sem aðilar eins og Umferðarráð og tryggingafélögin eru með í gangi meira að segja hér á Íslandi akkúrat um þessar mundir. Við hverju er verið að vara þar öðru en hraðanum sem drepi?