Húsnæðissparnaðarreikningar

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 22:33:40 (2015)

1996-12-10 22:33:40# 121. lþ. 38.15 fundur 129. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að flytja þetta frv. sem ég held að sé mjög til bóta og geymir síðustu hvatninguna til sparnaðar sem við höfum enn við lýði. Nú er verið að leggja af þá hvatningu til kaupa á hlutabréfum sem felst í því að draga má þau frá skatti. Við höfum tekið upp ýmis form sem hvetja til eyðslu frekar en sparnaðar. Vil ég þá sérstaklega geta um vaxtabæturnar sem eru ekkert annað en hvatning til skuldasöfnunar og eyðslu. Það skyldi engan undra að skuldir heimilanna vaxi eins og sýnt hefur verið fram á.

Þetta form er hluti af skattkerfi sem felst í því að skattleggja eyðslu. Tekjum manna er ráðstafað til að spara eða til að eyða. Húsnæðissparnaðarreikningarnir voru einmitt dæmi um hvernig sparnaðurinn var skattfrjáls, þ.e. eyðslan var skattlögð, ekki tekjurnar. Vandamálið við að taka upp skattlagningu eyðslu í stórum stíl, eins og sums staðar hefur verið lagt til, er það að menn hafa ekki talið fram á skattframtali innstæður í bönkum vegna þess að þær hafa verið alveg skattfrjálsar og menn hafa jafnvel ekki vitað að það þyrfti að telja þær fram. Ef menn vissu um allar innstæður í bönkum væri lítill vandi að taka upp í stórum stíl skattlagningu á eyðslu með því að veita skattfrelsi út á þá aukningu á sparnaði í ýmiss konar formi bæði í bönkum, hlutabréfum og alls konar peningalegum sparnaði og veita skattfrelsi út á það. Því miður sé ég ekki lausn á þeim vanda að taka það upp eins og staðan er núna. En ég tel mjög brýnt að menn hverfi frá þeirri leið að hvetja menn og verðlauna fyrir það að eyða, eins og vaxtabæturnar gera, og fara í auknum mæli inn á sparnaðarleiðina, þ.e. húsnæðissparnaðarreikninga, sérstaklega þegar menn óttast það eins og núna að verðbólga fari í gang, þensla myndist vegna þeirra miklu opinberu framkvæmda og hálfopinberu framkvæmda sem standa yfir og framkvæmda á vegum fyrirtækja og annarra. Það er ljóst að ef tækist að ná upp miklum sparnaði nú við þessar aðstæður þyrftum við Íslendingar ekki að fresta opinberum framkvæmdum vegna þess að það mundi myndast nægilegur sparnaður til að borga allar þessar framkvæmdir. En því miður sjáum við ekki teikn þess að fjármálalegur sparnaður einstaklinga sé að aukast í þeim mæli að hann geti greitt þær miklu framkvæmdir sem við förum út í. Þess vegna munum við líklega neyðast til þess að draga úr mörgum bráðnauðsynlegum opinberum framkvæmdum sem margar hverjar eru sannarlega arðbærar.

Herra forseti. Að lokum vil ég lýsa yfir ánægju minni með að hv. þm. hafi flutt frv. um húsnæðissparnaðarreikninga til að halda á lofti síðasta vígi sparnaðar sem er örvaður með skattalegum aðgerðum.