Þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 22:51:38 (2017)

1996-12-10 22:51:38# 121. lþ. 38.16 fundur 132. mál: #A þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:51]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, 1. flm. þessarar þáltill., að það er okkur Íslendingum nauðsynlegt að stunda af kappi alþjóðlegt samstarf og liggja til þess mjög margar ástæður sem hann tíndi til í sínu máli og er þar þá ekki síst sú staðreynd að við lifum í ríkari mæli en aðrar þjóðir á alþjóðlegum viðskiptum. En einnig ber að geta þess að við þurfum að verja hagsmuni okkar á mjög margvíslegum vettvangi. Ég er sjálfur þannig settur að ég hef staðið í því að sitja þing erlendis, einkum og sér í lagi þó þingmannasamkundur Evrópuráðsins og það er ljóst að þar koma oft með litlum fyrirvara mjög brýn hagsmunamál sem tengjast íslenskum hagsmunum. Það hefur sýnt sig að það hefur verið nauðsynlegt að rödd Íslands heyrðist þar og heyrðist vel.

Þess vegna er ljóst að við þurfum að taka ekki minni þátt í alþjóðasamstarfi heldur meiri en gert er nú. Eins er skynsamlegt að skoða vandlega hvernig við getum aukið þetta samstarf með því að nýta okkur þá tækni sem nú er að ryðja sér til rúms í samskiptum manna í milli. Þess vegna lít ég svo á að þetta mál sem hér er flutt sé brýnt og að það beri að skoða á jákvæðan hátt. Að sjálfsögðu nýtum við okkur nú þegar tækni í milliríkjasamstarfi. Millaríkjasamstarf hefur breyst verulega vegna þess að við höfum tekið í þjónustu okkar ýmiss konar tækni sem var annaðhvort ekki til fyrir örfáum árum eða var þá mjög ófullburða.

Það er hins vegar staðreynd að sú tækni sem hefur fengið nafnið upplýsingahraðbrautin hefur ekki enn komist mikið í notkun í sambandi við alþjóðlegt samstarf. Þar rekumst við á ýmsar hindranir. Ég vil nefna það sérstaklega að margar Evrópuþjóðir nýta sér ekki upplýsingatæknina með jafnvirkum og útbreiddum hætti og gert er t.d. í Bandaríkjunum. Það er athyglisvert að bandaríska þingið hefur sett yfir á rafrænt form málskjöl þingsins og mjög ítarlegar upplýsingar um þingið þannig að hægt er að fá aðgang að stjórnmálalífi Bandaríkjamanna í gegnum netið. En hjá fjölmörgum þjóðþingum Evrópuríkja er ekki um þetta að ræða, ellegar að upplýsingarnar eru af mjög skornum skammti.

Þá má einnig geta þess að ef við ætlum okkur að nýta slíka tækni í samskiptum við aðrar þjóðir, þá erum við að sjálfsögðu háð því að sá vettvangur sem við vinnum á nýti sér þessa tækni jafnframt, en á því er þó nokkur misbrestur. Nú er hins vegar að verða hröð breyting á viðhorfi Evrópubúa til þessara mála og vitna blaðagreinar frá sumum af íhaldssömustu löndum Evrópu til þess að þarna séu að verða mikil vatnaskil. Það er mjög brýnt að Íslendingar verði í fararbroddi Evrópuþjóða við að nýta sér upplýsingatæknina. Það er tiltölulega stutt síðan ríkisstjórn Íslands kynnti stefnu sína í málefnum upplýsingasamfélagsins. Sú stefnumörkun hefur mælst vel fyrir. Hún á að geta auðveldað okkur að auka alþjóðlegt samstarf en draga jafnframt úr kostnaði við rekstur samfélagsins og þar á meðal úr þeim kostnaði sem hlýst í alþjóðlegum samskiptum. Það er raunar samnefnari með þessari tækni að hún á á flestum sviðum að geta aukið samskiptin en dregið jafnframt úr kostnaði við þau. Því lít ég svo á að hér sé um brýnt mál að ræða og legg til að það fái jákvæða og fljóta afgreiðslu.