Þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 22:56:52 (2018)

1996-12-10 22:56:52# 121. lþ. 38.16 fundur 132. mál: #A þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[22:56]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú tillaga sem hér er rædd um þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi er að mínu mati tímabært mál og athyglisvert. Ég vil við fyrri umræðu málsins leyfa mér að taka undir þá hugsun sem fram kemur í þessari tillögu sem flutt er af nokkrum hv. þingmönnum Sjálfstfl. þar sem lagt er til að ríkisstjórnin skipi nefnd til að athuga hvernig auðvelda megi þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi með nýrri tækni í fjarskiptamálum og draga jafnframt úr kostnaði samfara slíku starfi.

Það er alveg ljóst að sú tækni sem nú er og er í sjónmáli, á að gera það kleift að samskipti fari fram á alþjóðavettvangi af okkar hálfu í meiri mæli en verið hefur með því að sú tækni er nýtt sem ætti að geta verið í boði. Ég tek þó eindregið undir það sem fram hefur komið m.a. hjá hv. 2. flm. málsins, Tómasi Inga Olrich, sem hér talaði áðan, að auðvitað er það að verulegu leyti háð því að breyting í þessa átt sé skipulögð samræmt og eigi sér stað varðandi samskiptaformið og þar eru menn kannski ekki komnir á mikið skrið enn sem komið er. Mér er ljóst að tilraunir fara fram í þessa átt bæði innan fyrirtækja og í alþjóðlegu samstarfi en þó hygg ég að það sé nokkuð bundið við það að um sé að ræða aðila sem eiga allör samskipti, t.d. fyrirtæki eins og hv. 1. flm. málsins nefndi í sinni framsögu fyrir málinu. Einnig voru nefnd samskipti t.d. sænskra stjórnvalda við aðila innan Evrópusambandsins. Nú hef ég ekki kynnt mér sérstaklega hversu langt menn hafa komist í þeim efnum, en ég á von á því að þar sé um að ræða samstarf sem sé þá innan nefnda eða samráðsvettvangur, en ekki ákvarðandi fundir eða ráðstefnur í ríkari mæli. Auðvitað er sjálfsagt að fylgjast með slíku og fylgja eftir þeim möguleikum sem þarna eru að opnast og vonandi verða enn algengari en nú er.

[23:00]

Ég tek undir þau sjónarmið að okkur er mikil nauðsyn á því að rækja alþjóðleg samskipti af fyllstu alvöru. Ég geri kannski ekki svo mikið með það að þessi samskipti kosta fjármuni því að ég er þeirrar skoðunar að a.m.k. hluti þessara samskipta sé alveg óhjákvæmilegur fyrir okkur Íslendinga og færi okkur í rauninni hagnað sem við annars yrðum af ef við værum ekki þátttakendur. Því er ekki vitrænn kostur að afskrifa slíkt vegna útgjalda heldur er okkur í mörgum tilvikum svo brýn nauðsyn á því að eiga þessi samskipti að við hljótum að leggja í þann kostnað og auðvelt er að færa rök fyrr því að það borgar sig í fjármunum talið og öðru hagræði, a.m.k. til lengri tíma litið. Vissulega kann svo að vera að hluti af þeim samskiptum sem við eigum í eða leggjum í við erlendar þjóðir gefi ekki mikið í aðra hönd, hvorki í beinum né óbeinum mæli reiknað en slíkt er þó oft erfitt að átta sig á fyrir fram. Um er að ræða föst samskipti þar sem menn geta kannski ekki glöggvað sig á því fyrir fram og þá er ég að tala um fundi sem menn sækja héðan, þar sem ekki er gott að átta sig á því fyrir fram hvort það sé ómaksins vert að sitja viðkomandi fundi eða ráðstefnu. Það kemur jafnvel ekki í ljós fyrr en á staðnum. Og eins og hér var nefnt sem dæmi þá gerast á slíkum samkomum viðburðir sem kalla á viðveru þó ekki hafi verið ljóst fyrir fram að á reyndi. Það gildir auðvitað um allan samskiptavettvang eins og við vitum að hann er ekki svo niðurnjörvaður að það liggi ljóst fyrir fyrir fram hvað muni bera við og á hvað muni reyna í slíkum samskiptum.

Málið sem við erum að ræða varðar auðvitað sérstaklega þátttöku okkar sem þjóðar og íslenskra stofnana, íslenska lýðveldisins, þingsins, stjórnvalda allra í alþjóðasamstarfi, þ.e. það sem snýr að tillögunni sérstaklega, en þetta snertir auðvitað jafnframt viðskiptalífið. Það er á sama báti ef svo má segja. En ég tel að við, t.d. á Alþingi Íslendinga, þurfum að gæta þess að sníða okkur í senn stakk eftir vexti en samt að tryggja að við verðum ekki afskiptir í samskiptum sem fara ört vaxandi. Ég vek jafnframt athygli á því að þær skuldbindingar sem við höfum verið að taka á okkur í flóknu alþjóðasamstarfi eins og t.d. varðandi samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, leggja okkur skyldur á herðar sem, ef á að rísa undir þeim, kosta verulega þátttöku, kosta fjármagn, kosta viðveru, ef menn ætla í rauninni að vera sæmilega vissir um að menn nýti þá kosti sem hugsanlega felast í slíku samstarfi en verjist einnig hinu sem getur orðið dýrkeypt ef menn ekki gæta sín. Þetta gildir auðvitað um fjölmargt annað samstarf jafnhliða.

Ég hef á þingferli mínum og raunar áður verið þátttakandi í samstarfi erlendis, tel mig hafa sótt mikið í það, t.d. á vettvangi Norðurlanda, Norðurlandaráðs á sínum tíma þar sem ég var einn af fulltrúum Alþingis um árabil, en það gildir um margt fleira. Eitt af því sem mjög færist í vöxt er samstarf í umhverfismálum. Ég tel að þar sé um að ræða vettvang þar sem við megum heldur ekki láta okkar hlut eftir liggja. Um leið og ég segi þetta, tek ég undir meginefni tillögunnar og tek undir það að einnig í slíku samstarfi ber að nýta þá kosti sem tæknin kann að veita. Ég held að þar geti verið um að ræða blöndu af hvoru tveggja ef vel tekst til og vel er haldið á málum skipulagslega séð af viðkomandi samtökum, þ.e. fundum þar sem er persónuleg viðvera annars vegar og hins vegar þar á milli samskiptum, fundum þar sem komið verður við þráðlausu sambandi þar sem hver talar af sínum heimavettvangi og menn bera saman ráð sín.