Samstarf um nýtingu fiskstofna í Norður-Atlantshafi

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:20:29 (2022)

1996-12-10 23:20:29# 121. lþ. 38.18 fundur 161. mál: #A samstarf um nýtingu fiskstofna í Norður-Atlantshafi# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:20]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 178 flyt ég ásamt hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, varaþm., 4. þm. Norðurl. e., tillögu til þáltill. um samstarf Íslendinga, Dana, Færeyinga og Grænlendinga um nýtingu fiskstofna í Norður-Atlantshafi. Tillagan er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja viðræður við Dani, Færeyinga og Grænlendinga með það í huga að treysta samstarf þessara þjóða í sjávarútvegsmálum, ekki síst að því er varðar nýtingu þess kvóta sem Grænlendingar selja til Evrópusambandsins.``

Í greinargerð segir svo, með leyfi forseta:

,,Tillagan miðar að því að hafnar verði viðræður við Dani, Færeyinga og Grænlendinga um sameiginlega nýtingu þjóðanna á fiskveiðikvóta Grænlendinga í Norður-Atlantshafi.

Sala Grænlendinga á kvóta til Evrópusambandsins og fleiri aðila er að hluta forsenda fyrir veiðum þessara þjóða og eykur það álagið við lögsögumörk Íslands, m.a. á Reykjaneshrygg. Náist samkomulag um að Íslendingar, Danir og Færeyingar gangi inn í kaup á kvóta sem Grænlendingar selja til annarra mun það án efa styrkja stöðu Íslands í framtíðinni við gerð tillagna um nýtingu fiskstofna utan lögsögu suður af landinu.``

Ég hygg, hæstv. forseti, að segja megi að tillagan og efni hennar skýri sig sjálft og ástæðulaust að fara um hana frekari orðum. Ég fer þess á leit að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanrmn. þannig að hún megi kanna forsendur hennar og efni og vonandi geti hún fallist á það sem í tillögunni felst því ég hygg að um það geti tekist allgóð samstaða í þessari virðulegu stofnun.