Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:32:16 (2024)

1996-12-10 23:32:16# 121. lþ. 38.19 fundur 162. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:32]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég hygg að hér sé hreyft býsna mikilvægu máli sem að sönnu er ekki nýtt af nálinni og hefur verið rætt á hinu háa Alþingi og raunar í þjóðfélaginu öllu um langt árabil. Og ég ætla að þingheimur muni og það rifjist upp fyrir honum þau vandamál sem gjarnan hafa orðið til þegar ríkisvaldið hverju sinni eða meiri hluti þingins hefur haft uppi áform um að flytja frá Reykjavík einstakar stofnanir ríkisins út á land. Hafa þá gjarnan risið upp vandamál af ýmsum toga sem oftar en ekki hafa leitt til þess að ekkert hefur orðið úr þessum annars ágætu áformum.

Það er merkilegt til þess að hugsa að stundum hafa það kannski ekki síður verið þingmenn hinna breiðari byggða sem hafa af ýmsum orsökum komið í veg fyrir slík áform. Ég minnist þess sennilega í kringum 1994 að miklar deilur risu upp um flutning tiltekins fyrirtækis ríkisins norður á Akureyri þar sem miklar heitingar urðu. Þeirra vandamála er líka skemmst að minnast sem hafa orðið samfara því að flytja Landmælingar, tiltölulega litla ríkisstofnun, úr Reykjavík upp á Akranes og ekki öll sagan sögð í þeim efnum.

Ég vil árétta áður en ég vík talinu að meginatriðinu, að ég tek undir þá meginhugsun sem fyrirfinnst í þessari till. til þál. Ég held að fyrir löngu sé tími til kominn að látið sé á það reyna hvort raunverulegur pólitískur vilji sé til þess að með pólitísku valdi sé þjónusta opinberra stofnana, sem geta út af fyrir sig sinnt þeirri þjónustu sem þeim er gert að sinna, jafngóð nánast hvar sem er á landinu eða hvort hér séu bara orð á blaði og einhverjar almennar yfirlýsingar á hátíðarstundu, einkanlega þegar pólitíkusar ríða um héruð. Ég held að mjög brýnt sé að menn komist til botns í því í eitt skipti fyrir öll hvort allt þetta tal séu orðin tóm eða hvort raunverulegur pólitískur vilji liggi þarna að baki og þá undanskil ég í raun engan, hvorki þá þingmenn sem eru á suðvesturhorninu ellegar þá þingmenn sem gjarnan meira tala um þetta, þingmenn hinna dreifðari byggða, þingmenn til að mynda Vestfjarða og þingmenn Austfjarða.

Meginástæða þess að ég kem hér upp og kveð mér hljóðs er sú að þessi mál gerði ég að umtalsefni sl. fimmtudag í utandagskrárumræðu þar sem einmitt, með öfugum formerkjum þó, var verið að fjalla um opinbera stjórnsýslu, opinbera þjónustu vítt og breitt um landið. Þá gerði ég að umtalsefni þau tíðindi sem fyrir liggja og þau áform sem fram undan eru varðandi þjónustu Pósts og síma og svo Símamálastofnunar eins og hún heitir í dag eða Pósts og síma hf. Þá var það einmitt hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem lagði þar orð í belg og talaði eilítið í aðra veru en hann gerði núna þegar hann mælti fyrir þessari annars ágætu þáltill. sinni og félaga síns. Þá ræddi hv. þm. þegar ég benti á að allt stefndi í þá átt að ekki einvörðungu stjórnsýsla Pósts og síma hf. mundi flytjast til Reykjavíkur með því að lagðar yrðu niður umdæmisskrifstofur á þremur stöðum á landinu, á Egilsstöðum, á Akureyri og Ísafirði. Ekki síður skyti það mörgum skelk í bringu að verið væri að loka þjónustustofnunum á borð við pósthús á tilteknum stöðum á landinu og væru þó ekki öll áform þar fram gengin sem heyrst hefðu. Þá lagði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson það inn í umræðuna að menn yrðu að sýna ákveðið umburðarlyndi gagnvart fyrirtækjum á borð við Póst og síma hf. sem stæðu í samkeppni væntanlega á almennum markaði og yrðu að aðlaga sig henni þar sem í þessum heimi tækju hlutir sífelldum breytingum og rekstrarumhverfi fyrirtækja breyttist mjög hratt sem gerði það að verkum að fyrirtæki yrðu að aðlaga sig. Ég hlýt því að spyrja, virðulegi forseti, hvor skýringin af tveimur sé rétt. Er það þannig að hv. þm. lítur svo til að þegar Póstur og sími er orðinn að hlutafélagi í eigu ríkissjóðs gildi ekki lengur um það sömu lögmál og opinberar stofnanir sem hann fjallar um í þáltill? Með öðrum orðum sé það markaðurinn og samkeppnin sem ráði ríkjum og Póstur og sími hf. geti eftir næstu áramót ekki fallið undir þá almennu skilgreiningu, þær almennu skyldur sem opinberar stofnanir sannarlega hafa og eru knúnar til eins og gert er ráð fyrir í þáltill. eða er það svo að þetta tiltekna svið, póst- og símamálasviðið, lúti einhverjum allt öðrum lögmálum og það eigi ekki við sem segir í þessari þáltill. að grunnþjónusta á borð við símamál og póstþjónustu skuli vera vítt og breitt um landið? Mér finnst þetta satt að segja skjóta dálítið skökku við, virðulegi forseti. Ég dreg ekki í efa einlægan vilja hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar til að jafna aðstöðu um land allt og búa landsmönnum sambærilega þjónustu hvar sem er. En ég hlýt auðvitað að staldra eilítið við og spyrja hvort þátttaka hv. þm. í umræðum um þessi mál og önnur skyld á fimmtudaginn var hafi verið eins konar slys í þessum efnum. Það var sannarlega stílbrot svo ekki sé sterkar að orði kveðið og ég hlýt að ganga mjög ákveðið eftir svörum við því.

Að öðru leyti árétta ég enn og aftur í þriðja skiptið að tillagan er allra góðra gjalda verð og fái ég til þess tækifæri er ég tilbúinn til þess að leggja henni mitt lið.