Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:39:52 (2025)

1996-12-10 23:39:52# 121. lþ. 38.19 fundur 162. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:39]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér hefur verið mælt fyrir um staðfestingu nýrra ríkisfyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni er, að ég held, annað þingmálið á þessu þingi þar sem beinlínis er fjallað um það viðfangsefni að reyna að dreifa verkefnum á vegum ríkisins meira en orðið er og með skipulegri hætti en gerst hefur um landið. Er það góðra gjalda vert að tillaga af þessu tagi er fram komin og rædd í þinginu.

Ég flutti tillögu ásamt öðrum þingmönnum Alþb. fyrr á þessu þingi --- hún er nú komin til hv. allshn. --- um það að mótaðar verði reglur um undirbúning að flutningi ríkisstofnana, starfsemi á vegum ríkisins, út á land. Tilefni þeirrar tillögu er sú reynsla sem við höfum af viðleitni í þessa átt og mistökum sem gerð hafa verið í þeim efnum oft og tíðum með ekki nógu vönduðum undirbúningi þegar pólitískur vilji hefur verið fyrir hendi til að taka eitthvað á í þessum efnum og ákvarðanir hafa jafnvel snúist í andstæðu sína miðað við þá hugsun sem á bak við bjó. Að einu slíku atviki vék hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, áðan í sínu máli sem varðaði flutning lítils embættis, veiðistjóraembættisins, til Akureyrar sem leiddi til umræðu og deilna sem ég tók þátt í að gefnu og ærnu tilefni. En ég ætla ekki að fara að ræða það frekar. Það liggur sitthvað fyrir þó að ýmislegt hafi verið ósagt í því máli áður en það sofnaði í þinginu, tillaga sem varðaði opinbera rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á því efni.

Ég tel einmitt að við þurfum að læra sitthvað af fortíðinni í þessum efnum. Eitt af því má lesa milli línanna í þessari tillögu, kom reyndar að nokkru leyti fram í máli hv. 1. flm. tillögunnar og í tillögutextanum sjálfum, að viðfangsefnið sé vænlegra í þá átt að staðsetja nýjar stofnanir og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins fremur en það sem oft hefur verið lögð megináhersla á að flytja stofnanir, jafnvel allstórar ríkisstofnanir frá höfuðborginni út á land. Ég tel að þar hafi menn í rauninni verið að nokkru leyti að berjast við ofurefli en sumpart einnig hafi ekki legið rétt hugsun til grundvallar. Ég tel auðsæja kosti þess að mörgu leyti að hafa meginstarfsemi á vegum ríkisins eða miðstöðvar meginstarfsemi á vegum ríkisins staðsettar í höfuðborg. Ég held að ekki séu mjög greindar meiningar um það efni að kostir höfuðborgar eru margir að því er varðar samræmingu starfsemi og annað þess háttar. En hitt sé aftur mikils virði að byggja upp marga stjórnþætti sem tengjast ríkinu og starfsemi ríkisins með samræmdum hætti upp víða á landinu. Ég segi með samræmdum hætti því að ég held að það sé líka þáttur sem mjög hafi á skort að gætt hafi verið þegar tekið hefur verið á þessum málum og tillögur mótaðar m.a. af stjórnskipuðum nefndum og raunar einnig vegna þess að skort hefur á ákveðna grunnskipun í þjóðfélaginu til að auðvelda slík málstök. Þar á ég við skiptingu landsins í umdæmi eða fylki þar sem aðalviðfangsefnið væri það að koma ákveðnum þáttum ríkisins og starfsemi ríkisins, þjónustuþáttum þar á meðal, skipulega út í slík umdæmi. Fyrir þessu hefur ekki verið meirihlutavilji í þinginu, því miður, því að ég er sannfærður um að ef þetta hefði orðið að ráði áður en meginútþenslutímabil hófst í ríkiskerfinu, við skulum segja svona um og upp úr 1970, á þeim áratug, að móta svonefnt þriðja stjórnsýslustig, þá hefðu menn náð öðrum og meiri árangri í þessum efnum en raun ber vitni.

[23:45]

Ég hef trú á því, um leið og ég tek undir það, að sjálfsagt er að athuga að velja nýjum ríkisstofnunum sérstaklega og nýjum fyrirtækjum stað utan höfuðborgarinnar vegna þess að það er augljóslega auðveldara viðfangs heldur en þegar um er að ræða grónar stofnanir og stórar stofnanir á vegum ríkisins sem þegar risnar eru. Ég held að lykillinn að þessum málum sé fyrst og fremst sá að koma upp starfsemi á vegum ríkisins í afmörkuðum umdæmum landsins með samræmdum hætti til að rækja þar þjónustu sem til fellur við íbúana og ýmsa starfsemi sem eðli máls samkvæmt er staðbundin, þarf að rækja staðbundið, svæðisbundið. Það á m.a. við um tiltekna rannsóknarstarfsemi, fyrirgreiðsu við atvinnulíf, þróun atvinnustarfsemi og undirstöður hennar eins og viðleitni er til núna úti í landshlutunum. Ég vona sannarlega að menn taki þessi mál til endurnýjaðrar athugunar og endurmótunar og kveðji þá hugsun sem ég tel að hafi sýnt það að hún er ekki vænleg til árangurs, þ.e. að ætla að dreifa stórum ríkisfyrirtækjum út um landið í heild sinni. En hitt er jafnsjálfsagt að skipta starfsemi þeirra upp, færa það sem er svæðisbundin starfsemi út í umdæmin en viðhalda ákveðinni miðstöð að starfseminni eftir atvikum á höfuðborgarsvæðinu.

Ég held að ein leiðin í þessum efnum miðað við það að starfsemi ríkisins vaxi á ákveðnum sviðum, sjálfsagt misjafnt eftir því um hvaða svið er að ræða, sé að athuga einmitt fjölgunina, þ.e. að þá verði það athugað að ný starfsemi eða fjölgun starfsmanna á vegum stofnana á vegum ríkisins eða fyrirtækja, verði fyrir komið út um land.

Ég hef margt fleira um þetta að segja. Því miður er það svo að margt af því sem er að gerast núna er einmitt í öfuga átt og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson minnti á eitt efni sem það mál varðar. En það snertir fjölmargt annað, og tengist m.a. fjárlagaafgreiðslu sem er fram undan á Alþingi og tillögum sem þar að lúta, þ.e. samdráttur í mikilvægum þáttum í ríkisstarfseminni sem hittir landsbyggðina sérstaklega alvarlega fyrir eins og á sviði heilsugæslu og skóla og annað af þeim toga.