Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 23:48:26 (2026)

1996-12-10 23:48:26# 121. lþ. 38.19 fundur 162. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[23:48]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka sérstaklega þær ágætu viðtökur sem þessi till. til þál. fékk í umræðum sem fylgdu í kjölfar ræðu minnar. Ég tel að í báðum þessum ræðum hafi komið fram almennur stuðningur við þau viðhorf sem sett eru fram í þessari tillögu.

Það er aðeins fyrst út af því sem hv. 9. þm. Reykn. sagði um það hvort hér væri um að ræða almennar yfirlýsingar á hátíðarstundum eða hvað byggi að baki. Það er alveg rétt sem í máli hans fólst að við höfum auðvitað oft verið með almennar yfirlýsingar af þessu taginu um nauðsyn þess að setja niður ríkisfyrirtæki og stofnanir úti á landi en fátt orðið síðan úr efndunum. Það sem felst hins vegar í þessari tillögu er tilraun okkar flutningsmanna til þess að marka ákveðna stefnu, að Alþingi taki tiltekið frumkvæði og ákveði að setja niður ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir úti á landi þar sem því verður við komið.

Ýmsar ríkisstofnanir eru kannski ekkert endilega mjög vel til þess fallnar að vera staðsettar utan seilingarfæris frá stjórnsýslunni og það er engin ástæða til þess að gera lítið úr því. Það eru ýmsar ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki sem eðli málsins samkvæmt eru miklu betur komnar hér í höfuðborginni eins og raunar kom fram í máli hv. 4. þm. Austurl. Það er engin ástæða til þess að gera lítið úr þessu. Það breytir því hins vegar ekki að mörg ríkisfyrirtæki og mjög margar ríkisstofnanir og mörg störf á vegum hins opinbera sem nú eru unnin í ýmsum öðrum fyrirtækjum og stofnunum á höfuðborgarsvæðinu gætu allt eins vel verið úti á landi án þess að það hefði nokkur slæm áhrif á starfsemina. Þessi tillaga felur þess vegna í sér tilraun til þess að Alþingi marki framkvæmdarvaldinu stefnu um staðsetningu ríkisfyrirtækja og stofnana út um landið þannig að það liggi fyrir að í hvert skipti sem menn hyggja að því að setja á laggirnar nýja stofnun eða nýtt fyrirtæki ríkisins, þá sé farið skipulega í að athuga hvort ekki megi koma þessari starfsemi fyrir með jafngóðum eða sambærilegum hætti út um landið.

Ég er alveg sammála því sem fram kom líka í máli hv. 4. þm. Austurl. að hluti af þessu getur auðvitað verið í því fólginn að skipta þessum stofnunum upp, setja hluta af þeim niður út um landið, jafnvel meginhlutann en einhvern þann hluta sem kallar á sérstakt nábýli við stjórnsýsluna á höfuðborgarsvæðið. Þetta er álitamál sem þarf að skoða í hvert eitt sinn. Engu að síður þarf að liggja fyrir ótvíræður vilji meiri hluta Alþingis um það hvert beri að stefna í þessum efnum.

Hv. 9. þm. Reykn. gerði líka að umtalsefni umræður sem fóru fram í síðustu viku um starfsemi Pósts og síma og þátttöku mína í þeirri umræðu. Ég mótmæli því að nokkur mótsögn hafi falist í því sem ég sagði þar og því sem ég er hér að halda fram nema síður sé vegna þess að þegar grannt er skoðað, þá er starfsemi Pósts og síma að sönnu að taka miklum breytingum. Þær breytingar stafa mestan part af því að í fyrsta lagi er Póstur og sími að aðlaga sig núna eins og oft áður að tæknilegum breytingum í starfsemi fyrirtækisins, í rekstrarlegum breytingum sem alltaf eru að eiga sér stað, ekki síst á þessu sviði, fjarskipta- og póstsviðinu og síðast en ekki síst er fyrirtækið líka að aðlaga sig að því sem var mjög áberandi í umræðunni þegar verið var að formbreyta Pósti og síma, að skilja betur á milli pósthlutans og fjarskiptahlutans. Auðvitað hlýtur þetta að kalla á allnokkra röskun á starfseminni, breytingar á starfseminni, tilfærslu á störfum og ekki bara frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Það er rangt. Heldur ekki síður innan landshlutanna og einnig frá höfuðborgarsvæðinu og út á land.

Hvað á ég við? Í fyrsta lagi hefur verið talað um lokun póststöðva. Lokun póststöðva hefur verið boðuð á stöðum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu, og á Suðurnesjum, þannig að hér er ekki um að ræða einhliða lokun fyrirtækisins á póststöðvum á landsbyggðinni. Það er ekki rétt. Það er líka að verða breyting á því að umdæmisskrifstofurnar eru lagðar niður, en í staðinn eru settar upp sérstakar svæðisskrifstofur sem verða fleiri úti á landi eftir þessa breytingu en umdæmisskrifstofurnar voru og munu skipa mjög mikilvægan sess í þjónustukerfi Pósts og síma, annast samræmingu og eftirlit með þjónustu fyrirtækisins á þessu svæði, sjá um ýmiss konar upplýsingamiðlun, fræðslu, leiðbeiningar og ekki síst markaðsstarfsemi, virðulegi forseti. Á það er ástæða til að leggja áherslu því að sú starfsemi á vegum þessa stóra, öfluga, myndarlega og góða fyrirtækis hefur að langmestu leyti átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Ég held því einmitt að þetta dæmi um Póst og síma sé ágætt dæmi um það þegar verið er að reyna að færa starfsemi út á land sem núna er á höfuðborgarsvæðinu í því skyni að reyna að efla hana, efla tengsl fyrirtækisins við notendurna

Ég vil aðeins gera athugasemd við eitt í máli hv. 4. þm. Austurl., þá hugmynd að starfsemi ríkisstofnana, ef ég skildi hann rétt, ætti einkanlega að felast í því að flytja hina svæðisbundnu starfsemi út á land. Þetta tel ég að sé ekki alveg nóg. Út af fyrir sig get ég tekið undir að það sé ágætt að flytja svæðisbundna starfsemi út á land en mjög margs konar önnur starfsemi á þar einnig mjög vel heima. Það er í fyrsta lagi alls konar skráningarstarfsemi sem nútímafjarskipti gefa okkur kost á og margs konar samskipti við útlönd sem fara fram með fjarskiptaforminu geta auðvitað átt sér stað á landsbyggðinni eins og alls staðar annars staðar. Og það er enn fremur margs konar upplýsingaöflun sem nú fer að langmestu leyti fram í gegnum höfuðstöðvar fyrirtækja, ríkisfyrirtækja og stofnana á höfuðborgarsvæðinu. Það eru auðvitað full rök fyrir því að þessi starfsemi sé úti á landi og þess vegna er það mín skoðun sem endurspeglast raunar í þessari tillögu að vel megi flytja ríkisstofnanir eða staðsetja ríkisstofnanir og fyrirtæki í heilu lagi úti á landi. Þó það sé kannski dálítil oftúlkun hjá mér að segja að hv. þm. hafi verið að andmæla því, þá fannst mér of mikil áhersla í máli hans á það að svæðisbundna starfsemin ætti fyrst og fremst erindi út á landsbyggðina vegna þess að ef við skoðum t.d. lög um ýmis ríkisfyrirtæki og stofnanir, blasir það við að skilgreind verkefni þeirra gætu átt sér stað og gætu verið framkvæmd nánast hvar sem er á landinu nú orðið þó að forsendurnar hafi ekki verið til staðar þegar þessar ríkisstofnanir voru settar á laggirnar.

Allt þetta rökstyður það að í þessum breytilega og breytta heimi sem er að skapa okkur nýjar forsendur og nýja möguleika, er ástæða til þess að taka þessi mál til endurskoðunar og hefja nýtt átak í því að staðsetja ný ríkisfyrirtæki og stofnanir á landsbyggðinni og marka um það sérstakar meginlínur.