Reglur um tæki sem senda rafsegulbylgjur

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 14:46:56 (2039)

1996-12-11 14:46:56# 121. lþ. 39.2 fundur 179. mál: #A reglur um tæki sem senda rafsegulbylgjur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Mér finnst svör hæstv. ráðherra vera fróðleg og gefa fyllilega til kynna að menn hafa áhyggjur af þessum málum. Um þetta hafa verið settar reglur og ábendingar um það og talað um nánari útlistun í sambandi við flugrekstrarhandbók. Og þó að ekki sé vitað um dæmi þess að þetta hafi truflað eða skapað hættuástand í flugi hérlendis, þá er það mitt mat að það sé nokkuð augljóst að menn þurfi að vera á vaktinni varðandi þessi atriði. Það sem mér sýnist að þyrfti að gera af opinberri hálfu, og þessi fyrirspurn gæti e.t.v. hjálpað til þess, er að skýrari upplýsingar um þessi efni kæmu til almennings og þeirra sem nota flugið, þ.e. farþega í flugi, því að það skiptir áreiðanlega miklu upp á það að reglur séu haldnar að fólk átti sig á því hvaða ástand geti skapast, hvaða hætta geti skapast af notkun slíkra tækja.

Í umræddi grein sem ég vitnaði til eru rakin dæmi um það að áminning til farþega hafi skilað litlum árangri. Það er tekið dæmi þar sem stóð yfir knattspyrnukappleikur og það var innanlandsflug í Bandaríkjunum. Og eftir að áminning hafði verið gefin og bannað að nota tækin var þetta kannað og reyndust flestir vera með tækið í eyranu til þess að fylgjast með kappleiknum þrátt fyrir tilmælin. Það er auðvitað alvarlegt ef svona tilmæli eru hunsuð. Og spurningin er: Þarf að ganga lengra? Þurfa að gerast sannanleg slys eða óhöpp til þess að menn grípi til frekari varúðarráðstafana? Það er ljóst og vita allir að flugið er orðið mjög hátækniþróað að öllu leyti og sá búnaður sem þar er er mjög viðkvæmur fyrir truflunum og eins og ég gat um voru nefnd fjölmörg dæmi um slys og óhöpp í flugi, ég held innan Bandaríkjanna, sem eru rakin til notkunar á slíkum tækjum þannig að vonandi fylgjast menn náið með þessu og setja skýrar reglur eftir því sem þörf er á og koma á framfæri upplýsingum til almennings um hvað býr að baki þessum reglum.