Mengunarvarnareglugerð

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 14:58:40 (2043)

1996-12-11 14:58:40# 121. lþ. 39.3 fundur 188. mál: #A mengunarvarnareglugerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að undrast svar hæstv. ráðherra. Ráðherrann rekur hér breytingarnar sem gerðar eru á reglugerð og þær liggja fyrir. Það var ekki vandamálið. En hæstv. ráðherra svarar ekki fyrirspurninni um lagastoðina og hvernig hann leyfir sér að setja reglugerð sem þessa í ljósi ákvæða 26. gr. laganna sem kveða alveg skýrt og ljóst á um ferlið. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra sé ósáttur við lögin en þá er verkefnið að breyta lögunum en ekki að setja reglugerð sem á sér, að mér finnst, ekki lagastoð eða a.m.k. stangast mjög á við þau ákvæði sem fram koma í lögunum. Mér finnst því að hæstv. ráðherra verði að gera hreinna fyrir sínum dyrum í þessu efni. Og maður hlýtur að spyrja af hverju sé nú verið að setja þessa reglugerðarbreytingu í stað þess að flytja brtt. við lögin til þess að fá ferlið rökrætt því að ég skil út af fyrir sig það vandamál sem hæstv. ráðherra er að vísa til í þessu sambandi. Ég átta mig alveg á því. En af hverju er verið að gera þetta? Er það vegna þess að menn eru að fást við mál sem varðar stóriðjufyrirtæki eins og álbræðslu á Grundartanga? Er það rótin að þessu flaustri í sambandi við reglugerðarsetningu sem stangast alveg á við þá reglugerð sem gilti þegar fjallað var um starfsleyfi fyrir álbræðslu í Straumsvík fyrir ári síðan og var kveðin m.a. upp af úrskurðarnefnd á grundvelli 26. gr. laganna, sérstakur úrskurður um álitaefni varðandi reglugerðina? Þetta er því mjög skrýtið.

Síðan vekur það athygli, hæstv. forseti, að í umræddri reglugerðarbreytingu frá síðasta sumri, þessari nýju reglugerð ráðherrans er ekki minnst á stjórn Hollustuverndar sem kveðið er á um í lögunum sem aðila að máli, í 26. gr. laganna, en aðeins talað um Hollustuvernd ríkisins eða stofnunina. Svo er vísað í stjórnsýslulög sem ég hef út af fyrir sig ekkert við að athuga að öðru leyti en því að stjórnsýslulög sem almenn löggjöf taka ekki úr sambandi ákvæði sérlaga.