Rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 15:10:31 (2047)

1996-12-11 15:10:31# 121. lþ. 39.4 fundur 212. mál: #A rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[15:10]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að nefnd um mótun menntastefnu hafi eitthvað hagnýtt sér niðurstöður Allyson Macdonald en það er alveg ljóst að enn sést ekki að neitt átak hafi verið gert í náttúrufræðikennslu í skólum og síðan eru þó þrjú ár. Þetta sýnir áhugaleysi og máttleysi stjórnar Sjálfstfl. í menntamálum sem setið hefur í ráðuneytinu frá 1991.

Svíar fengu svipaða niðurstöðu fyrir nokkrum árum og þá gerðu þeir strax átak í kennslu raungreina í kjölfarið með þeim afleiðingum að nú koma þeir mun betur út úr TIMSS-rannsókninni en þeir höfðu gert áður. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. menntmrh.:

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við niðurstöðum TIMSS-rannsóknarinnar nú? Á eingöngu að endurskoða námskrána eða á að leggja frekara átak í raungreinakennslu strax eða á að bíða eftir að niðurstöðurnar verði greindar nánar?

Þá vil ég einnig í þessu sambandi spyrja hann hvort hann hyggst lengja kennaramenntunina í fjögur ár með tilliti til þess samanburðar sem kemur fram á menntun kennara í TIMSS-rannsókninni og þá hvenær.