Rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 15:12:12 (2048)

1996-12-11 15:12:12# 121. lþ. 39.4 fundur 212. mál: #A rannsóknir á náttúrufræðikennslu í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka menntmrh. þau svör sem hann gaf hér og fagna því að sú rannsókn sem ég vitnaði til og er að spyrja um hefur þó orðið til þess gagns sem hann nefndi hér þó að ég taki einnig undir þá gagnrýni sem hefur komið fram um að ekki hafi verið brugðist nógu vel við á þeim tíma. Það hefði verið æskilegt, strax þegar umfjöllun fór í gang um TIMSS-rannsóknina eða niðurstöðurnar, að fram hefði komið að íslensk stjórnvöld hefðu verið sér vitandi um þennan vanda í smátíma til þess að þjóðin mætti vita að við værum ekki alls óupplýst um stöðuna í okkar skólakerfi eins og virtist vera þegar menn segja hér í þingi: Þjóðin hefur orðið fyrir áfalli, og það varaformaður menntmn. þingsins. Það hefði strax verið í áttina ef það hefði verið nefnt í þeim umræðum sem hér fóru fram.

Ég fagna því að það eigi að vera áhersla á tækni- og tölvulæsi m.a. í þeirri námskrá sem verið er að vinna. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að geta mætt þeirri tækni sem sífellt endurnýjast með þekkingu og að þeirri þekkingu verði best komið á framfæri í gegnum skólana.

Ég held líka að það sé ástæða fyrir okkur að hafa áhyggjur af því sama og Norðmenn hafa áhyggjur af, í rauninni vegna nákvæmlega sömu niðurstöðu hjá sér, sem er að ef við ekki bregðumst eðlilega við, þá gæti orðið skortur á vísindamönnum hér á landi í framtíðinni. Við gætum líka staðið frammi fyrir þeirri hættu að fólk þekkti ekki þá tækni sem það þarf að búa við. Ég óttast hins vegar, herra forseti, þær áherslur sem hér er verið að leggja á það að auka svokallaða fagmennsku en minnka þekkingu í uppeldisfræði í grunnskólunum. Í okkar vinnuþjakaða samfélagi, þar sem skólunum hefur sannarlega verið ætlað að taka við stórum hluta uppeldis, verðum við að taka tillit til hvernig er í pottinn búið. Við getum ekki keyrt áfram með börn á aldrinum 6--15 ára á klárri fagmennsku án þess að hafa uppeldisfræðina þar með.