Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 16:23:39 (2070)

1996-12-11 16:23:39# 121. lþ. 40.11 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur

[16:23]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mun hér aðeins ræða þá brtt. sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði grein fyrir. Hún kom það seint fram að það var ekki hægt að ræða hana í gær þegar umræða fór einnig fram um þetta sama mál. Brtt. hv. þm., formanns efh.- og viðskn., snýst um ákvæði í frv. sem varðar skiptingu í hlutafélög. Allsnörp orðaskipti urðu um þennan þátt frv. við 2. umr. en ákvæði í frv. um skiptingu hlutafélaga kom fyrst fram milli 1. og 2. umr. Ég fagna þessari tillögu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar enda er hún byggð á áliti færustu endurskoðenda en ég taldi einmitt nauðsynlegt að reynt yrði að gera þessi ákvæði sem best úr garði við lögfestingu enda er málið flókið. Frumvarpsgreinin hefur skýrst og batnað. Ég tel að það sem hér er lagt til sé betrumbót á þessum þætti frv. en afstaða mín og minni hluta efh.- og viðskn. til meginþátta frv. er óbreytt. Brtt. minni hlutans við 3. umr. eru smávægilegar lagfæringar og teknir eru inn þættir sem höfðu af vangá fallið niður. Þær eru ekki efnisbreytingar frá því sem áður hafði verið kynnt.