Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 16:28:24 (2072)

1996-12-11 16:28:24# 121. lþ. 40.11 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur

[16:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. er hluti af ranglátri skattapólitík hæstv. ríkisstjórnar. Þær breytingar sem mest munar um í skattamálum á undanförnum árum hafa nær allar gengið í þá átt að færa skattbyrði af fyrirtækjum og gróðaaðilum yfir á almenning og launafólk. Hér er haldið áfram á sömu braut því flestar þær ívilnandi aðgerðir sem á annað borð eru á ferðinni í þessu frv. ganga í þá átt að létta álögum af fyrirtækjum og færa þær yfir á almenning.

Það sem sérstaklega stingur í augun við afgreiðslu þessa frv. eru þau algjöru svik sem í því felast gagnvart loforðum hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokka, einkum Framsfl., að taka á svonefndum jaðarsköttum. Í þessu frv. er verið að staðfesta að það á að leggja á tekjuskatt á næsta ári á Íslandi án þess að nokkuð sé hróflað við því mikla óréttlæti sem þar er að finna hvað þetta snertir. Því mótmæli ég sérstaklega og greiði atkvæði gegn þessu frv.