Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:23:43 (2104)

1996-12-12 17:23:43# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:23]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur verið rakið var samþykkt vorið 1995 á hinu háa Alþingi að fela menntmrh. að hefja undirbúning að því að koma á námi í iðjuþjálfun hér á landi. Ég lít svo á að sá undirbúningur hafi farið fram og nú skortir einungis að það fáist peningar til framkvæmda. Það er auðvitað í hendi okkar hér á Alþingi að sjá til þess að þeir peningar fáist.

Eins og komið hefur fram setur Háskóli Íslands þetta nám ekki í forgang sem er afar skiljanlegt í ljósi þeirrar þröngu stöðu sem háskólinn er í. Háskóli Íslands stendur í rauninni frekar frammi fyrir því núna að skera niður kennslu og jafnvel að hætta kennslu í ákveðnum greinum en að bæta við. Hér kemur því enn og aftur að því að það þarf að auka fjárveitingar til Háskóla Íslands.

Ég fékk upplýsingar um að nú séu um 30 manns í námi í iðjuþjálfun erlendis og það gefur auga leið að það kostar auðvitað peninga. Mér er líka sagt að það sé erfiðara og erfiðara að komast að í þessu námi. Það er eins og víða, það þrengir að og það eru kvótar í gangi. Þar af leiðandi geta færri og færri Íslendingar komist í þetta nám.

Mér er líka sagt að það fólk sem hefur lokið námi erlendis skili sér æ verr heim og segir mér svo hugur um að þar blandist launamálin inn í. En ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að mjög mikil þörf er fyrir iðjuþjálfa í okkar samfélagi. Af störfum þeirra getur leitt mikinn sparnað í samfélaginu þannig að ég vil hvetja meiri hlutann og alla hér á hinu háa Alþingi að veita þessu máli lið. Það er okkar að tryggja fjármagnið þannig að kennsla geti hafist í iðjuþjálfun.