Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:25:53 (2105)

1996-12-12 17:25:53# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:25]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil líka byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. fyrir að hefja máls á þessu brýna máli hér á Alþingi og vekja athygli á stöðu þessa náms, bæði möguleikum þeirra sem hyggjast sækja það og hver staðan er gagnvart Háskóla Íslands. Það vekur óneitanlega athygli við lestur þáltill. sem samþykkt var á Alþingi þann 25. febrúar 1995, að að henni standa sex hv. stjórnarþingmenn. Það leiðir auðvitað hugann að því hvort menn hafi ekki hugleitt afleiðingar af þessari samþykkt og reynt að láta fylgja eftir eitthvert fjármagn til þess að koma þessu máli í framkvæmd samkvæmt tillögunni.

Ég vil vitna til orða hæstv. menntmrh. hér áðan þar sem hann vísaði til samskipta við Háskóla Íslands og þar sem háskólanum var í rauninni stillt upp við vegg og gert að skilyrði að skera niður fjármagn annars staðar ef ætti að koma þessu námi á laggirnar. Þetta er auðvitað óþolandi því að sjálfsögðu er háskólinn í þröngri stöðu og augljóst að ekki er hægt að bæta við nýjum verkefnum öðruvísi en að setja eitthvað til hliðar á meðan. Þess vegna held ég að það sé ástæða til að skora á hæstv. menntmrh. að endurskoða þessi fyrirmæli sín til Háskóla Íslands og gera honum kleift að koma þessu námi á laggirnar hið fyrsta. Það má benda á að gert var ráð fyrir að samnýta að miklu leyti kennslu í öðrum heilbrigðisgreinum, ekki síst sjúkraþjálfun, sem í dag er kennd við háskólann. Það gæti verið verulegur sparnaður fólginn í því, svo ég tali ekki um að það verður hagkvæmt fyrir þjóðfélagið allt ef þetta nám flyst heim. Það verður ódýrara fyrir þá sem hyggjast sækja námið að sækja það hér heima. Það verður sparnaður fyrir þjóðfélagið að fá þessa stétt til viðbótar og við skulum hætta að treysta of mikið á nágrannaþjóðir okkar til að mennta okkar fólk.