Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:34:43 (2109)

1996-12-12 17:34:43# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), Flm. GL
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:34]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf. Það veldur mér vonbrigðum að háskólinn hafi nú skipt um skoðun því að með samþykkt háskólaráðs frá 9. maí 1996 var lagt til að hafin verði kennsla í iðjuþjálfun til BS-prófs við háskólann haustið 1997. Nú upplýsir hæstv. menntmrh. að háskólinn hafi ekki lengur áhuga á því að taka að sér þessa kennslu og það eru auðvitað mikil vonbrigði því að í bréfi eða samþykkt háskólaráðs segir að ef nauðsynleg fjárveiting, húsnæði og aðstaða fáist, þá sé háskólinn tilbúinn til þess að hefja þessa kennslu og út frá því hefur þingflokkur Alþb. samþykkt að mæla með því við 2. umr. fjárlaga að fé verði veitt til þess að koma til móts við þessar óskir háskólans. En eins og ég skil málið, þá er það orðið stopp vegna þess að háskólinn hefur ekki lengur áhuga, þ.e. Háskóli Íslands.

Þá er kannski næst að horfa til þess að á Akureyri er líka háskólastofnun sem er tilbúin til þess eins og hefur komið fram í umræðunni að taka þessa kennslu að sér en í sjálfu sér er það ekki meginatriði í mínum huga hvort námið fer fram í Reykjavík eða á Akureyri. Aðalatriðið er að námið fari fram hér á landi einfaldlega vegna þess að það er komið að ákveðnum tímamótum í þessu námi. Það er komið að þeim tímamótum að vegna samninga Evrópusambandsins fellur úr gildi samkomulag sem hefur verið milli Norðurlandanna og þess vegna er orðið æ erfiðara að komast í þetta nám. Og annað sem ég vil líka leggja áherslu á er að þar sem flestir hafa stundað þetta nám á Norðurlöndunum þá hefur það ekki gefið rétt til BS-prófs og fæstir hafa haft efni á því að stunda námið í þeim löndum þar sem slík gráða er veitt vegna þess að samkvæmt lánareglum LÍN hefur ekki verið hægt að lána fyrir skólagjöldum. En ég vonast til þess að málið fái farsæla framgöngu.