Lánsfjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:39:46 (2111)

1996-12-12 17:39:46# 121. lþ. 42.2 fundur 226. mál: #A lánsfjáraukalög 1996# (útgáfa húsbréfa) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:39]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til lánsfjáraukalaga sem er 226. mál þingsins og er að finna á þskj. 306. Þetta er einfalt frv. og satt að segja hefur það gerst æ sjaldnar í seinni tíð að flutt eru frumvörp til lánsfjáraukalaga. Tel ég að það sé góður siður að komast hjá slíku og sýni betri ráðdeild í ríkisbúskapnum þegar hægt er að búa við ein lánsfjárlög yfir árið. Öðruvísi mér áður brá.

Hér er einungis verið að leggja til að sú breyting verði gerð á lánsfjárlögum yfirstandandi árs að sú upphæð sem rennur til húsbréfa hækki um 1 milljarð, úr 13,5 milljörðum í 14,5 milljarða. Í athugasemdum sem koma frá félmrh., en þetta er verksvið félmrn. þótt það falli í hlut fjmrh. að flytja frv., kemur fram eins og ég hef sagt að afgreiðsla húsbréfa var áætluð 13,5 milljarðar kr. í lánsfjárlögum fyrir árið 1996. Útgáfan stefnir hins vegar í að verða allt að 14,5 milljarðar kr. á þessu ári og er sótt um heimild Alþingis um viðbót á núverandi útgáfu sem því nemur. Eftirspurn eftir húsbréfum hefur aukist og er gert ráð fyrir að samþykkt skuldabréfaskipti húsbréfadeildar muni í lok ársins verða um 20% fleiri en í fyrra. Aukin útgáfa nú er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir stöðvun afgreiðslu húsbréfa í desember.

Það er þekkt frá fyrri tíð hve óheppilegt það getur verið þegar koma hnökrar á skuldabréfaskiptin. Það getur leitt til óheppilegra vaxtabreytinga. Það sem hér er að gerast er fyrst og fremst það að góðærið er að skila sér í auknum húsakaupum og húsbyggingum með þeim afleiðingum að fólk sækir í meira mæli eftir þessum lánum en gert var ráð fyrir.

Ástæða er til að benda á síðari málsgrein athugasemdanna en þar kemur fram að félmrh. og fjmrh. séu sammála um að hraða eftir því sem kostur er að færa húsbréfakerfið til banka og sparisjóða. Félagsmálaráðherra mun á næstu dögum skipa nefnd til að undirbúa gerð þjónustusamnings við banka og sparisjóði er feli í sér að greiðslumat og skuldabréfaskipti í húsbréfakerfinu verði hjá bönkum og sparisjóðum þannig að þeir beri fulla ábyrgð á greiðslumatinu. Stefnt skal að því að húsbréfadeild gefi út húsbréf og noti andvirði þeirra til að endurfjármagna húsnæðislán sem bankar og sparisjóðir veita. Húsbréfadeildin kaupi lán af bönkum og sparisjóðum samkvæmt sömu reglum um lánshlutföll, hámarkslán og veðmat og deildin beitir sjálf í dag. Síðan segir í lokin að gert sé ráð fyrir að tillögugerð og undirbúningi nefndarinnar verði lokið fyrir 1. mars 1997 og mun það mál að sjálfsögðu koma til Alþingis þegar það liggur endanlega fyrir og eins og lög gera ráð fyrir.

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, leggja til samkvæmt 25. gr. þingskapa að málið fari til fjárln. Þótt lánsfjáraukalög séu ekki nefnd þar á nafn verður að gera ráð fyrir að löggjafinn hafi ætlast til þess að lánsfjáraukalagafrumvörp gangi til sömu nefndar og lánsfjárlagafrumvörp. Þess vegna legg ég til að auk þess að málinu verði vísað til 2. umr. verði það til umfjöllunar í hv. fjárln.