Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:49:39 (2112)

1996-12-12 17:49:39# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:49]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég var þar kominn ræðu minni þar sem ég hafði farið yfir þá gagnrýni sem 1. minni hluti sjútvn. hafði sett fram á það gríðarlega valdframsal sem er að finna í frv. Ég hafði farið yfir 3., 4. og 5. gr. Sömu athugasemdir eiga við um 3. mgr. 6. gr. og fram kom um 5. gr. hér áðan.

Það er ekki hægt að ljúka því að fara yfir frv., virðulegi forseti, nema fara aðeins yfir þær athugasemdir sem nefndinni bárust frá Katli Sigurjónssyni lögfræðingi og kennara í hafrétti við Háskóla Íslands. Þar gagnrýnir hann harðlega frv. sem hér liggur fyrir og hvetur til þess að Alþingi eyði nú meiri tíma í að ljúka vinnu við það frv. svo ekki þurfi að óttast að dómstólar muni kveða á um að frv. standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.

Í umræddu áliti vitnar fræðimaðurinn, sem er kennari við Háskóla Íslands, til nýgengins hæstaréttardóms þar sem kveðið er á um að valdframsal til ráðherra, þ.e. í svokölluðu Samherjamáli þar sem valdframsal til utanrrh. var ekki talið eiga stoð í lögum og brjóta í bága við 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Í greinargerð Ketils Sigurjónssonar segir svo, með leyfi forseta:

,,Meginviðmiðunin er hvort framsalið feli í sér vald til handa stjórnsýsluhafa að ákveða íþyngjandi ráðstafanir. Framsal lagasetningarvalds er því einkum ólögmætt ef með því er kveðið á um heimild til handa stjórnsýsluhafa (þar á meðal ráðherra) að skerða frelsi manna, leggja á kvaðir eða mæla fyrir um refsingar.

Til að framsal lagasetningarvalds til ráðherra geti staðist, þegar um er að ræða íþyngjandi ráðstafanir, er nauðsynlegt að viðkomandi lög hafi að geyma meginreglur (nokkurs konar ramma) um takmörk eða umfang þeirrar réttindaskerðingar sem ráðherra er heimiluð.``

Þetta álit fræðimanna hefur verið dregið af mörgum dómum sem hafa fallið í Hæstarétti. Það er einmitt á þessum grunni sem við gagnrýnum frv. harðlega vegna þess að hvergi er að finna svo orð sé á gerandi skilyrði eða leiðbeiningarreglur frá Alþingi hvernig ráðherra eigi að nota þessar heimildir sem geta verið mjög íþyngjandi. Nú um nokkurt skeið hafa nokkrir dómar fallið þar sem niðurstaðan hefur verið sú að löggjöf frá Alþingi er ekki talin standast stjórnarskrá. Vitaskuld er það gagnrýni á hið háa Alþingi. Það er gagnrýni um það að vinnubrögð við lagasetningu séu ekki nægilega góð. Lagasetning er erfið. Það er erfitt að setja lög. Það krefst mikillar vinnu að setja saman lög svo vel sé og þau standist þær meginreglur og þau ákvæði stjórnarskrár sem þau þurfa að standast. Því miður er allt of oft að í gegnum þingið fari með einhverjum flumbrugangi frumvörp sem ekki er nægileg vinna lögð í. Það er nákvæmlega það sem á við í þessu tilviki, virðulegi forseti, að vinnan við þetta frv. er langt frá því að vera nægileg. Þess vegna getum við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og sá sem hér stendur, ekki staðið að samþykkt þess.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég taka undir þá gagnrýni sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson setti fram áðan og óskaði skýringa á varðandi hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Guðmund Hallvarðsson og Einar K. Guðfinnsson, þingmenn sem hafa gagnrýnt mjög heimildina til að framselja veiðiheimildir. Ég get ekki séð, þegar færa á stjórnkerfi fiskveiða út yfir öll heimsins höf og þar á meðal veita heimild til að framselja veiðiheimildir, að þeir þingmenn geti staðið að samþykkt slíks frv. Að minnsta kosti þurfa þeir að gera grein fyrir því hér.