Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:16:49 (2119)

1996-12-12 18:16:49# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:16]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð í tilefni þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. Í fyrsta lagi vil ég víkja að þeim fullyrðingum sem settar hafa verið fram af nokkrum hv. þm. um að hér sé á ferðinni frv. sem miði að því að takmarka möguleika á rétti íslenskra skipa til úthafsveiða. Þetta er mikill misskilningur enda engin leið að færa nein rök fyrir slíkri fullyrðinug og þeir hv. þm. sem héldu þessu fram færðu heldur engin rök fyrir máli sínu. Sannleikurinn er sá að frv. byggir á þeirri meginreglu að veiðar utan lögsögu séu frjálsar nema í þeim tilvikum þar sem gerðir eru samningar um takmörkun veiða og það er meginefni frv. Það er með öðrum orðum alveg ljóst að hér er ekki á neinn hátt verið að takmarka útrás íslenskra skipa eða möguleika þeirra til þess að afla sér veiðireynslu í úthöfunum.

Það hefur svo verið rætt hér nokkuð um valdframsal í frv. Nú er á það að líta að það eru gildandi lög frá 1976 um úthafsveiðar. Þar er kveðið á um að ráðherra geti sett þær reglur sem þurfa þykir. Í sjálfu sér er ekki hægt að fyrirfinna í íslensku lagasafni lög sem veita ráðherra meira frelsi til þess að setja reglur en gildandi úthafsveiðilög. Það er eitthvað mesta valdframsal sem um getur. Þetta frv. sem hér liggur fyrir kveður á um tiltekin skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að setja veiðistjórnunarreglur. Ráðherra getur ekki sett reglur um veiðistjórnun nema þau tilteknu skilyrði séu fyrir hendi sem í lögunum er mælt fyrir um.

Í annan stað er nákvæmlega kveðið á um það í lagatextanum hvers konar veiðistjórnun er unnt að ákveða. Sé veiðireynsla fyrir hendi þá skal úthluta á þeim grundvelli. Í öðrum tilvikum koma aðrar leiðir til greina. Hér er um að ræða frv. þar sem hvort tveggja þarf að vera fyrir hendi, ákveðin skilyrði, sem eru nánar greind í lögunum, og að lögin telja upp hvaða möguleika ráðherra hefur til þess að kveða á um fiskveiðistjórnun. Þetta hvort tveggja er að mínu mati fyllilega innan þeirra marka sem eðlileg eru varðandi mál eins og þessi og fráleitt að halda því fram að hér sé um að ræða valdframsal sem takmarki athafnafrelsi manna með þeim hætti að stangist á við stjórnarskrá.

Það er nú einu sinni svo að fiskstofnarnir eru takmörkuð auðlind og hvort sem þeir eru innan landhelgi eða utan þá þarf að stjórna veiðum og takmarka veiðar ella veiðum við fiskstofnana upp og þeir hrynja. Það er þess vegna almennt viðurkennt og við höfum lengi byggt okkar fiskveiðilöggjöf á því að það eru heimildir til þess að takmarka fiskveiðar. Það er gert í almannaþágu. Ef við hefðum ekki heimildir til þess mætti búast við því að fiskstofnarnir mundu hrynja á örskömmum tíma. Það eru þessir almannahagsmunir, að takmarka veiðarnar, sem gera það nauðsynlegt að setja reglur um það hvernig veiðum er stjórnað og fráleitt að halda því fram að það brjóti í bága við atvinnufrelsi stjórnarskrárinnar að takmarka veiðar til þess að vernda fiskstofna.

Loks ætla ég að víkja að því sem hér hefur komið fram, að það sé ekki þörf á að gera þetta frv. að lögum nú vegna þess að úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur ekki verið staðfestur af tilskildum fjölda ríkja þannig að hann sé orðinn bindandi alþjóðaréttur. Þá er á það að líta að þó að þetta frv. sé samið með hliðsjón af ákvæðum sáttmálans og geri okkur kleift að fullnægja skuldbindingum hans þegar hann verður orðinn að bindandi þjóðarétti er meginástæða fyrir því að við þurfum að setja leikreglur ekki tengdar úthafsveiðisáttmálanum sjálfum heldur eru það ástæður sem við þekkjum.

Við höfum verið að gera samninga um stjórnun á mjög mikilvægum fiskveiðiauðlindum. Ég nefni samningana um úthafskarfaveiðarnar á Reykjaneshrygg, um síldveiðarnar, ákvarðanir sem teknar hafa verið innan NAFO um veiðar á Flæmingjagrunni. Þó að við höfum mótmælt þeim þá höfum við talið okkur skylt að fylgja þar fram verndunarráðstöfunum. Við höfum viljað fara aðrar leiðir en NAFO-ríkin en eigi að síður höfum við talið nauðsynlegt að standa með ábyrgum hætti að veiðum á því veiðisvæði.

Það eru fyrst og fremst þessar ástæður sem kalla á að við höfum skýrar lagaheimildir til þess að kveða á um það hvernig við stjórnum veiðum okkar eigin skipa á veiðisvæðum þar sem búið er að taka ákvarðanir um veiðistjórnun. Ég held að það sé þess vegna augljóst að það fær með engu móti staðist að ekki sé full þörf á að setja löggjöf sem þessa nú. Raunar hefði verið mjög æskilegt að við hefðum getað sett hana fyrr vegna þess að það er mjög mikilvægt að þeir sem þennan veiðiskap stunda viti á hvaða grundvelli þær eigi að fara fram til lengri frambúðar. Óvissa í þessu efni skapar óöryggi í veiðunum og það er eðlilegt að þeir sem þennan veiðiskap stunda kalli á að þeir viti hvaða reglur eigi að gilda til frambúðar.

Í heild held ég að hér hafi nokkuð vel tekist til með samningu þessa frv. Það er vissulega rétt sem hér hefur komið fram að því miður tókst ekki heildarsamstaða í þeirri nefnd sem vann að frumvarpsgerðinni á sínum tíma. Ég held þó að það hafi verið mjög mikilvægt að vinna að málinu á þeim vettvangi þar sem bæði komu saman fulltrúar allra þingflokka og hagsmunasamtaka og það hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem þetta frv. er og ég hygg að allgóð samstaða sé um í atvinnugreininni.

Herra forseti. Það voru fyrst og fremst athugasemdir við þessi örfáu atriði sem ég vildi koma á framfæri áður en umræðunni lyki.