Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:26:52 (2120)

1996-12-12 18:26:52# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:26]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hæstv. sjútvrh. að vitaskuld er nauðsynlegt að reyna að stjórna þessum veiðum. Um það er ekki deilt. En það eru engin rök fyrir því að skila frv. í þeim búningi sem það er nú að núgildandi lög séu svo opin að nánast megi setja hvað sem er í ný lög. Það er varla hægt að nota þann málshátt --- svo má böl bæta að benda á annað verra. Því það sem við höfum gagnrýnt fyrst og fremst eru ákvæði sem koma fram í 3. mgr. 5. og 6. gr. laganna þar sem ráðherra er framselt gríðarlegt vald. Hann má beita því nánast að eigin geðþótta ef hann vill það viðhafa þar sem honum er heimilað að skerða aflaheimildir um annars vegar 7% og hins vegar 15% án þess að Alþingi setji honum nokkrar leiðbeiningar. Það eru fyrst og fremst þessi ákvæði sem við höfum gagnrýnt og þetta valdframsal. Við erum ekki að gagnrýna að það sé reynt að setja einhverja stjórn á þessar veiðar. Menn geta deilt um það hvaða stjórnunaraðferð eigi að beita. En það sem við höfum fyrst og fremst gagnrýnt í frv. er hvernig það er unnið og að ekki skuli sett skýrari skilyrði fyrir ráðherra hvernig hann á að beita þessum íþyngjandi ákvæðum.