Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:30:55 (2123)

1996-12-12 18:30:55# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:30]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að ég þarf ekki að minna hv. þm. á það að því hefur verið haldið fram af talsmönnum minni hlutans að það eigi að setja stjórnunarreglur á grundvelli gildandi laga. Og það eigi að stjórna úthafsveiðunum á þeim grundvelli. Það felur í sér að það er skoðun þeirra sem því hafa haldið fram að það eigi að setja þær stjórnunarreglur á grundvelli þess víðtæka valdframsals sem er í þeim lögum. Hér er hins vegar verið að leggja fram lagafrv. sem felur í sér mjög verulega takmörkun á því valdi sem fyrir hendi er hverju sinni. Auðvitað er alltaf æskilegast að hafa lagareglurnar sem allra skýrastar en ég hygg að hv. þm. viti að meginástæðan fyrir því að það er talið nauðsynlegt að hafa fleiri kosti en einn sé sú að hér getur verið um mjög breytilegar aðstæður að ræða. Það geta komið upp ný viðhorf, það geta komið upp nýir möguleikar í úthafsveiðum sem við vitum ekki um í dag og því þurfa lögin að vera sveigjanleg þannig að þau geti tekið til fleiri og margbreytilegri aðstæðna en við sjáum fyrir í dag.