Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 20:09:45 (2134)

1996-12-12 20:09:45# 121. lþ. 42.3 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[20:09]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá miklu og góðu umræðu sem þetta mál hefur fengið á hinu háa Alþingi og tel það gott. Það er ýmislegt sem mér finnst ástæða til að staldra við í þeim athugasemdum sem hafa komið fram um það hvort tímabært sé að flytja þennan málaflokk til sveitarfélaganna eða ekki.

Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið og tel að þetta sé rökrétt framhald af því sem þegar hefur verið ákveðið og í reynd var lagt upp með við síðustu lagasetningu að þetta mundi gerast mun hraðar en raun ber vitni þannig að ég held að við séum á réttri leið. Ég vil, herra forseti, leyfa mér að minna á að fullt samráð hefur verið haft við þá sem málið varðar. Æðstu stofnanir hagsmunasamtaka fatlaðra hafa fjallað um málið og mælt með að þessi meðferð verði viðhöfð og Samband ísl. sveitarfélaga hefur einnig gert það. Ég tel því að þarna hafi verið staðið vel að verki.

Ég vil fara aðeins örfáum orðum um það sem féll í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þ.e. hvort sveitarfélögin séu í stakk búin til að taka við þessum málaflokki eða ekki. Ég vil minna á að á landsbyggðinni er komin rík og góð hefð fyrir því að t.d. fötluð börn stundi nám í heimaskóla í sinni heimabyggð með þeim stuðningi sem til þarf. Það hefur reyndar verið staðið að því með sóma víðast hvar og satt best að segja hefur það mál haft betri framgang en skólamál fatlaðra barna á höfuðborgarsvæðinu sem flest hver hafa eingöngu átt kost á sérskóladvöl. Þarna er því komin víðtæk reynsla víða í héraði um að veita fötluðum börnum þjónustu. Ég tel í sjálfu sér að ósköp lítill eðlismunur sé á því hvort fatlaðir fá þjónustu sem börn, ungmenni eða fullorðnir. Það þarf auðvitað, eins og ég sagði hér áðan, að vera og það þarf að tryggja sértæka þjónustu á landsvísu. Það er mjög mikilvægt þannig að sveitarfélögin hafi aðgang að henni á hverjum tíma og það þarf að tryggja réttindagæsluna. Að öðru leyti er um að ræða þjónustu við fólk sem oftast nær er veitt af öðru fólki og hægt að veita í reynd hvar sem er.

Þegar við tökum til umræðu reynslusveitarfélögin þá er því ekki að neita að mörg sveitarfélög hafa þegar óskað eftir því og jafnvel yfirtekið málefni fatlaðra. Þar er að skapast mjög góð reynsla sem ég tel að komi að góðu gagni. Auk þess er fyrirhugaður tveggja ára undirbúningstími að þessum verkefnatilfærslum og í frv. er lagt upp að verkefnisstjórn verði skipuð sem mun hafa þetta með höndum. Ég legg auðvitað sérstaka áherslu á að í þessari verkefnisstjórn muni eiga sæti, vonandi og ég held að það sé réttmæt krafa, hagsmunasamtök fatlaðra sem koma að því máli alveg frá upphafi til enda.

Það eru önnur mál sem ég held kannski að við ættum að hafa meiri áhyggjur af á þessu stigi málsins en landsbyggðinni því svo undarlega sem það kannski hljómar hefur verið gert meira átak og náðst hefur betri árangur á mörgum sviðum í uppbyggingu í þágu fatlaðra einmitt á landsbyggðinni. Ég hef meiri áhyggjur af höfuðborgarsvæðinu ef satt skal segja. Þar eru biðlistar eftir þjónustu mjög alvarlegir og mjög langir og þar þarf virkilega að gera átak.

Það er annað sem ég tel að verðugt væri fyrir Alþingi að fjalla um í þessu samhengi og á þeim tímum sem fram undan eru. Það er réttarstaða þeirra sem búa á sólarhringsstofnunum, sérstaklega heilbrigðisstofnunum og hafa ekki átt annarra kosta völ á langri ævi oft. Þetta fólk er í raun rænt öllum grundvallarmannréttindum. Það nýtur ekki þeirra sömu réttinda og aðrir fatlaðir sem búa utan þessara stofnana. Ég hefði óskað eftir því að fjallað yrði sérstaklega um stöðu þeirra hópa í þessu samhengi og reynt að koma málum þannig til leiðar að í fyrsta lagi þurfi fatlaðir ekki að búa á sjúkrahúsum og eiga þar búsetu ævarandi. Í öðru lagi að ef einhver einhverra hluta vegna, sérstakrar fötlunar vegna, þarf að vistast til lengri tíma á slíkum stofnunum verði a.m.k. grundvallarmannréttindi þeirra tryggð. Ég hefði gjarnan viljað fá umræðu um þau atriði.

Að öðru leyti held ég að óþarfi sé að hafa miklar áhyggjur af því að sveitarfélögin axli ekki þessa ábyrgð að þessum tíma liðnum. Ef til vill er rétt að minna á og velta því upp hér hvort það eigi endilega að vera á valdi einstakra sveitarfélaga að hafna því að veita ákveðnum hópum þjónustu. Ég tel að krafa fatlaðra sé réttmæt að þeir fái þjónustu á sama stjórnsýslustigi og aðrir þjóðfélagsþegnar. Þetta er spurning um vilja, þekkingu og vissulega fjármagn. En allt eru þetta þættir þar sem hægt er að búa svo um hnútana að vel fari ef vilji er til þess. Þetta er með öðrum orðum ekki spurning um hvort sveitarfélögin kunni þetta. Þetta er spurning um vilja þeirra til að axla þessa ábyrgð og hvernig þessi verkefni verða flutt til þeirra.

Ég kemst ekki hjá því að staldra aðeins við þá umræðu sem hefur farið fram um þriðja stjórnsýslustigið en blanda mér kannski ekki mikið í þá umræðu en leyfi mér samt á þessu stigi að vitna til Norðurlandanna, eins og hér hefur verið gert reyndar áður. Ég ætla að vitna til Danmerkur þar sem þriðja stjórnsýslustigið er vissulega, en verkefnin þar hafa að mestu leyti færst frá því stigi yfir til sveitarfélaganna ef frá er talinn rekstur sjúkrahúsa. Það er í rauninni eina verkefnið sem þriðja stjórnsýslustigið, ömtin í Danmörku, hefur á sinni könnu. Það hefur meira að segja komið til tals að taka það verkefni af þeim þannig að maður getur velt því fyrir sér hvort það sé rétt af okkur að taka upp þessa fyrirmynd.

[20:15]

Varðandi stöðuna á landsbyggðinni, herra forseti, langar mig aftur til þess að víkja að og benda á að landfræðilega séð er oft mjög flókið og erfitt fyrir einstök sveitarfélög eða einstök svæði að vera háð þjónustu frá byggðarkjörnum eins og Ísafirði, Egilsstöðum og víðar þannig að það er í rauninni rökrétt að mörg af þessum sveitarfélögum sem um ræðir sinni sjálf sinni þjónustu. En við skulum heldur ekki gleyma því að sérfræðingar og sérfræðiþekking er færanleg. Það er enginn sem segir að sérfræðingar úr Reykjavík eða annars staðar landinu geti ekki flutt sig til staða og veitt þjónustu bæði í ljósi breyttra og bættra samgangna á landinu og ekki síst í ljósi breyttrar og nýrrar tækni sem gerir öll samskipti mun einfaldari fyrir alla þannig að sérfræðiþjónustan ætti að vera tryggð með margvíslegum hætti, en við þurfum svo sannarlega að sjá til þess að svo verði og hlúa að því.

Að lokum held ég að það sé framfaraspor og til heilla að þetta skref verði stigið og ég vona að málið fái vandaða og góða umfjöllun í meðförum Alþingis.