Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 20:19:01 (2135)

1996-12-12 20:19:01# 121. lþ. 42.3 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[20:19]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fram er komið frv. um breytingu á lögum um málefni fatlaðra. Þó að frv. sé ekki umfangsmikið að sjá á pappírnum, felur það í sér grundvallarbreytingu sem verður til hagsbóta og framfara í málefnum fatlaðra. Þessi grundvallarbreyting er eins og fram hefur komið að flytja þennan umfangsmikla og mikilvæga málaflokk frá ríki til sveitarfélaga. Þetta er annað meginmarkmið tillögunnar sem fram kemur í frv. og snýr þannig að stjórnsýslunni.

Hitt meginatriðið er að sjálfsögðu að gæta að réttindum fatlaðra, en nákvæm lagasetning hvað það varðar mun koma fram í því ferli sem fer af stað við yfirfærsluna og í samningum milli sveitarfélaga og ríkis.

Eins og fram hefur komið varð niðurstaða í nefndinni sem sá þingmaður stýrði sem hér talar, að bíða með allar meiri háttar breytingar á málefnum fatlaðra í löggjöf þar til að yfirfærslunni kæmi og samningsferlinu. Það er ekki vegna þess að nefndarmenn sem að frv. unnu hafi ekki gert sér grein fyrir því að þau atriði eru mörg sem þarf að gæta að og breyta þegar málefni fatlaðra eru tekin til endurskoðunar í löggjöf og tilfærslu, heldur hitt að nefndarmenn urðu að mestu sammála um að lagasetning væri eðlilegri þegar til yfirfærslunnar sjálfrar kæmi. Þeim atriðum sem á var bent að þyrfti að lagfæra var haldið til haga og eru í gögnum sem nefndin skildi eftir og eru að sjálfsögðu þeim til reiðu sem munu vinna að næsta skrefi málsins, yfirfærslunni sjálfri.

Meðal þeirra atriða sem komu til umræðu í nefndinni voru þau sem hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir gat um, þ.e. um samsetningu og gerð svæðisráðanna. Þingmaðurinn benti á setu embættismanna sem með nokkrum rökum má segja að hafi þar tvíþætt og að sumu leyti andstætt hlutverk, annars vegar að huga að réttindum og hins vegar að vera í nokkurs konar dómarasæti. Þessi mál og önnur álíka munu koma til endurskoðunar í ferlinu sjálfu við yfirfærsluna.

Um réttindi og réttindagæslu fatlaðra var verulega fjallað í störfum nefndarinnar og komu þar margar ágætar tillögur til skoðunar, svo sem um stofnun umboðsmanns fatlaðra, um sérstaka nefnd skipaða til þess að gæta að slíkum réttindum, landsnefnd, svæðisnefnd og fleiri tillögur mætti telja. Þetta eins og annað mun bíða síðari tíma.

Markmið laganna kemur að nokkru leyti fram í greinargerðinni með frv. og eins og fram hefur komið er það m.a. að fatlaðir verði sjálfsagðir þátttakendur í samfélaginu og að þjónustan verði bætt. Með því að segja að fatlaðir séu sjálfsagðir þátttakendur í samfélaginu er verið að reyna að koma orðum að því að fatlaðir búi við sömu löggjöf og aðrir borgarar þessa lands og að réttindi þeirra séu tryggð með samskiptum við sveitarfélögin að mestu leyti eins og annarra borgara.

Í nefndarstarfinu var leitað eftir áliti allra ráðandi og viðkomandi aðila, þar á meðal Sambands ísl. sveitarfélaga, samtaka og hagsmunasamtaka fatlaðra og fleiri og má segja að þar hafi komið fram einróma og samdóma álit þessara aðila um að flytja skyldi málaflokkinn þannig að ekki var spurt um hvort ætti að flytja hann og hvort ætti að bíða eftir því að reynslusveitarfélögin skiluðu árangri af sinni tilraun sem stefnt er að, heldur skyldi nýta þá reynslu til þess að svara spurningunni hvernig ætti að flytja þetta og hvaða atriði þyrfti að hafa þar í huga.

Hvað stjórnsýsluþáttinn varðar hefur komið fram í greinargerð og ræðum hv. þingmanna að valdmörk milli ríkis og sveitarfélaga eru um margt óljós og af þeim ástæðum æskilegt að höggva á þann hnút sem fyrst þannig að ljóst verði hverjum ber að veita fötluðum þjónustu og hvernig kostnaði og ábyrgð af fjárveitingum verði skipt milli aðila. Þannig er fullljóst að það eru sveitarfélögin en ekki sveitarfélögin og ríkið sem koma þarna til sögunnar.

Undirbúningurinn verður að sjálfsögðu mjög margþættur. Þar þarf að gæta að þáttum svo sem réttindagæslu. Huga þarf að því að sjálfstæði fatlaðra verði tryggt eftir því sem nokkur kostur er, að þjónustan sem sveitarfélögin veita sé sveigjanleg og að búsetuskilyrði séu sem fjölþættust fyrir fatlaða og að fatlaðir geti valið aðstæður sínar sem frekast er kostur og þeir hafi nokkra möguleika til á heimasvæðum sínum. Það er afar mikilvægt að reynsla fagfólks glatist ekki við þessa yfirfærslu og að fagfólk verði haft með í ráðum ef af yfirfærslunni verður.

Í starfi nefndarinnar kom fram mikil áhersla á að þarfir þeirra tiltölulega fáu sem búa við mjög mikla fötlun gleymist ekki. Það er því ekki hægt að gera ráð fyrir að slíkum tilvikum sé sinnt af einu sveitarfélagi heldur verður að horfa til þess að heimili, stofnanir eða annar aðbúnaður þjóni á landsvísu. Nefndin gerði ekki tillögur um hvernig skyldi á þessu tekið, en ljóst er að þar þurfa að koma til víðtækari lausnir en eitt sveitarfélag getur ráðið við, jafnvel þau sveitarfélög sem stærst eru. Ekki má heldur gleyma við yfirfærsluna að gæta ýtrustu hagsýni í rekstri. Þykir mér þá sjálfsagt að skoða nýja möguleika í rekstrarformi þannig að sveitarfélögin sjálf séu ekki einungis í þeim rekstri heldur gæti þau að því að leita til annarra eins og góð dæmi sýna að getur skilað árangri.

Afar mikilvægir þættir þegar til þjónustu sveitarfélaganna kemur eru ráðgjöf og eftirlit. Sveitarfélögin, með allri virðingu fyrir þeim góða hug og því góða starfsfólki sem þar vinnur, munu tæplega ráða við flóknustu og viðkvæmustu viðfangsefni í málefnum fatlaðra. Það er því nauðsynlegt að þau geti sótt ráðgjöf um ekki of langan veg. Eins er nauðsynlegt að þau búi við eftirlit sem tryggi að lög séu haldin og málefni fatlaðra ekki brotin.

Í starf nefndarinnar sem stóð frá því sl. vor og fram á fyrri hluta þessa vetrar var lögð mikil vinna. Ég vil nota tækifærið til að ítreka þakkir mínar til þeirra sem unnu í nefndinni. Allir sem þar voru unnu starf sitt af mikilli alúð og lögðu mikla vinnu í sitt starf. Einstakir nefndarmenn höfðu samráð við viðkomandi aðila og formaður og nokkrir aðrir heimsóttu heimili fatlaðra, fatlaða sjálfa á vinnustöðum þeirra, félagasamtök, sveitarfélög og fleiri sem veitt gátu af reynslu sinni.

[20:30]

Við skulum gera okkur ljóst að viðhorf til fatlaðra og þjónustu við þá á enn eftir að breytast. Hér hafa nokkrir þingmenn bent rækilega á þá breytingu sem hefur orðið á síðustu tveimur, þremur áratugum og ég spái því að þær breytingar séu ekki um garð gengnar. Við skulum því vera vakandi fyrir því að þessi mál eru í slíkri þróun að löggjöf ein í eitt skipti mun ekki segja þar síðasta orðið.

Í heimsóknum til sveitarfélaganna var ekki aðeins leitað til samtaka þeirra heldur voru þau innt eftir þeim atriðum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerðu hér að nokkru umtalsefni, þ.e. geta sveitarfélögin ráðið við þessi verkefni? Hvernig gengur þeim að leysa slíkt í samkomulagi? Hversu víðtækt þarf slíkt samkomulag og samvinna að vera? Mín niðurstaða var sú að sveitarfélögin treysta sér fyllilega til þess að taka þetta að sér, jafnvel þau fámennustu en segja um leið, eins og kom fram áðan: Við munum ekki geta þetta ein heldur verðum við að slá okkur saman eftir því samvinnu- og samstarfsformi sem við þekkjum úr mörgum öðrum málaflokkum en verði svo þá kvíðum við því ekki. Um leið kom fram vilji margra þeirra um að þetta ásamt öðru gæti orðið þeim hvatning til sameiningar.

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér nokkrum orðum um aðdraganda frv. og þau atriði sem nefndin hafði að leiðarljósi og vil láta koma fram að einhugur var í nefndinni að langmestu leyti eins og meta má af þeirri grg. sem hér liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Ég fagna frv. þessu og tel að með því hafi félmrh. stigið stórt skref fötluðum til hagsbóta og stjórnsýslunni til góðs árangurs sem vænta má að lögum þessum settum.