Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 10:34:38 (2137)

1996-12-13 10:34:38# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[10:34]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fjárlög ríkisins gegna lykilhlutverki við stefnumótun í ríkisfjármálum þar sem þau setja þann ramma sem umsvifum hins opinbera er markaður hverju sinni. Gerð fjárlaga felur í raun í sér gríðarlega viðamikið verkefni þegar litið er til þess að á hverju ári er verið að kveða á um tekjuöflun og útgjöld sem nema nálægt 30% af landframleiðslunni.

Auk þess gegna fjárlögin mikilvægu hlutverki sem tæki hins opinbera til að hafa áhrif á efnahagslífið. Í opinberri umræðu um þau mál hefur athyglin einkum beinst að áhrifum hallareksturs ríkissjóðs á almennt vaxtastig í landinu. En áhrifin eru víðtækari. Ákvarðanir í skattamálum geta haft víðtæk áhrif á ákvarðanir fyrirtækja og heimila. Með því að stýra framlögum til samgöngumála og annarra stofnframkvæmda eru stjórnvöld í aðstöðu til þess að tempra hagsveiflur, draga úr þenslu þegar vel árar en örva efnahagslífið á samdráttartímum. Fjárlögin snerta sjálfsagt meira en flest lagaákvæði önnur líf sérhvers borgara þessa lands.

Segja má að stefnumótun varðandi ríkisfjármál sé fyrst og fremst unnin í fjármálaráðuneyti og á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Tekjuhlið fjárlaga heyrir undir það ráðuneyti sem og samræming á fjárlagatillögum fagráðuneytanna. Ríkisstjórnin markar hins vegar meginlínur um útgjöld og tekjuöflun. Það starf hvílir á ráðherrum í samráði við sína þingflokka. Í auknum mæli hafa síðan fagráðuneytin komið að fjárlagagerðinni. Þeim er falið að ganga frá fjárlagatillögum vegna þeirra málaflokka sem undir þau heyra.

Í seinni tíð hefur aukin áhersla verið lögð á að marka stefnuna í ríkisfjármálum til lengri tíma en eins árs í senn. Ugglaust á sá fjárlagavandi, sem birtist í stöðugum hallarekstri ríkissjóðs, stóran þátt í því. Þá hefur fjárlagavandinn gert það að verkum að umræður og tillögugerð um samdrátt í fjárveitingum er orðin mjög tímafrek við fjárlagagerðina.

Af mikilvægi fjárlaganna leiðir að miklu máli skiptir að fjárlagagerðin sé sem vönduðust. Óhætt er að segja að fjárlagagerðin hefur tekið framförum. Minnkandi verðbóga á sinn þátt í því. Þá er nýlokið endurskoðun á þeim lagaramma sem fjárlagagerðin og reyndar reikningsskil ríkisins byggja á. Frumvarp til laga sem kveður á um þessi mál liggur nú fyrir Alþingi. Á meðal nýmæla sem þar er að finna er að fjárlög verða sett upp á rekstrargrunni. Með því móti vinnst tvennt. Í fyrsta lagi koma fjárlögin til með að kveða á um allar fjárskuldbindingar sem stofnað er til innan ársins, en ekki aðeins þær sem fela í sér greiðslur. Í annan stað næst mun betri samanburður á milli fjárlaganna og ríkisreiknings þegar hvort tveggja byggir á sama grunni, en á það hefur skort til þessa.

Þá ríður ekki síður á að eftirlit með framkvæmd fjárlaga sé sem skilvirkast og gefi kost á að grípa til viðeigandi ráðstafana í tíma ef út af bregður. Eftirlit með framkvæmd fjárlaga er falin Ríkisendurskoðun. Með því að fela stofnun sem heyrir undir Alþingi þetta hlutverk er í raun verið að gera þingið sjálft ábyrgt fyrir að þessum málum sé sinnt. Í því sambandi kemur ekki síst til kasta fjárlaganefndar.

Eins og málum er háttað í dag felst vinna nefndarinnar að stórum hluta í afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Frumvarpið er lagt fram þegar Alþingi kemur saman að hausti og er afgreitt áður en hlé er gert á þingstörfum fyrir áramót. Fyrir utan almenna umfjöllun um fjárlagafrumvarpið er nefndinni falið að ákveða skiptingu á ákveðnum fjárlagaliðum. Hún fer auk þess yfir þau erindi sem þinginu berast frá stofnunum, félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum um framlög til hinna ýmsu mála. Það starf þarf að inna af hendi á meðan frumvarpið liggur fyrir þinginu.

Fjárlaganefndin þarf að fylgjast náið með framkvæmd fjárlaga. Hún þarf að fá tímanlega upplýsingar um stöðu ríkisfjármála með tilliti til fjárlaga og vera í stakk búin að veita framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald þannig að ákvæði fjárlaga séu virt. Þá er ekki síður mikilvægt í þessu sambandi, og er þá horft til reynslunnar, að framkvæmdarvaldinu sé gert að skýra fyrir nefndinni með fullnægjandi hætti hvernig fyrirhugað er að ná fram þeim markmiðum sem kveðið er á um í fjárlögum. Þetta á ekki síst við þegar ætlunin er að ná fram sparnaði eða breyttu rekstrarumhverfi.

Þá er ekki síður mikilvægt fyrir fjárlaganefndina að henni gefist kostur á að kynna sér einstaka málaflokka nánar en gerist við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Með því móti öðlast nefndin frekari þekkingu á þeim málefnum sem efst eru á baugi í ríkisfjármálum á hverjum tíma og er betur í stakk búin að fjalla um þau við afgreiðslu fjárlaga.

Sá áfangi hefur nú náðst í fjárlagagerðinni fyrir árið 1997 að málið er komið til 2. umr. Í framsögu minni fyrir áliti meiri hluta fjárln. í málinu mun ég auk þess að rekja nál., brtt. og athugasemdir með þeim fjalla nokkuð um efnahagshorfurnar og samhengi þeirra við ríkisfjármálin, stefnumörkun þá sem fjárln. hefur stuðst við í sinni vinnu og hugleiða nánar vinnubrögð við fjárlagagerðina.

Nokkrir óvissuþættir eru varðandi efnahagsþróunina á næsta ári. Þar ber fyrst að nefna að kjarasamningar eru lausir og niðurstaða þeirra skiptir miklu máli um þróunina í hagkerfinu. Í öðru lagi eru fjárfestingar í atvinnu- og orkugeiranum nokkurri óvissu háðar eins og nánar verður komið að síðar.

Yfirstandandi ár einkenndist af uppsveiflu í efnahagslífinu. Hagvöxtur stefnir í 5,5% og miðað við forsendur Þjóðhagsstofnunar í þjóðhagsspá verður hagvöxtur 2,5% á næsta ári. Á árunum 1994--1997 stefnir því í 3,4% hagvöxt að meðaltali samanborið við 2,4% í iðnríkjunum. Sé litið til lengri tíma má búast við að hagvöxtur verði svipaður og í iðnríkjunum jafnvel þótt ekki verði ráðist í nýjar framkvæmdir á sviði orkufreks iðnaðar.

Aðrir mælikvarðar í hagþróun eru einnig jákvæðir og vil ég nefna tvennt í því sambandi. Á árunum 1994 og 1995 var verðbólga innan við 2% og þótt vöxtur hennar hafi verið ívið meiri á þessu ári, sem helst í hendur við uppsveiflu í atvinnulífinu, er árangurinn vel viðunandi og við erum á bekk með þeim þjóðum sem búa við stöðugleika á þessu sviði. Þessi stöðugleiki er grundvöllur farsællar þróunar í atvinnulífi landsmanna og það er forgangsverkefni að tryggja þennan árangur í sessi. Takist það mun annað veitast okkur að auki.

Atvinnuleysi hefur minnkað úr 5% af vinnuafli á fyrra ári í 4% á þessu ári. Þessi árangur er afar mikilvægur hvort sem litið er á hann frá efnahagslegu eða félagslegu sjónarmiði. Atvinnuleysi er þjóðfélagsböl. Það á að vera grundvallaratriði í okkar huga. Hin hliðin á þessari þróun er að hún dregur úr útgjöldum ríkissjóðs og losar um fé til annarra þarfa.

Frá því að vinna hófst við fjárlagagerðina í haust hafa styrkst líkur á því að ráðist verði í stórframkvæmdir á sviði orkufreks iðnaðar á næsta ári með byggingu álvers á Grundartanga með tilheyrandi framkvæmdum í orkuöflun.

Þriðja mikilvæga atriðið sem ber að nefna í sambandi við efnahagsþróunina er að samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 9% á árunum 1995 og 1996 sem er um það bil tvöfalt meiri aukning heldur en í OECD-ríkjunum að meðaltali.

Hins vegar hefur einkaneysla farið vaxandi á liðnu ári og fjárfestingar hafa tekið við sér frá því að vera í lágmarki á lýðveldistímanum. Innflutningur fjárfestingarvara annarra en til stóriðju var 23% meiri fyrstu sex mánuði ársins en á sama tíma á fyrra ári. Sementssala fyrstu átta mánuði ársins var 18% meiri en á sama tíma á fyrra ári. Talið er að fjárfestingar í sjávarútvegi muni aukast um 70% að raungildi milli ára. Þjóðhagsstofnun spáir að heildaraukning fjárfestingar á árinu verði 24% miðað við landsframleiðslu.

Þessi þróun leiðir til aukins viðskiptahalla sem er eitt af hættumerkjum í efnahagslífinu og leiðir til aukinnar skuldasöfnunar. Jafnframt eykst hætta á þensluáhrifum í efnahagslífinu sem gæti ef illa tekst til aukið verðbólgu. Það ber að forðast.

Til þessa hefur verið talið að gengi, vaxtastig og stjórn ríkisfjármála væru tæki til að hamla við þessari þróun. Þær breytingar hafa hins vegar orðið í okkar efnahagsumhverfi að við erum tæpast orðnir einráðir lengur um ákvarðanir varðandi vexti og gengi. Íslenskt efnahagslíf er hluti af efnahagskerfi iðnríkjanna og samkeppnislandanna í ríkara mæli með ári hverju.

Hins vegar er ljóst að ríkisvaldið hefur tök á því að hafa áhrif á efnahagsþróunina með stefnunni í ríkisfjármálum. Aðhaldssöm stefna nú beinist að tveimur höfuðmarkmiðum. Í fyrsta lagi að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og hætta að velta byrðum yfir á framtíðina og í öðru lagi að gera sitt til þess að draga úr hættu á þenslu og verðbólgu. Þessar aðgerðir eru í þágu almennings í landinu því mesta hagsmunamál launafólks er að stöðugleiki haldist og kaupmáttur geti farið vaxandi. Fyrir skulduga einstaklinga er það versta sem upp getur komið að verðbólguþróunin fari úr böndunum. Samkeppnishæfni fyrirtækjanna í landinu hvílir fyrst og fremst á því að hægt sé að halda stöðugu gengi og lágu verðbólgustigi.

[10:45]

Þetta eru ekki ný sannindi en þau verða þó ekki of oft endurtekin. Það kann í fljótu bragði að skjóta skökku við að þráast við með framlög til hinna ágætustu verkefna þegar tekjur fara vaxandi með vaxandi umsvifum. Í ljósi þess sem á undan er sagt er það þó algjör nauðsyn.

Nú undanfarið hafa staðið yfir viðræður við fyrirtækið Columbia Ventures um byggingu álvers á Grundartanga og einnig hefur verið rætt um stækkun Járnblendiverksmiðjunnar. Þótt þessum viðræðum sé ekki lokið hafa líkurnar aukist á því að af þessum framkvæmdum verði. Ef svo fer breytast þær forsendur sem fjárlög voru byggð á í haust þegar þau voru lögð fram. Þessar fjárfestingar nema 37,7 milljörðum kr., þar af 23 milljarðar vegna orkuframkvæmda, 12 milljarðar vegna álvers og 2,7 milljarðar vegna Járnblendifélagsins. Jafnframt þessu er ljóst að umtalsverður kostnaður fellur til á árinu 1997 umfram það sem áður var gert ráð fyrir vegna Skeiðarárhlaups og náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi.

Verði þetta að veruleika verður hagvöxtur á árinu 1998 um 4,4% af þjóðarframleiðslu samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar í nóvember. Þar sem þetta er framhald af miklum hagvexti á yfirstandandi ári er stóraukin hætta á þensluáhrifum og aukinni verðbólgu.

Vegna þessarar stöðu ákvað ríkisstjórnin að láta fara fram athugun á því hvort möguleikar væru til frekari aðhaldsaðgerða heldur en ákveðnar voru við framlagningu fjárlagafrv. í haust. Ekki síst var horft til stofnkostnaðarliða í þessu sambandi því fjárfestingar af þeirri stærðargráðu sem getið hefur verið um hér mundu auka fjárfestingarhlutfallið um 7% á árunum 1996 og 1997.

Vegna þessa voru tillögur um skiptingu fjárfestingarliða í frumvarpinu sem snertu sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, framhaldsskóla, viðhald menningarbygginga og framkvæmdir í hafnamálum athugaðar nánar með tilliti til þess hvort gerlegt væri að draga úr eða fresta framkvæmdum. Niðurstaðan varð sú að ekki væri hyggilegt að ganga á gerða samninga við sveitarfélög um framkvæmdir í framhaldsskólum. Mjög litlar framkvæmdir voru í heilbrigðismálum því um mikinn niðurskurð var að ræða í þessum málaflokki fyrir ári síðan, m.a. með frestun samningsbundinna verka. Í hafnamálum er mikil þörf fyrir lagfæringar, m.a. vegna breyttrar flutningatækni og breyttra atvinnuhátta í sjávarútvegi. Þar að auki var ekki um neinar framkvæmdir að ræða í þeim málaflokki á vegum ríkisins á Suðvesturlandi, því svæði sem viðkvæmast er fyrir þenslu af völdum stóriðju- og orkuframkvænda.

Niðurstaðan varð því sú að halda upphæðum í stofnkostnaðarliðum í þessum málaflokkum óbreyttum. Það gerir hins vegar það að verkum að hafna þarf fjölmörgum erindum um nýjar framkvæmdir á öllum þessum sviðum.

Nokkur fleiri atriði eru til skoðunar í þessu sambandi og má þar nefna vegamál og framkvæmdir í flugmálum, en um þau efni verður nánar fjallað við 3. umr. fjárlaga.

Það kann að skjóta skökku við að fréttir um meiri umsvif og veltu í þjóðfélaginu leiði til bollalegginga um niðurskurð. Að mínum dómi er það skylda stjórnmálamanna að huga að áhrifum stórframkvæmda á hagkerfið og sagan geymir mörg dæmi um það að fjárfestingar á þenslutímum hafi aukið verðbólgu. Það skiptir miklu máli að áætlun sé til um að dregið sé úr opinberum framkvæmdum og eðlilegt er að líta til næstu tveggja ára í þessu sambandi.

Opinber fjárfesting nemur alls 26,2 milljörðum kr. árið 1997 samkvæmt áætlun. Hún skiptist í stórum dráttum þannig að framkvæmdir ríkissjóðs nema 9,4 milljörðum, framkvæmdir sveitarfélaga 7,1 milljarði og fjárfesting opinberra fyrirtækja 9,7 milljörðum kr.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir vegna álvers leiði til 6 milljarða nettógjaldeyrisinnstreymis í hagkerfið vegna erlendrar fjármögnunar. Innlend fjármögnun mundi skipta máli til þess að draga úr þensluáhrifum og þarf einnig að skoða þá hlið málsins. Líta þarf á opinberar fjárfestingar í víðu samhengi þegar hugað er að frestun framkvæmda. Stefnumörkun ríkisvaldsins er mikilvæg í þessum efnum og ætti að vera fordæmi fyrir aðra aðila sem eru einnig áhrifavaldar í þróuninni, t.d. sveitarfélögin. Það er þó ljóst að ríkisvaldið hefur ekkert boðvald til þess að draga úr framkvæmdum á þeim vettvangi en góð samvinna ríkisvalds og sveitarfélaga í því augnamiði að draga úr þenslu er höfuðnauðsyn.

Ég hef dvalið nokkuð við þennan þátt vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur að undanförnu um niðurskurð og samdrátt. Ljóst er að þessi mál verða áfram til meðferðar á milli 2. og 3. umr. málsins og koma til umræðu á ný þegar niðurstaða liggur fyrir við 3. umr. og áætlanir um tekju- og gjaldahlið fjárlaganna liggja endanlega fyrir.

Fjárln. hefur eins og fram kemur í nál. farið yfir þau erindi sem nefndinni hafa borist sem eru fjölmörg. Það má segja að nefndin hafi í vinnu sinni einkum beint sjónum sínum að íþróttahreyfingunni og björgunaraðilum, ásamt framhaldsskólum í tillögugerð sinni um hækkanir framlaga og reynt að laga til fyrir þessum aðilum í þröngri stöðu. Óskiptur liður til framhaldsskólanna er hækkaður um 30 millj. til þess að greiða fyrir samningum um námsframboð og endurskoðun á gildistölum þeirra skóla sem tóku á sig mestan niðurskurð samkvæmt frumvarpinu, en það eru Framhaldsskólinn á Húsavík, á Laugum, í Austur-Skaftafellssýslu og á Skógum. Einnig er séð fyrir framhaldi náms í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.

Nokkur ný útgjaldatilefni komu frá ríkisstjórn og er stærsta upphæðin þar til Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem fær 100 millj. kr. framlag til að standa straum af kostnaðarauka vegna væntanlegra lagabreytinga um sjóðinn. Þá er fyrirhugað átak í fíkniefnavörnum sem gert er ráð fyrir útgjöldum til í brtt. frv. Þessi stefnumörkun er afar mikilvæg og er með þessu samanlögðu litið til málefna hinnar uppvaxandi kynslóðar.

Af öðrum málum má nefna kostnað vegna náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi, en nánar verður komið að þessum málum í skýringum við brtt. nefndarinnar.

Að öðru leyti mun ég vísa til skýringa við brtt. sem ég mun fara yfir síðar.

Nokkur viðfangsefni bíða 3. umr. og er það umfangsmesta útfærsla 160 millj. kr. sparnaðar í sjúkrahúsunum á landsbyggðinni og yfirferð á erindum sjúkrahúsanna í Reykjavík. Unnið er að skoðun þessara mála og sú vinna hefur óhjákvæmilega tekið langan tíma. Önnur hefðbundin verkefni bíða svo sem málefni B-hluta stofnana og 6. gr. ásamt nokkrum erindum öðrum sem eru til nánari skoðunar hjá nefndinni.

Ég vil fara hér nokkrum orðum um vinnu fjárln. Það er hollt að stunda sjálfsgagnrýni og hugleiða hvað betur megi fara í vinnubrögðum ríkisstjórnar og Alþingis varðandi fjárlagagerðina. Ekki síst er gagnlegt að horfa til nálægra þjóða þar sem þingræði er þróað, svo sem á Norðurlöndum, og þeirra aðferða sem þjóðþingin þar hafa í þessum efnum.

Sá háttur er hafður á nú að á vettvangi ríkisstjórnarinnar eru samþykktir fjárlagarammar á vordögum og fagráðuneyti vinna síðan að því að raða verkefnum inn í þessa ramma og eiga að skila því verki fyrir ágústlok. Fjárln. tekur síðan við frv. í byrjun október, fer yfir einstaka þætti þess, tekur við erindum og veitir viðtöl, kallar starfsmenn ráðuneyta og aðra aðila til viðtals.

Mér hefur fundist nokkuð skorta á það að umræða færi fram í Alþingi um forgangsröðun í ríkisútgjöldum. Umræðan um fjárlögin beinist í ríkum mæli að einstökum verkefnum, stórum eða smáum en ekki heildarsýn um það hver eigi að vera forgangurinn, hver fjárlagaramminn eigi að vera um hvert ráðuneyti og hver eigi að vera stefnan í ríkisfjármálum til lengri tíma.

Í sænska þinginu hefur um nokkurt skeið verið umræða um breytt vinnubrögð við fjárlagagerð og þar eru til umræðu tillögur um að breyta þeim í grundvallaratriðum. Breytingarnar eru í því fólgnar að þingið fjalli um útgjaldaramma ríkisstjórnarinnar og ákveði heildarútgjöld fjárlaga og fjárlaganefndin beri síðan ábyrgð á þeirri ákvörðun. Útgjaldarammar í einstökum málaflokkum verði bindandi og fagnefndir fjalli síðan um þá og fjárln. hafi það hlutverk að halda utan um þá vinnu. Allar þingnefndir einbeiti sér að fjárlagavinnunni á haustþingi.

Þessar hugmyndir eru mjög athyglisverðar og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála þar. Mín skoðun er að brýn nauðsyn sé að Alþingi og ríkisstjórn taki til gagngerrar endurskoðunar vinnubrögð við fjárlagagerðina með það tvennt að markmiði að gera áætlanir um ríkisfjármál til lengri tíma og að umræða um forgangsröðun í ríkisútgjöldum sé markvissari. Forusta fjárln. og fjárlaganefndarmenn eru reiðubúin til að leggja sitt til þessarar vinnu.

Þróun síðustu ára í ríkisútgjöldum kemur einkar vel fram í töflu á bls. 387 í fjárlagafrv. Ef litið er til þróunarinnar frá árinu 1990 hafa framlög til stofnkostnaðar lækkað úr 10,8 milljörðum kr. í 9,9 milljarða 1996 miðað við áætlað verðlag ársins 1997. Greiðslur til landbúnaðar hafa lækkað úr 10,5 milljörðum miðað við sömu forsendur í 5,3 milljarða á sama tíma. Framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa lækkað úr 2,7 milljörðum í um 1,5 milljarða. Greiðslur til almannatrygginga hafa hins vegar hækkað úr 30,4 milljörðum í 34 milljarða og aðrar tilfærslur úr 8,5 milljörðum í 10,4 milljarða. Þetta dæmi sýnir þróunina í ríkisútgjöldunum. Almannatryggingar og sjúkratryggingar taka stöðugt meira fé til sín, ekki vegna þess að bótaþegar séu of sælir með sitt heldur vegna fjölgunar þeirra. Þetta er sams konar þróun og er í öllum nágrannalöndunum og eitt helsta viðfangsefni stjórnmálanna er að bregðast við þessu til þess að hægt sé að tryggja velferð til frambúðar.

Ég ætla að þessu sinni ekki að verða margorður um endanlega niðurstöðu fjárlaga fyrir árið 1997 þar sem tekjuáætlun liggur ekki fyrir endurskoðuð og ljóst er að einhver útgjaldatilefni verða fyrir 3. umr. málsins. Hins vegar vil ég minna á að þótt það takist að afgreiða fjárlög með jöfnuði eða afgangi á greiðslugrunni má ekki gleyma því að á rekstrargrunni munar verulega á afkomunni og er það í raun réttari mælikvarði. Munurinn á rekstrargrunni og greiðslugrunni er sá að á greiðslugrunni eru tekjur og gjöld bókuð þegar þau koma til greiðslu en á rekstrargrunni þegar til þeirra er stofnað. Mest munar í þessu sambandi um áfallnar lífeyrisskuldbindingar umfram það sem formlega er greitt til lífeyrissjóða og mismun áfallinna og greiddra vaxta. Lauslega má áætla að munurinn á rekstrargrunni og greiðslugrunni sé a.m.k. 4 milljarðar um þessar mundir þannig að jöfnuður á ríkissjóði eins og fjárlagafrv. er uppsett þýðir í raun halli upp á 4 milljarða þegar skuldbindingar eru teknar með í reikninginn.

Áður en ég skýri brtt. við frv. vil ég víkja að örfáum atriðum sem þörf er á að skýra nánar. Þar er fyrst til að taka að gerðar eru tillögur um tilfærslu í rekstri skattstofa. Þessi tilfærsla á ekki að leiða til þess að segja þurfi upp fólki á skattstofum þeim sem málið varðar heldur er þetta tilfærsla á aðkeyptu vinnuafli verktaka. Hins vegar er brýn nauðsyn á að verkaskipting milli skattstofanna í landinu eins og tillagan gerir ráð fyrir verði ekki til þess að draga úr starfsemi úti um landsbyggðina heldur verði þess gætt ef um frekari skipulagsbreytingar er að ræða að skattstofum úti um land séu tryggð verkefni enda skapar tölvutæknin þá möguleika að verkefnin séu ekki síður unnin í landshlutunum.

Fjárln. hafa borist nokkrar umsóknir um fjölgun stöðugilda í löggæslu á landsbyggðinni, þar á meðal frá Sauðárkróki, Blönduósi og Egilsstöðum. Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að þar sem ný skipan lögreglumála tekur gildi um næstu áramót með því að embætti lögreglustjóra ríkisins tekur til starfa þá verði gerð úttekt á skipulagi og mannaflaþörf lögreglunnar, og niðurstaðan af þeirri vinnu verði síðan tekin til meðferðar í fjárln. Ekki er því lagt til við fjárlagaafgreiðsluna nú að viðbótarfjármagn verði veitt til þessara mála.

[11:00]

Fjárln. ákvað að veita viðbótarfjármagn til ritakaupasjóðs Háskólabókasafns sem nemur 12 millj. kr. Verkefni safnsins hafa aukist, þar á meðal er þar innan borðs hið nýja Kvennasögusafn sem hefur kynnt fjárþörf fyrir nefndinni upp á 1,5 millj. kr.

Nefndin hefur aflað sér upplýsinga um að í áætlunum félmrn. um uppbyggingu í málefnum fatlaðra eru fjármunir ætlaðir til að standa straum af samkomulagi um uppbyggingu sambýla fyrir geðfatlaða sem nemur 20 millj. kr. Þá þarfnast skýringa nokkur atriði við skiptingu stofnkostnaðar.

Í fyrsta lagi viðhaldsfjárveiting til Laugaskóla. Stofnkostnaðarframlög til sundlaugar hafa þar þegar verið nýtt til brýnna viðhaldsverkefna. Í þeirri fjárveitingu sem nú er lögð til er verið að skila þeim fjármunum á ný sem færðir hafa verið af því verkefni.

Í öðru lagi skal það tekið fram að fjárveitingar til hafnamála eru miðaðar við 90% kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í ytri hafnarmannvirkjum og dýpkunum og 60% í innri hafnarmannvirkjum. Fjárveitingar til ytri hafnarmannvirkja eru greiðsla upp í kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs. Í samgrn. eru ríkisstyrkir til hafna til endurskoðunar og mun verða haft samráð við Hafnasamband sveitarfélaga um þá endurskoðun.

Í þriðja lagi skal það tekið fram að úthlutun til stofnkostnaðarverkefna í sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum miðast við að hefja þau verkefni á ný sem unnið hefur verið að því að endursemja um frá fyrra ári.

Lagt verður til að endurúthlutað verði á fjáraukalögum 20 millj. kr. til D-álmu í Keflavík og hjúkrunarheimilis á Fáskrúðsfirði og eru fjárveitingar miðaðar við það.

Í fjórða lagi lagði ég það til í fjárlagaræðunni fyrir ári síðan að gerð yrði greiðsluáætlun um skuldir vegna dvalar- og hjúkrunarheimila sem myndast hafa á árunum 1990--1994. Á fjáraukalögum verður lagt til við 3. umr. að greiddar verði upp skuldir vegna dvalarheimilis á Kirkjubæjarklaustri, Lundi á Hellu og Stokkseyri og 7 millj. kr. upp í skuld vegna Hulduhlíðar á Eskifirði. Á fjárlögunum er lagt til að veitt verði 7 millj. kr. til greiðslu skuldarinnar vegna Hulduhlíðar og þá stendur eftir 1/3 af þeirri skuld sem lagt er til að samið verði um að greiða á árinu 1998. Þessi skuld er frá 1990.

Ég tek nú til við skýringar á einstaka brtt. við frv.

Æðsta stjórn ríkisins. Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til Alþingis hækki um rúmar 40 millj. kr. og er gerð grein fyrir skiptingu þeirrar fjárhæðar í nefndaráliti. Hækkun þessi er tilkomin af nokkrum ástæðum en þar er helst að nefna rekstrarkostnað vegna aukins húsnæðis á vegum þingsins, alþjóðasamstarf, launagjöld vegna launaskriðs og mannaráðninga fyrir fastanefndir og alþjóðanefndir, viðhald og kaup á tölvubúnaði en einnig koma fleiri smærri þættir til.

Lögð er til 5,2 millj. kr. hækkun til umboðsmanns Alþingis en að mati forsætisnefndar Alþingis og umboðsmanns Alþingis er þessi hækkun nauðsynleg til að embættinu sé gert kleift að rækja hlutverk sitt samkvæmt lögum og þeim kröfum sem til þess eru gerðar.

Forsætisráðuneyti. Nokkrar breytingar verða á liðnum Ýmis verkefni undir forsrn. og eru teknir inn fjórir nýjir liðir auk breytinga á þeim fimmta.

Lagt er til að veita 4 millj.kr. til framhalds á ritun biskupasögu á vegum Hins íslenska bókmenntafélags en verkefni þetta fékk áður framlag af safnlið ríkisstjórnarinnar. Þetta er önnur greiðslan af þremur. Af svipuðum toga er tillaga um fjárveitingu til Hins íslenska bókmenntafélags til að ljúka ritun og útgáfu á Sögu Íslands. Eins og fram kemur í nál. meiri hluta fjárln. er fyrirhugað að gera samning við félagið um þessa útgáfu.

Þriðji nýi liðurinn er framlag til hönnunarmiðstöðvar heimilis- og listiðnaðar og er þetta fyrri greiðslan af tveimur. Alls er ráðgert að veita 11,5 millj. kr. til áframhaldandi uppbyggingar miðstöðvarinnar. Verkefnið var sett af stað fyrir þremur árum með 20 millj. kr. framlagi af milljarði sem ríkisstjórnin veitti til atvinnuskapandi verkefna. Miðstöðin hefur starfað í þrjú ár og þykir hafa gefið mjög góða raun og gagnast mörgum handverksmönnum, ekki síst þeim sem starfa á landsbyggðinni.

Í greinargerð með fjárlagafrv. fyrir árið 1997 er þess getið að gert væri ráð fyrir að umsjón með útboðs- og einkavæðingarverkefnum yrði færð frá fjmrn. til forsrn. Í samræmi við þessa stefnu er lagt til að flytja 15 millj. kr. fjárveitingu milli þessara tveggja ráðuneyta.

Að lokum er lögð til 1,5 millj. kr. hækkun til Hrafnseyrarnefndar vegna verkloka við byggingu torfbæjar á Hrafnseyri. Bygging bæjarins er áætluð kosta 11 millj. kr. en kostnaður vegna tækja og áhalda mun verða rúmlega 3 millj. kr. Fyrirhugað er að opna bæinn til sýnis snemma á næsta ári. Í fjárlögum þessa árs eru veittar 1,5 millj. kr. til verksins og nokkrar stofnanir og fyrirtæki hafa lagt fram styrki til þessarar framkvæmdar, alls um 5,5 millj. kr.

Menntamálaráðuneyti. Lagt er til að stofnaður verði sjóður sem færður verði á fjárlagalið Háskóla Íslands og fái heitið ritakaupasjóður. Framlag til hans verður 31,5 millj. kr. en á móti þeirri hækkun lækkar framlag til bókakaupaliðar Landsbókasafns -- Háskólabókasafns um 19,5 millj. kr. þannig að heildarhækkun vegna hins nýja sjóðs er 12 millj. kr.

Samkvæmt lögum um Landsbókasafn -- Háskólabókasafn frá árinu 1994 skal hluti af fjárveitingu til Háskóla Íslands renna til bókasafnsins samkvæmt sérstöku samkomulagi milli bókasafnsins og háskólans. Í fjárlögum 1995 og 1996 var ekki tekið tillit til þessa ákvæðis þar sem ofangreint samkomulag hafði ekki verið gert. Á þessu ári voru lögð fram drög að samkomulagi stofnananna þar sem ákveðið var að stofna sérstakan ritakaupasjóð sem ætlað væri að standa að bókakaupum fyrir háskólabókaþátt safnsins. Fulltrúar háskólans ættu aðild að stjórn sjóðsins sem yrði í vörslu skólans. Með stofnun sjóðsins og aukningu bókakaupafjár safnsins er komið til móts við verðlagsbreytingar bóka og tímarita á heimsmarkaði og spornað við frekari niðurskurði á bókakaupum safnsins. Auk þess er gert ráð fyrir að háskólinn reyni eftir föngum að styrkja ritakaupasjóðinn með eigin framlagi.

Nýlega var opnað í Kvennasögusafn sem hefur fengið aðstöðu í Landsbókasafni -- Háskólabókasafni. Telja verður nauðsynlegt að koma á skýrum ákvæðum um greiðslu kostnaðar við þá starfsemi.

Gerð er tillaga um hækkun launagjalda á Tilraunastöð Háskólans að Keldum til áframhaldandi rannsókna, m.a. á riðu. Riðurannsóknirnar miða að því að útrýma riðu hérlendis og þarf vart að fjölyrða um það hvílík áhrif það gæti haft á sauðfjárrækt í landinu, á útflutning sauðfjárafurða í kjölfar umræðunnar um kúariðu.

Lagt er til að framlag til Raunvísindastofnunar háskólans hækki um alls 12,3 millj. kr. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að beita sér fyrir að veitt verði 17 millj. kr. framlag á næstu tveimur árum til sérstaks átaksverkefnis í grunnrannsóknum á aðstæðum í Vatnajökli. Eldsumbrotin í Vatnajökli hafa beint sjónum manna að mikilvægi grunnrannsókna á aðstæðum þar. Raunar telja vísindamenn, að umbrotin nú séu upphaf eldsumbrotahrinu jafnvel um nokkurt árabil. Er brýnt að skipulega verði unnið að rannsóknum til að unnt verði að bregðast markvisst við öllum frekari hræringum. Því er lagt til Raunvísindastofnun Háskólans verði veittar 10,5 millj. kr. í fjárlögum 1997 til að ráðast í þetta verkefni. Meiri hluti fjárln. tekur undir þá tillögu og leggur jafnframt til að framlag hækki um 1,8 millj. kr. til viðbótar til að standa undir öðrum almennum rannsóknum.

Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka rekstrarframlag til Árnastofnunar um 5 millj. kr. Stofnunin hefur átt við rekstrarerfiðleika að stríða, m.a. vegna útgjalda er snerta öryggismál. Ekki er viðunandi að ekki sé gætt fyllstu krafna um öryggisgæslu handritanna sem stofnunin varðveitir og telur fjárlaganefnd að með þessari fjárveitingu ætti stofnuninni að verða gert kleift að bæta úr í öryggismálum. Þess ber einnig að geta að á næsta ári er ráðgert að síðustu handritin skili sér heim og óhjákvæmilega fellur til einhver kostnaður vegna þeirra tímamóta.

Árin 1993--1994 var tölvukostur Tækniskóla Íslands endurnýjaður og færður til nútímahorfs. Búnaðurinn sem þá var keyptur er nú orðinn tæknilega úreltur og kröfur um aðgengi nemenda að nútímaupplýsingatækni og tilheyrandi vélbúnaði hafa stóraukist þannig að tækjakostur nægir hvergi nærri til að uppfylla þær kröfur. Nú er svo komið að nauðsynlegt þykir að endurnýja og uppfæra tölvubúnað skólans. Skólinn óskaði eftir rúmlega 35 millj. kr. fjárveitingu en meiri hluti fjárln. treystir sér ekki að leggja til svo háa fjárhæð en gerir tillögu um 12 millj. kr. fjárveitingu til endurnýjunar tölvubúnaðar.

Mikill áhugi er víða um land á fjarnámi Kennaraháskóla Íslands. Til að mynda hefur Vestmannaeyjabær farið fram á það við skólann að gera 25--30 einstaklingum kleift að stunda fjarnám í Vestmannaeyjum. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka fjárveitingu til fjarkennslu við Kennaraháskólann um 3 millj. kr. en leggur það í hendur skólans að ráðstafa þeim fjármunum þar sem þeir telja þörfina vera mesta.

Samvinnuháskólinn fær nú heiti og númerastaðsetningu í menntmrn. sem hæfir skóla á háskólastigi en hann flokkaðist áður með framhaldsskólunum. Í gildi er samningur milli skólans og menntmrn. um fjárframlög til skólans og miðast sá samningur við ákveðinn fjölda nemenda. Fyrirhugað er að endurskoða þann samning og í honum verður m.a. litið til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað við skólann. Námsbrautum hefur fjölgað og þar með nemendum og með kennslu á háskólastigi eru gerðar auknar kröfur á ýmsum sviðum, t.d. til bókakosts. Til að mæta útgjaldaauka vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á samningi leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að hækka fjárveitingu til skólans um 5 millj. kr .

Að venju eru sýnd yfirlit yfir viðhald og stofnkostnað framhaldsskóla í sérstöku yfirliti. Millifærðar er 7 millj. kr. fjárveiting af framlagi til tölvubúnaðar yfir á fjárveitingu til byggingarframkvæmda.

Á óskiptum lið framhaldsskóla eru færðar tæplega 50 millj. kr. sem eru að mestu ætlaðar til mæta óvæntum útgjöldum sem stafa m.a. af fjölgun nemenda en útgjaldaáætlanir skóla í fjárlagafrumvarpinu miðast við ákveðinn nemendafjölda. Forsvarsmenn margra framhaldsskóla komu á fund fjárlaganefndarinnar og töldu þeir að nauðsynlegt væri að endurskoða gildistölur framhaldsskóla en þær eru m.a. reiknaðar á grundvelli hlutfalls milli verknáms og bóknáms. Í ljósi fjárhagsstöðu framhaldsskóla leggur meiri hluti fjárln. til að hækka fjárveitingu á óskiptum lið um 30 millj. kr. til að gera menntamálaráðuneytinu kleift að koma til móts við fjárþörf skóla að lokinni endurskoðun á gildistölum fyrir framhaldsskóla og endurmati á rekstrarfjárþörf þeirra.

Í fjárlögum 1996 er 3 millj. kr. fjárveiting til tækja- og búnaðarkaupa hjá Vélskóla Íslands. Fjárveitingin hefur verið felld niður í fjárlagafrv. en lagt er til að hún verði tekin upp aftur enda Vélskólinn háður því að endurnýja tækjakost eigi hann að geta veitt hagnýta og góða fagmenntun.

Sjóvinnukennsla Stýrimannaskólans í Reykjavík hefur verið flutt í kjallara Sjómannaskólans og stafar þessi breyting m.a. af flutningi Samskiptamiðstöðvar heyrnarskertra í vesturálmu Sjómannaskólans á jarðhæð. Af þessum breytingum hefur hlotist nokkur kostnaður og leggur meiri hluti fjárln. til að veittar verði 3 millj. kr. tímabundið til að standa undir þeim útgjaldaauka.

Forsvarsmenn Hússtjórnarskólans á Hallormsstað komu á fund fjárln. og óskuðu eftir því að skólinn fengi að starfa með óbreyttu formi hér eftir sem hingað til en í fjárlagafrv. er ráðgert að starfsemi skólans verði hætt í núverandi mynd um mitt næsta ár og húsnæði hans afhent Menntaskólanum á Egilsstöðum. Í grg. með fjárlagafrv. segir m.a. að skólinn geti starfrækt þar nám í samráði við hagsmuna- eða áhugahópa sem greiðist af þátttakendum. Meiri hluti fjárln. tekur ekki afstöðu til þess hvort hússtjórnarkennslu verði best fyrir komið í hússtjórnarskólanum með óbreyttu fyrirkomulagi eða hvort hentugra sé að hafa skólann sem deild eða braut við Menntaskólann á Egilsstöðum. Hins vegar er það mat meiri hlutans að fjárveiting í fjárlagafrv. nægi ekki til að halda uppi námi af þessu tagi og leggur því til að fjárveiting verði aukin um 4 millj. kr.

[11:15]

Lagt er til að fjárveiting til eignakaupa á fjárlagalið Myndlista- og handíðaskóla Íslands verði aukin um 2 millj. kr. vegna átaks í uppbyggingu á aðstöðu skólans til margmiðlunar. Skólinn er æðsta menntastofnun landsins á sviði sjónlista og nýtur almennrar viðurkenningar sem sérskóli á háskólastigi. Meiri hluti fjárln. vill með þessari tillögu styðja það uppbyggingarstarf sem hefur átt sér stað á þessu svið hjá Myndlista- og handíðaskólanum.

Á vegum menntmrh. er starfandi nefnd með fulltrúum stjórnarflokkanna og námsmanna sem endurskoðar lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Gert er ráð fyrir að nefndin skili niðurstöðum á næstunni. Talið er að þær breytingar sem gera þarf á lögunum um sjóðinn muni kosta ríkissjóð um 100 millj. kr. og er hér lögð til hækkun á framlag til sjóðsins sem því nemur.

Lagt er til að hækka fjárveitingu til jöfnunar á námskostnaði um 10 millj. kr. Fjárveitingin hefur verið óbreytt frá árinu 1995 en brýnt er að styðja fólk í dreifbýli til að kosta unglinga til náms í framhaldsskólum.

Lögð er til 5 millj. kr. hækkun til Þjóðminjasafns Íslands og er sú tillaga tvískipt. Annars vegar eru 3 millj. kr. ætlaðar til að ljúka endurnýjun á tölvubúnaði sem hófst í ár. Tölvuvæðingin er liður í að koma safninu í það horf að það geti með starfsháttum tekist á nútímalegan hátt við fyrirliggjandi verkefni í skráningu hvers konar og upplýsingagjöf til almennings og annarra stofnana og ráðuneyta. Hins vegar er lagt til að veita 2 millj. kr. til skráningar fornminja.

Gerð er tillaga um að framlag til héraðsskjalasafna verði hækkað um 1 millj. kr. og eru þá 5 millj. kr. til ráðstöfunar til að styðja við bakið á héraðsskjalasöfnum um allt land.

Gerð er tillaga um 7 millj. kr. hækkun fjárveitingar til Þjóðleikhússins til að standa undir greiðslu uppbóta á lífeyri fyrrum starfsmanna leikhússins en ekki er áætlað fyrir þeim útgjöldum í fjárlagafrv.

Fjmrn. hefur í samráði við menntmrn. endurskoðað framlag ríkisins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands með tilliti til útreikningsreglna um fjármögnun sveitarinnar, greiðslu uppbóta á lífeyri og umsvifa í rekstri. Í framhaldi af þeirri yfirferð er lögð til 7 millj. kr. hækkun á framlagi til hljómsveitarinnar.

Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag til Kvikmyndasjóðs um 25 millj. kr. til að sjóðurinn geti aukið úthlutun sína. Hluti fjárhæðarinnar er þó ætlaður til uppgjörs á 10 millj. kr. skuld við ríkissjóð frá árinu 1986.

Lagt er til að taka inn nýjan lið með fjárveitingu til bókaútgáfu Leifs Eiríkssonar. Þar er þó ekki um fyrstu fjárveitingu til þessa verkefnis að ræða því að áður hefur verið veitt til þessa verkefnis af safnlið 2,5 millj. kr. í ár og sama fjárhæð í fyrra. Þessi sérgreinda fjárveiting er lokagreiðsla til útgáfu Leifs Eiríkssonar sem gefur út Íslendingasögur og Íslendingaþætti á ensku og með henni hefur ríkið styrkt þessa útgáfu um alls 7,5 millj. kr.

Ungmennafélagshreyfingin heldur uppi þróttmiklu starfi um land allt sem felst meðal annars í menningarmálum, félagsmálafræðslu, náttúruvernd, umhverfismálum, leiklist og fleiru. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka fjárveitingu til Ungmennafélags Íslands um 4 millj. kr. en af þeirri fjárveitingu er 1 millj. kr. ætluð til endurbóta á húsnæði samtakanna við Fellsmúla sem keypt var 1992.

Lögð er til breyting á nokkrum liðum undir ýmsum íþróttamálum. Í fyrsta lagi er lögð til 4 millj. kr. hækkun til Íþróttasambands Íslands en sambandið hefur víðfemt starfssvið. Í annan stað er gerð tillaga um að framlag til Ólympíunefndar Íslands hækki um 1,5 millj. kr. en kostnaður Íslendinga við ólympíuleikana í Atlanta hefur reynst meiri en áætlað var. Að lokum er lagt til að veita 8 millj. kr. til Borgarbyggðar vegna landsmóts UMFÍ sem haldið verður þar á næsta ári. Fjárveitingin mun fara til uppbyggingar á Skallagrímsvelli í Borgarnesi.

Í upphafi árs var á vegum ríkisstjórnarinnar hrundið af stað vinnu til að stemma stigu við vaxandi neyslu barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki. Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt heildstæða áætlun í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Ekki ætla ég mér að fjalla til hlítar um þessa áætlun en í kjölfar hennar eru lagðar til breytingar á fjárlögum sem ég mun gera nánar grein fyrir. Alls nema þessar hækkanir 65 millj. kr. og gert er ráð fyrir að fjármagna aukin útgjöld með verðhækkun á tóbaksvörum.

Í fyrsta lagi er fyrirhugað að efla löggæslu og er lögð til 35 millj. kr. fjárveiting á fjárlagaliðnum Áfengis- og fíkniefnamál undir dómsmrn. Fyrirhugað er m.a. að bæta tækjakost fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og fjölga starfsmönnum deildarinnar. Einnig er lögð áhersla á að samvinna tollgæslu og löggæslu verði aukin.

Í annan stað er lagt til að veittar verði 25 millj. kr. til að efla tollgæslu og er það fært á óskiptan lið á safnlið skatta- og tollamála í fjmrn. Eftirlit sem beinist að smygli á fíkniefnum verður eflt verulega og aukin áhersla verður lögð á leit að fíkniefnum í póstsendingum og í tengslum við komu skipa til Reykjavíkur. Hluti þessarar fjárveitingar er ætlaður til að efla eftirlit á Keflavíkurflugvelli en ráðgert er að framkvæmdaáætlun og tillögur um skiptingu fjárveitingarinnar liggi fyrir í lok febrúar og það sama á við um útfærslu á auknu fé til löggæslu.

Að lokum er lagt til að veita 5 millj. kr. til sérstaks sérfræðingateymis til að skipuleggja forvarnastarf í skólum og er fjárveitingin færð á safnlið menntmrn. 999 Ýmislegt. Í samræmi við áhersluatriði í stefnu ríkisstjórnarinnar og tillögur nefndar um könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga á Íslandi mun þetta forvarnastarf einkum beinast að ungmennum í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna og áfengis. Greining og viðbrögð við áhættuhegðun innan skólans verður efld og beinn stuðningur sérfræðinga við nemendur og kennara innan skólans aukinn. Þá verður stuðningur við foreldra ungmenna í áhættuhópum einnig aukinn. Áhersla verður lögð á að koma á tengslum milli starfsfólks skóla-, heilbrigðis- og félagsmálakerfis og annarra aðila eftir því sem við verður komið.

Utanríkisráðuneyti. Næst vík ég að tillögum er varða utanrrn. Vegna kjörs Íslands til setu í efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna er áætlað að kostnaður ráðuneytisins vegna þátttöku í fundum og starfi ráðsins aukist um 3,5 millj. kr. Lagt er til að framlag til aðalskrifstofu hækki um þá fjárhæð. Einnig er gert ráð fyrir að kostnaður aukist um 6 millj. kr. vegna launa, ferða og bættrar starfsaðstöðu starfsmanns til að hafa með höndum samningagerð og viðræður um úthafsveiðar fyrir hönd íslenska ríkisins. Að lokum hækkar framlag til aðalskrifstofu utanrrn. vegna kostnaðar við þýðingar á reglum ESB er tengjast innflutningi og afnámi heilbrigðiseftirlits með sjávarafurðum á landamærum EFTA og ESB en einnig verður nokkur kostnaður samfara lagasetningu og þingmeðferð vegna þessa.

Tekinn er inn nýr liður er varðar þátttöku fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi en heildarkostnaður við þátttöku þeirra í nefndarstarfi í tengslum við Fríverslunarsamtök Evrópu og samnings um Evrópskt efnahagssvæði er talinn nema um 4,5 millj. kr. Lögð er til 2,5 millj. kr. fjárveiting á þessum nýja lið og er hún millifærð af óskiptri fjárveitingu vinnumálaliðarins undir félmrn. Utanrrn. hefur haft um 2 millj. kr. til umráða til að styrkja þetta starf. Sú fjárhæð hefur verið færð á fjárlagalið aðalskrifstofu og meiri hluti fjárln. mun leggja til við 3. umr. að hún verði millifærð af aðalskrifstofu og til þessa nýja liðar.

Landbúnaðarráðuneyti. Lagt er til að hækka framlag til Skógræktarfélags Íslands um 0,5 millj. kr. og verður þá heildarfjárveiting til þess 3,5 millj. kr.

Að ósk landbrn. leggur meiri hlutinn til að nafn fjárlagaliðarins Greiðslur vegna riðuveiki verði breytt í Greiðslu vegna smitsjúkdóma og salmonellumengunar. Framlag er óbreytt en í nafnabreytingunni felst aukið svigrúm til að ráðstafa þeim fjármunum sem færðir eru á þennan fjárlagalið.

Sjávarútvegsráðuneyti Í fjárlögum þessa árs er framlag til sjóvinnukennslu 6,5 millj. kr. en liður þessi fellur niður í fjárlagafrv. Fjárln. leggur til að veita 4 millj. kr. til sjóvinnukennslu og að gerður verði samningur við Fiskifélagið um að það annist sjóvinnukennslu í grunnskólum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Við 2. umr. fjárlaga fyrir ári síðan lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að hækka fjárveitingu til lögfræðiþjónustu neyðarmóttöku vegna nauðgana og var sú hækkun til samræmis við áætlaðan árlegan kostnað í ljósi reynslunnar. Síðan hafa taxtar lögfræðinga hækkað nokkuð og er því lagt til að hækka framlag til neyðarmóttökunnar um 1 millj. kr. Áætlaður kostnaður á næsta ári er því 4,3 millj. kr.

Lagt er til að framlag til byggingar hæstaréttarhúss hækki um 35 millj. kr. og verði þá 45 millj. kr. en endanlegt uppgjör lá ekki fyrir fyrr en í byrjun nóvember. Þrátt fyrir þessa hækkun er byggingarkostnaður hússins innan kostnaðaráætlunar en hann er 467 millj. kr. á verðlagi í október síðastliðnum sem er um 7 millj. kr. innan upphaflegrar áætlunar. Kostnaður við lausan búnað o.fl. er áætlaður 85 millj. kr. á sama verðlagi en það er um 15 millj. kr. umfram áætlun. Munar þar mestu um að inn á þann lið þurfti að taka kaup og uppsetningu listaverks í stóra dómsalnum að fjárhæð 7,5 millj. kr. Í heild hafa því áætlanir um heildarkostnað því sem næst staðist.

Lagt er til að hækka framlag til Almannavarna ríkisins um 2,7 millj. kr. og er það einskiptisgreiðsla vegna æfingarinnar Samvörður en þar eru um að ræða sameiginlega björgunaræfingu NATO. Framlag Almannavarna til æfingarinnar mun verða starf framkvæmdastjóra stofnunarinnar, bæði það starf sem þegar hefur verið unnið og það eftirlits- og samræmingarstarf sem eftir er, ásamt starfi fastra starfsmanna til ráðgjafar og funda á undirbúningstímanum og síðan umtalsverð vinna þegar nær dregur æfingunni og á æfingardögum.

Á hverju ári slasast um 3.500 einstaklingar í umferðinni og yfir 20 bíða bana. Unglingar á aldrinum 17--21 árs eru í 4--5 sinnum meiri hættu að slasast í umferðarslysum en fólk á aldrinum 25--50 ára og talið er að aðallega megi rekja þetta til reynsluleysis. Nú eru komnir á markað ökuhermar sem eru vel nýtanlegir til ökukennslu og meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að veita 3 millj. kr. til ökuherma fyrir grunnskólabörn. Gert er ráð fyrir að unglingum verði gefinn kostur á kennslu í ökuhermi sem valgrein í efstu bekkjum grunnskóla.

Síðastliðið vor samþykkti ríkisstjórnin að þiggja boð um áheyrnaraðild Íslands að Schengen-samstarfinu en eins og er kunnugt er meginatriði þess afnám persónueftirlits við för um innri landamæri þátttökuríkjanna. Við gerð frumvarps til fjárlaga lá ekki fyrir hversu háa fjárhæð Íslendingar þyrftu að greiða til Schengen-skrifstofunnar á næsta ári vegna áheyrnaraðildar né lá fyrir áætlun um þýðingarkostnað á skjölum vegna samningsins. Gert var ráð fyrir fjárveitingu að fjárhæð 20 millj. kr. til þessara þátta. Nú er ljóst að áheyrnaraðildargjöldin verða um 5,5 millj. kr. á næsta ári og áætlun um þýðingarkostnað nemur 6--8 millj. kr. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur því til að til framangreindra verkefna verði veittar 14 millj. kr. og tillagan hljóðar því upp á 6 millj. kr. lækkun til Schengen-samstarfsins.

Síðasta tillaga sem heyrir undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið varðar Fangelsismálastofnun en þar er einungis um leiðréttingu á framsetningu að ræða sem gerð er að beiðni ráðuneytisins og leiðir ekki til útgjaldaauka.

[11:30]

Félagsmálaráðuneyti. Lögð er til 3 millj. kr. hækkun til heimilis fyrir börn og unglinga. Í þessu felst engin efnisbreyting heldur er hér um að ræða verðlagshækkun á framlagi til einkarekinna heimila. Fjárhæðin er millifærð af rekstrarhagræðingarfé félagsmálaráðuneytis og hefur því ekki heildarhækkun í för með sér.

Framlag til sambýla fatlaðra í Reykavík er 185,3 millj. kr. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að hækka það um 5 millj. kr. en fyrirhugað er að hefja rekstur þriggja nýrra heimila fyrir fatlaða í lok ársins, en heilsársrekstur þeirra kostar um það bil 40 millj. kr. Ekki hefur verið heimilt að hefja nýframkvæmdir eða kaup á heimilum fyrir fatlaða nema fyrir liggi heimild til reksturs í fjárlögum. Þörf fyrir þjónustu við fatlaða í Reykjavík er allnokkuð umfram þá þjónustu sem veitt er og ríkið greiðir fyrir. Nefnd sem unnið hefur að endurskoðun laga um málefni fatlaðra skilaði nýlega niðurstöðu. Meðal þess sem hún leggur til er að málefni fatlaðra í heild verði flutt frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 1999. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið undir þessa skoðun og er unnið að undirbúningi þess máls undir forustu félagsmálaráðuneytis.

Lögð er til 35 millj. kr. hækkun á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna sameiningar sveitarfélaga en ekki er áætlað fyrir þessum kostnaði í fjárlagafrumvarpi. Fjárhæðin er í samræmi við samkomulag ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 1994 um árlegt framlag ríkisins og Jöfnunarsjóðsins á árunum 1995--1998 til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga sem sameinast. Um er að ræða þriðju greiðslu af fjórum.

Lagt er til að óskipt fjárveiting til félagasamtaka hækki um 3 millj. kr. en um er að ræða millifærslu af safnlið heilbrigðisráðuneytis, Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Þar er felldur niður liður Sjálfsbjargar í Reykjavík en fjárveiting til félagsins á betur heima undir félagsmálaráðuneyti.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála eru áætluð rúmlega 52 milljarðar kr. á næsta ári eða sem svarar til 42% heildarútgjalda ríkissjóðs. Þá hefur verið tekið tillit til áforma heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um lækkun útgjalda. Þannig er gert ráð fyrir að lækka útgjöld sjúkratrygginga um 650 millj. kr. frá því sem þau ella hefðu orðið á næsta ári.

Í fyrsta lagi er áformað að lækka lyfjaútgjöld um 400 millj. kr. á næsta ári frá því sem annars hefði orðið. Útgjöld vegna lyfja stefna nú nokkuð fram úr þeirri áætlun sem fyrir lá við framlagningu fjárlagafrumvarps, eða um 300 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga þessa árs. Til eftirfarandi aðgerða verður gripið til að ná áformum fjárlaga:

Lyfjaverðsnefnd hefur ákveðið lækkun álagningar lyfja bæði í heildsölu og smásölu og tekur hún gildi um næstu áramót. Búist er við að sú lækkun spari um 250--300 millj. kr. í lyfjaútgjöldum almannatrygginga, sem skilar sér einnig að hluta til sjúklinga.

Í samræmi við tillögu lyfjahóps Tryggingastofnunar ríkisins hefur verið verið ákveðið að hækka greiðsluhlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði um 5 prósentustig. En þar sem verð lyfja lækkar bæði í heildsölu og smásölu, hámarksgreiðsluþak sjúklinga verður óbreytt og samkeppni í lyfsölu hefur aukist mjög, má ætla að litlar breytingar verði á útgjöldum notenda. Þessi breyting kemur til framkvæmda um næstu áramót og er áætlað að hún lækki lyfjakostnað almannatrygginga um allt að 200 millj. kr.

Gripið verður til ýmissa annarra aðgerða á árinu 1997 til að halda lyfjaútgjöldum ársins innan áætlunar fjárlaga, svo sem gæða- og kostnaðarstýringu lyfjaávísana, gerð lyfjalista, þjónustusamninga við heilsugæslustöðvar svo eitthvað sé nefnt.

Í öðru lagi hyggst heilbrigðisráðuneytið lækka rannsóknar-, röntgen- og lækniskostnað um 170 millj. kr. m.a. með því að endurskoða gjaldskrár fyrir blóðmeina- og meinefnarannsóknir með tilliti til raunverulegs kostnaðar og þeirra tæknibreytinga sem orðið hafa á því sviði. Einnig verða samningar og fyrirkomulag á greiðslum fyrir röntgenþjónustu endurskoðuð, m.a. með strangari ákvæðum um tilvísanir á slíka þjónustu og nánari skilgreiningu á þeim verkum sem almannatryggingar taka þátt í að greiða.

Tryggingastofnun ríkisins mun hætta að greiða fyrir rannsóknir, röntgen og slysastofuaðgerðir stofnana á föstum fjárlögum. Í því sambandi er hér lagt til að 970 millj. kr. framlag verði flutt af fjárlagalið sjúkratrygginganna yfir á nýjan fjárlagalið 207 Verkgreiðslur til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Heilbrigðisráðuneytið mun í byrjun næsta árs útdeila þessu framlagi til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á grundvelli reynslutalna fyrir árið 1996 jafnhliða því sem gerðir verða samningar við hlutaðeigandi stofnanir um það að þær annist ekki færri rannsóknir en þær gerðu á yfirstandandi ári. Þessi tilfærsla á að leiða til allt að 70 millj. kr. sparnaðar sem að stærstum hluta mun nást með því að ekki verður viðurkennd innbyggð aukning og verðbætur milli áranna 1996 og 1997.

Þá hefur samninganefnd Tryggingastofnunarinnar verið falið að ná fram 100 millj. kr. sparnaði í sérfræðingakostnaði vegna rannsókna og röntgens á næsta ári. Meðal annars er áformað að leita eftir tilboðum í rannsóknir frá einkareknum rannsóknastofum hér á landi, sem og frá erlendum rannsóknastofum í löndum þar sem daglegar beinar flugsamgöngur eru við. Jafnframt mun samninganefndin leita leiða til að lækka taxta fyrir röntgenþjónustu með því að endurskoða þá samninga sem nú eru í gildi. Enn fremur verður skoðað hvort ástæða er til að breyta fyrirkomulagi á greiðslum fyrir röntgenþjónustu, m.a. með strangari ákvæðum um tilvísanir á slíka þjónustu og nánari skilgreiningu á þeim verkum sem almannatryggingar taka þátt í að greiða.

Í þriðja lagi er Tryggingastofnun ríkisins að ljúka endurskoðun á reglum um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar sem er liður í að ná fram 80 millj. kr. sparnaði vegna tannlækninga á árinu 1997. Stærstum hluta sparnaðarins, eða um 30 millj. kr., er ætlað að ná með því að skilgreina þá þjónustu sem almannatryggingar greiða fyrir tannlækningar barna. Þá á að auka eftirlit með greiðslu reikninga en komið hefur í ljós við samanburð reikninga að tannlæknar beita taxtanum mjög mismunandi. Loks á að einfalda fyrirkomulag varðandi styrki til tannréttinga.

Til viðbótar við framansagða millifærslu á 970 millj. kr. af sjúkratryggingum yfir á nýjan fjárlagalið eru gerðar tvær tillögur um breytingar á fjárveitingu til sjúkratrygginga. Annars vegar er gert ráð fyrir að millifæra 6 millj. kr. frá fjárlagalið Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð vegna nýrra ákvæða almannatryggingalaga um styrki til kaupa á næringarefni og sérfæði sem lífsnauðsynlegt er vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi. Að auki hækkar framlag um 13 millj. kr. vegna þessa þannig að heildarframlag verður 19 millj. kr. Í framhaldi af samþykkt lagabreytinga í júní síðastliðnum setti tryggingaráð reglur um útfærslu. Áður skiptist kostnaður milli sjúkratrygginga og bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en eftir breytinguna fellur allur kostnaður á sjúkratryggingar.

Hins vegar eru millifærðar 19 millj. kr. til rannsóknastöðvar Hjartaverndar sem ég mun gera nánar grein fyrir á eftir.

Um árabil hefur verið í gildi samkomulag milli Tryggingastofnunar ríkisins annars vegar og Hjartaverndar hins vegar um greiðslu fyrir rannsóknir á sjúklingum, þ.e. aðrar en hóprannsóknir. Samkomulagi þessu var sagt upp á árinu. Nú liggja fyrir drög að samningi milli Hjartaverndar annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins hins vegar um kaup á þjónustu af rannsóknastöð Hjartaverndar. Samningurinn mun taka gildi frá og með næstu áramótum og tekur annars vegar til hóprannsókna og hins vegar til þjónusturannsókna, það er að segja á fólki utan kerfisbundinna skoðana sem áður var greitt af Tryggingastofnun ríkisins. Í samningnum er gert ráð fyrir stiglækkandi fjölda þjónusturannsókna en á móti kemur stighækkandi framlag ríkis til kerfisbundinna rannsókna til aukinnar þekkingar á hjarta- og æðasjúkdómum. Af þessum sökum eru lagt til að framlag til Hjartaverndar færist á einn undirlið í stað tveggja eins og áður og verður heildarframlag 29,5 millj. kr. Ekki er um hækkun fjárveitinga að ræða heldur er þetta millifært af öðrum liðum eins og nánar er lýst í nefndaráliti.

Tvær aðrar breytingar eru lagðar til sem heyra undir safnlið ýmissa heilbrigðismála. Annars vegar fellur framlag til Sjálfsbjargar niður og flyst til félagsmálaráðuneytis eins og ég gerði grein fyrir hér að framan. Hins vegar leggur meiri hluti fjárln. til að hækka framlag til Krýsuvíkurskólans um 2 millj. kr. Stofnunin hefur sinnt vaxandi hópi mikið veikra vímuefnaneytenda undir eftirliti landlæknis og hefur m.a. náð eftirtektarverðum árangri í endurhæfingu manna með langan afbrotaferil.

Á yfirstandandi ári hafa verið gerðar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi eldhúss Sunnuhlíðar í Kópavogi. Þær felast í því að Sunnuhlíð hefur hætt matsölu út fyrir stofnunina. Breyting þessi hefur ekki áhrif á rekstrarframlag ríkisins. Að beiðni heilbrrn. leggur meiri hluti fjárln. til breytingu á framsetningu fjárlaga til samræmis við þetta.

Lögð er til 3 millj. kr. hækkun til ýmissa rannsókna á alnæmi og fleira. Fram til þessa hefur sjúkrahúsið Vogur ekki þurft að greiða fyrir rannsóknir og kostnaðurinn hefur að mestu fallið á Rannsóknastofu háskólans í sýklafræði. Um áramót verður breyting hér á því þá mun rannsóknastofan senda reikninga fyrir þessar rannsóknir en að mati SÁÁ verður viðbótarkostnaður 6,5 millj. kr. á næsta ári. Meiri hluti fjárln. leggur til að komið verði til móts við þessa þörf með 3 millj. kr. fjárveitingu eins og áður segir.

Næst kem ég að breytingartillögum sem varða Heilsuverndarstöðina í Reykjavík og heilsugæslustöðina við Lágmúla og eru tilkomnar vegna endurnýjunar samnings við Heimilislæknastöðina hf. Breytingin leiðir ekki til útgjaldaauka en hefur áhrif á framsetningu fjárlaga þessara tveggja stofnana. Í framlagi til heilsugæslustöðvarinnar við Lágmúla er gert ráð fyrir að greidd verði húsaleiga en þær tekjur munu renna til stjórnsýslu heilsugæslunnar í Reykjavík, þ.e. til Heilsuverndarstöðvarinnar. Leigutekjurnar fara hins vegar að stærstum hluta til að standa undir framlagi til stöðvarinnar í Lágmúla en það sem eftir stendur verður m.a. nýtt til að standa undir viðhaldi stöðvarinnar sem stjórnsýsla heilsugæslunnar í Reykjavík mun annast.

Lagt er til að lækka sértekjur heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík en nokkur hluti sérteknanna er vegna sjúkraflutninga sem hafa dregist verulega saman sem aftur leiðir til þess að sérstekjur þessa árs verða nokkuð undir áætlun og það sama gildir um næsta ár. Tillaga um lækkun sértekna heilsugæslustöðvarinnar í Búðardal er af sama meiði sprottin. Einnig er lagt til að lækka sértekjur hjá heilsugæslustöð Vestmannaeyja og Suðurnesja en að mati stöðvanna eru sértekjurnar ofáætlaðar í ljósi reynslutíma síðasta árs. Að auki hækkar framlag til Heilsugæslustöðvar Suðurnesja vegna nýrrar stöðu heilsugæslulæknis. Ráðherrar heilbrigðis- og fjármála annars vegar og samninganefnd um byggingu D-álmu fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum hins vegar gerðu með sér samkomulag í nóvember sl. um málefni Sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar Suðurnesja. Í samkomulaginu eru m.a. ákvæði þess efnis að ráðherrarnir muni beita sér fyrir 2 millj. kr. hækkun fjárveitingar til heilsugæslustöðvar Suðurnesja vegna fjölgunar um eina stöðu heilsugæslulæknis.

Lagt er til að framlag til heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri verði hækkað um 2 millj. kr. vegna lokaáfanga þróunarverkefnisins ,,Nýja barnið -- aukin fjölskylduvernd og bætt samskipti``. Framlagið verður nýtt til rannsókna, kynningar, fræðslu, hönnunar meðferðarúrræða o.fl.

[11:45]

Fjármálaráðuneyti. Frumvarp til laga um fjárreiður ríkissjóðs mun hafa í för með sér 10 millj. kr. aukinn kostnað hjá ríkisbókhaldi vegna nýrrar framsetningar á ríkisreikningi. Ekki var gert ráð fyrir kostnaðinum við undirbúning fjárlagafrumvarps og meiri hluti fjárlaganefndar leggur hér til að hækka framlags til ríkisbókhalds um 10 millj. kr. Af sama meiði er tillaga um nýtt viðfangsefni á safnlið fjármálaráðuneytis, 999 Ýmislegt, en þar er lögð til 12 millj. kr. einskiptisgreiðsla vegna kostnaðar sem mun leiða af nýrri framsetningu á fjárlögum og ríkisreikningi.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1997 var kynnt að fjármálaráðuneytið mundi leggja til að gerðar yrðu breytingartillögur við fjárveitingar á fjárlagaliðum skattkerfisins. Ástæðan er sú að í fjármálaráðuneytinu hefur verið til athugunar hvort auka megi skilvirkni skattkerfisins með því að endurskoða skipulag starfseminnar. Áfangi í þessu starfi hefur nú náðst með því að fjmrh. hefur ákveðið að sameina skatteftirlit, sem framkvæmt hefur verið á skattstofum úti á landi, embætti ríkisskattstjóra og stofna við embættið nýtt viðfangsefni sem heitir skatteftirlit. Einnig er gert ráð fyrir nokkurri hagræðingu sem talið er að muni leiða af skönnun á skattframtölum. Tillögur meiri hluta fjárln. taka mið af þessum skipulagsbreytingum en rétt er að ítreka að eingöngu er um millifærslur að ræða og heildarfjárveiting hækkar ekki. Í þessum tillögum felst einnig hækkun til skattstofunnar á Reykjanesi en framlag til hennar hefur verið lægra en til annarra skattstofa sé tekið mið af umsvifum og íbúafjölda. Að lokum eru af sömu ástæðum gerðar nokkrar breytingar á safnlið skatta- og tollamála sem er lýst nánar í nál. Undir þeim lið er einnig tekin inn ný fjárveiting vegna átaks í tollgæslu í tengslum við fíkniefnavarnir sem ég hef þegar fjallað um.

Samgönguráðuneyti. Lagðar eru til nokkrar breytingar á liðnum Ýmis verkefni hjá samgönguráðuneyti.

Lögð er til hækkun framlags til Slysavarnaskóla sjómanna og Tilkynningarskyldu íslenskra skipa til samræmis við þær fjárveitingar sem eru í fjárlögum 1996 en þær voru lækkaðar í fjárlagafrv. Einnig er lögð til hækkun á framlagi til Slysavarnafélags Íslands, m.a. vegna tjóns á tækjum við björgunarstörf við Hornafjörð.

Lagt er til 5 millj. kr. framlag til almannavarna- og björgunarskóla á Gufuskálum í Snæfellsbæ. Með því að lóranstöðin á Snæfellsnesi var lögð niður varð um það samkomulag milli utanrrn. og varnarliðsins að ráðuneytið tæki við staðnum. Unnið er að samkomulagi milli þessara aðila í því skyni að nýta þær eignir sem þar eru. Ríkisútvarpið hefur tekið við lóranmastrinu og þar er unnið að uppsetningu langbylgjusendis. Gert er ráð fyrir að gerður verði samningur milli utanrrn. og Snæfellsbæjar um afhendingu staðarins til bæjarins og mun meiri hluti fjárln. leita heimildar í 6. gr. við 3. umr. fjárlaga sem heimilar þessa afhendingu. Starfandi er nefnd á vegum dómsmrn. um möguleika á að nýta þessar eignir til almannavarna- og björgunarskóla. Aðrir sem eiga aðild að þeirri nefnd eru samgrn. og menntmrn., Snæfellsbær og björgunarsveitirnar í landinu. Nefndin hefur ekki lokið störfum en að mati fjárlaganefndar er nauðsynlegt að hún hraði störfum sínum svo ljóst verði hver framtíðarnýting staðarins geti orðið.

Gerð er tillaga um nýjan lið er hefur fengið heitið Ferðamál og markaðsstarf. Í ljós hefur komið á undanförnum árum að mikil þörf er fyrir styrki til ferðaþjónustunnar víða á landsbyggðinni. Víða er unnið mikið brautryðjendastarf á þessu sviði en takmarkað fjármagn er fyrir hendi til að sinna þessu starfi sem skyldi. Möguleikar ferðaþjónustunnar til að sækja um styrki til markaðsaðgerða eru ekki miklir og því mikilvægt að fjármagn fáist á fjárlögum næsta árs til að renna stoðum undir áframhaldandi markaðsstarf fyrir ferðaþjónustuna.

Að lokum er undir safnlið samgönguráðuneytis lagt til að framlag til Landsbjargar hækki um 5,1 millj. kr. Af þeirri fjárhæð eru 2,5 millj. kr. vegna björgunarbátsins Þórs í Vestmannaeyjum og er það lokagreiðsla.

Skemmdir vegna náttúruhamfara á Skeiðarársandi eru lauslega metnar á 1 milljarð króna. Um 500 millj. kr. munu falla á Vegasjóð á næstu þremur árum, þar af um 150 millj. kr. í ár. Þessum útgjöldum verður að mestu mætt án þess að auka útgjöld ríkissjóðs. Þannig munu allar markaðar tekjur til vegamála á árinu 1997 umfram 7.470 millj. kr. fara til þessara framkvæmda. Lagt er til að framlag til Vegagerðarinnar hækki um 100 millj. kr. á næsta ári. Um er að ræða lán sem ríkissjóður veitir Vegagerðinni vegna þessara framkvæmda og sem verður endurgreitt af vegafé á árinu 1999.

Lagt er til að framlag til fjölsóttra ferðamannastaða hækki um 9 millj. kr. og verði þá rúmlega 14 millj. kr. Sívaxandi umferð um náttúruperlur landsins gerir það brýnt að bæta aðstöðu fyrir ferðafólk sem sækir þá staði heim og koma í veg fyrir náttúruspjöll.

Iðnaðarráðuneyti. Gerð er tillaga um 15 millj. kr. hækkun til Staðlaráðs en ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja til að 0,007% af tryggingagjaldsstofni renni til Staðlaráðs Íslands til að kosta þróun staðla. Tekjur af gjaldinu eru taldar 15--16 millj. kr. á ári. Staðlaráð þarf að sinna auknum verkefnum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og er þar um að ræða kostnað vegna þátttöku í alþjóðastaðlasamtökum. Ríkið greiðir nú stærstan hluta kostnaðar við stöðlun, m.a. fyrir þátttöku í evrópsku staðlasamstarfi, einstök sérverkefni og rekstrarframlag til Staðlaráðs. Þá er innifalið framlag til stöðlunar í framlagi til EFTA en alls er talið að framlög þessi nemi um 30 millj. kr.

Atvinnulífið hefur til þessa tekið lítinn þátt í kostnaði við staðla. Fyrirtækjum er hagur í að þróun staðla haldi áfram. Einstök fyrirtæki hafa bein not af stöðlum og í afmörkuðum tilfellum er hægt að selja aðgang að stöðlum. Er það nú þegar gert og nema tekjur Staðlaráðs um 6 millj. kr. af þeirri sölu. Ef verðið hækkar er hætt við að staðlar verði síður notaðir og því æskilegra að kostnaður verði greiddur af breiðum skattstofni.

Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er framsetningu fjárlagaliðar Orkustofnunar breytt nokkuð. Í greinargerð með fjárlagafrv. var boðað að fyrir dyrum stæðu skipulagsbreytingar hjá Orkustofnun en reglugerð um þessa skipan var staðfest af iðnaðarráðherra hinn 6. des. síðastliðinn. Meginbreytingin er sú að ráðgjöf og bein þjónusta við stjórnvöld er aðskilin frá framkvæmd rannsókna og skiptist því starfsemi stofnunarinnar í tvo málaflokka, orkumál og orkurannsóknir. Í samræmi við þetta eru lagðar til breytingar á framsetningu eins og lýst er í nál.

Lagt er til að styrking dreifikerfis í sveitum hækki um 10 millj. kr. og verði 110 millj. kr. Í ljós kom eftir að gengið hafði verið frá talnahluta fjárlagafrv. að fjárveitinging þyrfti að hækka um 10 millj. kr. til samræmis við samkomulag sem gert var við Rarik um ráðstöfun arðgreiðslna fyrirtækisins.

Umhverfisráðuneyti. Lagt er til að hækka fjárveitingu til ýmissa umhverfisverkefna á safnlið umhvrn. um 1 millj. kr. Hækkunin er ætluð til umhverfisverkefna á Hvolsvelli.

Umhvrn. óskaði eftir hækkun fjárveitingar til Veðurstofu Íslands til að mæta kostnaði við sólarhringsvakt vegna veðurathugana á Egilsstaðaflugvelli. Meiri hluti fjárln. hefur fallist á þessa ósk og leggur til 1,5 millj. kr. hækkun til Veðurstofunnar af þessum sökum.

Í lokin vil ég fjalla um mál sem varðar öll ráðuneyti. Í greinargerð með frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 kemur fram að á vegum ráðuneyta og stofnana ríkisins er unnið að margvíslegum hagræðingarverkefnum. Á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing undir hverju ráðuneyti er framlag sem ætlað er að mæta kostnaði af ýmiss konar hagræðingaraðgerðum sem leiða til varanlegrar lækkunar ríkisútgjalda. Þar má nefna skipulagsbreytingar, tækjakaup, endurbætur á vinnustað og hugsanlegar biðlaunagreiðslur. Heimildin á sér stoð í lið 5.6 í 6. gr. frv. og nemur alls um 250 millj. kr. á árinu 1997. Fjmrn. hyggst gefa út reglur um úthlutun fjárins og vil ég við þetta tækifæri geta um helstu þætti þeirra.

Í fyrsta lagi skulu umsóknir vera skriflegar þar sem gerð er grein fyrir þeim verkefnum sem um er að ræða og áætlaðan kostnað. Einnig skal gerð grein fyrir því hve mikið, hvenær og hvernig það leiðir til lægri rekstrarkostnaðar á næstu árum.

Í annan stað er gerð krafa um að kostnaður við verkefnið skili sér til baka á nokkrum árum. Miðað er við að fjárveiting til þeirra sem fá úthlutun lækki um a.m.k. helming af styrkfjárhæð þegar á árinu 1998. Gert skal skriflegt samkomulag um frekari lækkun fjárveitinga og hvernig ávinningi af hagræðingu skuli ráðstafað.

Loks skal ráðuneyti í lok hvers ársfjórðungs leggja fyrir fjárlaganefnd Alþingis og fjármálaráðherra tillögur sínar um úthlutun ásamt greinargerð. Í greinargerð komi fram mat ráðuneytis á umsókn og áform um lækkun fjárveitinga á næstu árum til þeirra sem hlut eiga að máli. Ráðuneyti er heimilt að ganga frá úthlutun og samkomulagi við rekstraraðila að fengnum athugasemdum fjárln. og fjmrh.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem fjárln. hefur gert við 2. umr. fjárlaga. Þessar brtt. fela í sér útgjöld upp á liðlega 700 millj. kr. umfram það sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir og er til ýmissa aðkallandi verkefna að mati nefndarinnar þó fjölmörgu hafi þurft að hafna.

Í starfi nefndarinnar ber okkur að gæta þess að fara vel með almannafé og reyna af bestu getu að sjá til þess að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best.

,,Minn herra á aungvan vin.`` Þessi orð leggur stórskáldið Halldór Laxness í munn Jóni Guðmundssyni Grindvíkingi í Íslandsklukkunni, hinu stórkostlega skáldverki. Sagt er að ríkissjóður eigi fáa vini. Það kann að vera eitthvað til í því að hann þyrfti að eiga fleiri. Staðreyndin er hins vegar sú að hans geta er aldrei meiri en í hann er greitt af skattgreiðendum landsins með beinum hætti eða með gjöldum af umsvifum þeirra í hinu daglega lífi.

Ég þakka að lokum fjárln. fyrir einstaklega gott samstarf og beini þeim orðum ekki síst til fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni sem hafa unnið sitt starf með miklum ágætum og á málefnalegan hátt. Ég þakka starfsfólki fyrir þess góðu störf og nefni þá sérstaklega Sigurð Rúnar Sigurjónsson, ritara nefndarinnar, Ragnheiði Sumarliðadóttur og Bentínu Haraldsdóttur. Án þeirra værum við fjarlaganefndarmenn umkomulausir.

Ég þakka starfsfólki fjárlagaskrifstofu fyrir þeirra aðstoð og einnig starfsmönnum Ríkisendurskoðunar fyrir aðstoð við nefndina.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.