Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 13:53:56 (2150)

1996-12-13 13:53:56# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[13:53]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson)frh.:

Herra forseti. Ég vil enn og aftur ítreka það að ég tel að það sé nánast móðgun við þingið ef hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru ekki viðstaddir 2. umr. fjárlaga. Fjárln. er búin að leggja nótt við dag til að sinna þeirri vinnu sem lögð hefur verið á hana af hálfu ríkisstjórnarinnar og meirihlutaflokkanna. Ég tel að það sé lágmarkskurteisi að vera við umræðuna. Ég vil reyndar þakka þeim hæstv. ráðherrum sem voru hér frá því í morgun. En ástæðan fyrir því að ég gerði hlé á ræðu minni var sú að þeir sem ég þá óskaði eftir að væru viðstaddir --- sem ég vona að séu nú komnir. Er ekki svo?

(Forseti (ÓE): Það eru sex ráðherrar mættir.)

Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sé í húsinu. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. hlýði á mitt mál. Ég get ekki krafist þess að hæstv. forsrh. komi í stól og svari mínum spurningum en ég hlýt að geta krafist þess að hann hlýði á þær spurningar sem ég hef fram að færa. (GÁ: Er hv. þm. í vinnu hjá ríkisstjórninni eða þinginu?) Hv. þm. er í vinnu hjá landsmönnum öllum.

Herra forseti. Ég sagði í morgun að fjárlagafrv. væri ekki bara upptalning á einsökum útgjaldaliðum og tekjupóstum. Það segir ekki aðeins til um hvað skattar eru áætlaðir háir á fjárlagaárinu eða hvað heilbrigðisþjónusta landsmanna muni væntanlega kosta. Í framhaldi af þessu spyr ég hæstv. fjmrh., ef hann má vera að því að ræða fyrir fundarhöldum við hæstv. utanrrh., þar sem þeirra mál virðast ekki leysast á réttum stöðum: Eru framsettar tölur varðandi rekstur sjúkrahúsanna í endurskoðun? Hvers má vænta hæstv. fjmrh.?

Fjárlögin eiga að vera tæki til að gera aðstæður einstaklinga og fjölskyldna bærilegar og við núverandi skilyrði ættu þau að fela í sér jákvæð skilaboð til verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda afdrifaríkra kjarasamninga. Launafólk hefur tekið á sig þungar byrðar á undanförnum árum sem kominn er tími til að af því og ef allt væri með felldu ætti fjárlagafrv. að gefa skýrar vísbendingar þar um. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að hækkun bóta til öryrkja, atvinnulausra og aldraðra verði 2%. Telur hæstv. fjmrh. ekki eðlilegra að bætur þessar lúti þeim breytingum sem verða á almennum vinnumarkaði?

Herra forseti. Ég á eftir örfáar spurningar til hæstv. fjmrh. og ég vænti þess að hann gefi sér tíma til að hlýða á þær. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa aukist. Við státum okkur af einhverjum mesta hagvexti innan OECD og efnahagsspár benda til framhalds þar á. En fjárlagafrv. ber ekki með sér að höfundar þess hafi fylgst með þessari þróun. Á undanförnum árum hefur skattastefnan miðast að því að leggja meiri skatta á heimilin. Sífeldar breytingar á barnabótum, barnabótaauka og vaxtabótum hafa leitt til mikillar óvissu hjá barnafólki og ungum húskaupendum. Það er sérkennileg skattastefna sem boðar upplausn fjölskyldunnar frekar en sameiningu hennar. Þar fyrir utan hafa heimilin þurft að taka á sig aukna skattbyrði til að hægt væri að lækka skattbyrði fyrirtækja. Það er kominn tími til að fjölskyldan verði aftur hornsteinn þjóðfélagsins í stað þess að vera hornsteinn skattakerfisins. -- Hvenær er að vænta niðurstöðu frá svokallaðri jaðarskattanefnd sem hæstv. fjmrh. skipaði fyrir margt löngu? Þetta er þriðja spurningin, herra forseti, til hæstv. fjmrh.

Kem ég þá að kafla sem ég nefni: Þjóðhagshorfur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Í lok þessa kafla, herra forseti, er spurning sem ég beini til hæstv. forsrh. og ég vænti þess að gerðar verði ráðstafanir til að hann heyri hana. (Fjmrh.: Til mín?) Hæstv. forsrh. (Fjmrh.: Nú.) Efnahagsmál hafa að sumu leyti þróast með hagstæðum hætti á þessu ári. Samkvæmt nýjustu spá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að vöxtur landsframleiðslunnar á þessu ári nemi um 5,5%. Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1997 er gert ráð fyrir nokkuð minni hagvexti, eða sem nemur 2,5%. Ef þetta gengur eftir verður meðalvöxtur landsframleiðslunnar hér á landi um 3,4% frá árinu 1994 eða um einu prósentustigi hærra en í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar að meðaltali.

Herra forseti. Er hæstv. forsrh. í salnum?

(Forseti (GÁS): Nei, hæstv. forsrh. er augljóslega ekki í salnum og hann er heldur ekki í húsinu. Forseti mun gera ráðstafanir til að fá hann til fundar.)

[14:00]

Ég doka við en það er alveg sjálfsagt að halda áfram. Ég geri þó eindregið kröfu, herra forseti, til þess að hæstv. forsrh. gefi sér tíma til að hlusta á ræður og vera til svara um spurningar eða a.m.k. hlusta á spurningarnar sem eru bornar fram við umræðu um fjárlög. Það er ekki síður lítilsvirðing við meiri hluta hv. fjárln. að vera ekki viðstaddir þá umræðu sem hefur farið fram, gagnmerka ræðu hv. formanns fjárln. í morgun.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að boðum hefur verið komið til forsrh. um þessa beiðni.)

(Fjmrh.: Láttu spurninguna koma.) Spurningin er: Hverjar eru þær ráðstafanir sem hæstv. forsrh. ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera til að halda stöðugleikanum og jafnri þróun í vexti landsframleiðslu? Hverjar eru þær ráðstafanir sem eru fyrirhugaðar til þess?

Hagþróunin að undanförnu hefur markast fremur af auknum þjóðarútgjöldum en aukinni innlendri verðmætasköpun. Þetta má glöggt sjá í þeim mikla umsnúningi sem orðið hefur í þróun viðskiptajafnaðarins á þessu ári en gert er ráð fyrir að viðskiptahallinn muni nema um 9 milljörðum króna í ár. Sama er upp á teningnum á næsta ári. Þjóðarútgjöld eru talin munu aukast um 3,5% og á sú aukning aðallega rætur í neysluútgjöldum heimilanna og fjárfestingu. Vöxtur innflutnings er verulegur eða 5,7% miðað við 2,8% áætlaða aukningu útflutningstekna. Allt þetta mun valda því að viðskiptahallinn á árinu 1997 verður langt yfir viðunandi mörkum miðað við eðlilegt fjárfestingarstig eða um 15 milljarðar kr. Nauðsynlegt er að allir átti sig á því að aukinn viðskiptahalli er bein ávísun á auknar erlendar skuldir. Og þá er komið að annarri spurningu til hæstv. forsrh. Ég sé að hæstv. fjmrh. er önnum kafinn við að skrifa niður spurningarnar og ég treysti því að þeim verði komið til skila og það er ástæða til að óska eftir skýrum svörum um þessi atriði og spurningin er svona: Er hæstv. forsrh. sammála þeirri fullyrðingu að hver milljarður í viðskiptahalla þýði 1 milljarðs lántöku erlendis fyrir ríkissjóð? Þetta er mikilvæg spurning að mínu mati og ég sé að hæstv. fjmrh. brosir en ég held að þetta sé alls ekki broslegt efni. Ef þetta er rétt þýðir það að 15 milljarðarnir sem ég var að ræða um, þýða 15 milljarða erlendar lántökur og það finnst mér ekki broslegt. (Fjmrh.: Fyrir þjóðarbúið?) Ég er að tala um það.

Vart þarf að taka fram að ef af fyrirhuguðum framkvæmdum við nýtt álver á Grundartanga verður munu þjóðhagsforsendur breytast. Þannig áætlar Þjóðhagsstofnun að landsframleiðslan aukist um 4,5% í stað 2,5% ef af þessu verður og viðskiptahallinn fari yfir 20 milljarða kr. --- Og nú hlýtur hæstv. fjmrh. að átta sig á samhenginu í þeirri spurningu sem ég var með. --- Við slíkar aðstæður hefur stefnan í ríkisfjármálum veigamikið gildi ef halda á verðlagsforsendum og skuldaþróun innan eðlilegra marka.

Minni hlutinn telur allt benda til meiri hagvaxtar á næsta ári en boðað er í frv. og eru tekjur þess vegna verulega vanáætlaðar. Aukin umsvif og neysla skilar tekjum í ríkissjóð sem verða mun meiri á þessu ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum og meiri á næsta ári en áætlað er í frv. Það er rétt að nýta þann tekjuauka, hæstv. fjmrh., til að bæta skuldastöðu ríkissjóðs, en ekki er síður mikilvægt að nýta hann til að rétta af stefnuna í menntakerfinu, heilbrigðis- og tryggingakerfinu og félagslega kerfinu. Niðurskurður síðustu ára í þessum málaflokkum hefur komið harkalega niður á almenningi og veldur meiri kostnaði til lengri tíma litið, bæði hjá einstaklingum og þjóðfélaginu í heild.

Gríðarleg skuldasöfnun hefur átt sér stað hjá heimilunum í landinu á undanförnum árum. Í upphafi níunda áratugarins námu skuldir heimilanna um 24,1% af ráðstöfunartekjum þeirra. Á þessu ári, herra forseti, er áætlað að samsvarandi hlutfall nemi um 131,3%. Greiðslubyrði lána hefur að sama skapi stóraukist og takmarkað svigrúm margra fjölskyldna, ekki síst tekjulágra, til að framfleyta sér á þann hátt sem við öll gerum kröfur til í nútímasamfélagi. Þegar skuldaaukning er orðin svo mikil að ráðstöfunartekjur heimilanna á heilu ári duga ekki til uppgreiðslu þeirra blasir alvarlegur vandi við.

Í lok þessa árs áætlar Seðlabankinn að heildarskuldir heimilanna muni nema tæpum 350 milljörðum kr. Á milli áranna 1995 og 1996 nemur skuldavöxturinn hátt í 30 milljörðum kr. á föstu verðlagi. Þetta eru skuggalegar og óhugnanlegar tölur.

Hvað skýrir svo óhagstæða þróun í fjármálum heimilanna sem raun ber vitni? Stór hluti þessarar þróunar stafar af því að einkaneysla er fyrst og fremst fjármögnuð með lánum. Undirrótin er án efa að stórum hluta fólgin í óhóflegri bjartsýni um framtíðartekjur sem stjórnvöld hafa ýtt undir með margvíslegum hætti. Hagvöxtur á þessu ári stendur því ótraustum fótum. Gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á næsta ári.

Þá veldur það frekari áhyggjum að heimilin sem halda uppi þessum hagvexti eru talin auka neysluútgjöld sín í ár sem nemur 7%. Það þýðir að annaðhvort er gengið á sparnað eða safnað skuldum. Hvorugur kosturinn getur talist góðar þar sem sparnaður heimilanna er afar lítill fyrir á alþjóðlegan mælikvarða og skuldsetning þegar mikil.

Það sér því hver maður að efnahagsstefna, sem felur í sér frekari vaxtahækkanir, hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir heimilin við þær aðstæður sem nú hafa verið skapaðar.

Þá kemur spurning til hæstv. félmrh.: Til hvaða aðgerða hyggst hæstv. félmrh. grípa gagnvart þessari þróun í fjármálum fjölskyldunnar? Ég tel að þessar aðstæður séu stórhættulegar og vonast eftir því að hæstv. félmrh. sjái sér fært að gefa svar við spurningu minni.

Ég er að koma að spurningu til hæstv. forsrh., herra forseti. Ég spyr enn um hæstv. forsrh. (Fjmrh.: Við tökum niður spurningarnar til hans.)

(Forseti (GÁS): Forseti bíður enn viðbragða eftir boðum sem til forsrh. var komið.)

Herra forseti. Ég get ekki annað en hreinlega mótmælt þessum vinnubrögðum. Það gengur ekki að yfirmaðurinn, verkstjórinn yfir fjárlagagerðinni, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, mæti ekki til viðræðna við þingmenn hér í salinn um mikilvægasta málefnið. Þó svo hæstv. fjmrh. sé hér staddur er hann ekki (Fjmrh.: Hann er verkstjórinn.) svaramaður og ábyrgðarmaður ríkisstjórnarinnar. (Fjmrh.: Hann er ekki svaramaður.) (Gripið fram í: Við viljum fá ráðherrann.) Ég vonast eftir því, herra forseti, að fljótlega komi upplýsingar. Ég mun halda áfram máli mínu nokkra stund og síðan sé ég ekki annað fært en gera hlé á ræðu minni þar til hæstv. forsrh. er ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að hæstv. forsrh. er á leið til fundar.)

Þakka þér fyrir, herra forseti.

Skuldasöfnun hins opinbera. Hið opinbera hefur ekki verið fordæmi fyrir heimilin í fjárhagslegu tilliti undanfarin ár. Skuldasöfnun opinberra aðila er nú komin á það stig að ástæða er til að hafa af því verulegar áhyggjur. Seðlabankinn áætlar að í lok þessa árs nemi samanlagðar skuldir A-hluta ríkissjóðs og sveitarfélaga rúmum 275 milljörðum kr. Í hlutfalli við landsframleiðslu nema skuldirnar 53,3%. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1995 koma fram sláandi tölur í þessu samhengi. Þar segir að ráðstafa þyrfti öllum skatttekjum ríkissjóðs í tvö ár ef greiða ætti niður skuldir hans.

Sífellt er hamrað á því að skuldir fari lækkandi og er þá vitnað til skulda í hlutfalli við ýmsar hagstærðir. Það hlýtur samt að vera áhugamál allra, bæði stjórnmálamanna og almennings, að horfast í augu við skuldavandann í stað þess að hengja sig ætíð í hlutfallstölur sem eru síbreytilegar milli tímabila til að réttlæta tiltekna stefnu. Kjarni málsins er sá að skuldir opinberra aðila aukast á þessu ári að raungildi úr rúmum 278 milljörðum kr. á árinu 1995 í rúman 281 milljarð kr. Þetta kemur reyndar skýrt fram í töfluviðauka við frv. Þá verður ekki fram hjá því litið að ríkisfjármálastefna sem bregst ekki við eða stefna sem bregst ekki af fullum þunga við þeim gríðarlega halla sem myndast hefur í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd er í reynd ekkert annað en skuldastefna. Við núverandi aðstæður eru ríkisfjármálin langvirkasta tækið til að bregðast við viðskiptahallanum. Þar vænti ég að við séum sammála, ég og hæstv. fjmrh. En það er ástæða til að ítreka spurninguna: Til hvaða ráðstafana ætlar hæstv. ríkisstjórn að grípa til að stöðva skuldasöfnun ríkisins? Þetta hlýtur að fylgja með um leið og spurt er til hvaða ráðstafana eigi að grípa til að stöðva skuldasöfnun heimilanna. Þá hlýtur að vera jafneðlilegt að spyrja: Til hvaða ráðstafana ætlar hæstv. ríkisstjórn að grípa til að stöðva skuldasöfnun ríkisins?

Það nær reyndar ekki nokkurri átt að vera að ræða stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við 2. umr. fjárlaga og að engin gögn hafi borist hv. fjárln. um þessi mál nema í óljósu fréttaformi frá hæstv. forsrh.

Ég ætla að ræða lítillega um fjárfestingar. Í þjóðhagsáætlun til aldamóta er gert ráð fyrir að fjárfestingar aukist verulega hjá fyrirtækjum og heimilum. Einnig er gert ráð fyrir að framleiðnin í þjóðarbúskapnum aukist. Heildarútflutningur eykst um 3,5% og aukning innflutnings verður um 3%. Ef þessi spá gengur eftir mun væntanlega viðskiptahalli snúast og afgangur verða. Það verður að gerast ef takast á að lækka erlendar skuldir. Minni hlutinn telur að erlendar skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 35--40% af landsframleiðslu ef unnt á að vera að ráða við sveiflur sem skapast af því að okkar afkoma byggist aðallega á sjávarútvegi.

Lítil fjármunamyndun er alvarleg meinsemd í efnahagsstjórn. Á árunum 1992--1994 varð um fjórðungssamdráttur á þessu sviði og þrátt fyrir lítils háttar aukningu síðan er Ísland í hópi þeirra þjóða sem hafa hvað lægst hlutfall fjármunamyndunar af landsframleiðslu eða 15,5%. Að jafnaði er náið samband á milli fjármunamyndunar og atvinnustigs. Það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að stuðla að fjárfestingu og nýsköpun í atvinnulífinu og skapa þannig störf fyrir ungt fólk sem streymir inn á vinnumarkaðinn. Skortur á slíkri stefnu er ávísun á viðvarandi atvinnuleysi. Varanlegum stoðum verður ekki skotið undir hagvöxt í framtíðinni nema hlutfall fjármunamyndunar hækki. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að lækka viðhalds- og fjárfestingarframlög verulega til þess að sporna við þenslu. Minni hluti fjárln. varar við að láta eignir ríkisins drabbast niður vegna skorts á viðhaldi og endurbótum.

[14:15]

Kem ég þá að kafla um launa- og atvinnumál. Meðal launafólks gætir vaxandi óþolinmæði og gremju yfir kjörum. Það er öllum ljóst að þjóðarsáttarsamningarnir byggðust á því að verkafólk axlaði að mestu byrðarnar af því að koma stöðugleikanum á. En mér er spurn: Forréttindahóparnir áttu að bera sinn skerf. Gerðu þeir það? Ég spyr og velti fyrir mér: Báru forréttindahópar í þjóðfélaginu sinn skerf? Og þá spyrja menn: ,,Hverjir eru þessir forréttindahópar?`` Ég læt mönnum eftir að velta því fyrir sér. Ákveðið var að frysta að mestu þáverandi ástand í launamálum með því óréttlæti sem í því er, enda talið mikilvægast að ná tökum á íslensku efnahagslífi. Það hefur tekist að vissu marki og er komið að því að stjórnvöld styðji nú við bakið á verkalýðshreyfingunni og mæti kröfum hennar um réttlátari skiptingu teknanna láglaunafólki til hagsbóta og jafnframt að treysta það öryggisnet sem velferðarkerfið á að vera sjúkum, öldruðum og láglaunafólki. Áform ríkisstjórnarinnar eru til þess fallin að vekja upp efasemdir um að stjórnvöld muni standa við sinn þátt þjóðarsáttasarmningana. Stjórnarstefnan hefur svipt burt þeim trúnaði sem áður ríkti milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda og er þannig orðin sjálfstætt efnahagsvandamál. Aftenging atvinnuleysisbóta, bóta ellilífeyrisþega og öryrkja við launaþróun er eitt þeirra atriða sem verður að breyta til fyrra horfs og tryggja verður að þær fylgi almennri launaþróun í landinu.

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með það að tveir ráðherrar skuli sjá sér fært að vera í salnum, þ.e. hæstv. félmrh. og fjmrh. og hlusta á þessar vangaveltur minni hlutans. Ég harma það hins vegar að aðrir hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar skuli ekki gefa sér tíma til að hlusta á þann málflutning sem er afleiðing af þeirri framsetningu fjárlaga sem við sem sitjum í hv. fjárln. höfum verið að fást við.

Launafólk á Íslandi er dæmt til þess í þessu launa- og skattakerfi að reyna að ná endum saman með vinnutíma sem er allt að þremur mánuðum lengri á ári en gerist meðal grannþjóða okkar. Nú er sá möguleiki að hverfa. Það býðst ekki lengur yfirvinna. Það má ekki einu sinni vinna hana þó hún bjóðist. Það er það sem er að breytast.

Herra forseti. Ég býð velkominn hv. þingflokksformann Sjálfstfl. En hann hvarf úr dyrunum um leið og hann kom. Við getum þá sagt: Vertu velfarinn.

Í fjárlagafrv. er ekki að finna neinar tillögur eða stefnu sem tekur á þessum málum. Minni hluti fjárln. átelur harðlega að einmitt nú, þegar við stöndum frammi fyrir allsherjarkjarasamningum við gjörbreytt skilyrði eftir samdráttarskeið og í nýju efnahagsumhverfi, reyni stjórnvöld ekki að ná árangri með því að leggja fram efnahagsstefnu sem er þess eðlis að hún sannfæri launafólk um að hugur fylgi máli. Það virðist ekki vera alvara í því af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda að gera hvort tveggja, að breyta skattkerfinu í þá átt að það verði vinnuhvetjandi en ekki letjandi eða að stuðla að réttlátari tekjudreifingu og sýna fram á að þessi efnahagsstefna verði haldbær, eins og hún reyndist vera í hallærinu. Hún hlýtur líka að verða að þola góðærið.

Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð, þá er verulega minna fjármagn látið til hans á næsta ári en á þessu. Að hluta til skýrist það af áætlun um heldur minna atvinnuleysi eða 0,2% sem er um 130 millj. kr. En það eru líka boðaðar hertar úthlutunarreglur sem ástæða er til að vara við.

Minni hluti fjárln. telur skilnings- og afskiptaleysi ríkisstjórnar Davíðs Oddssnar gagnvart höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar óþolandi. Skilningsleysið birtist í því að láta hvers kyns óréttlæti dafna í viðskiptum með sameign þjóðarinnar.

Herra forseti. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. forsrh., ef hann er í húsinu, komi í salinn því að ég treysti því að hann hlusti á spurningar sem beinast til hæstv. sjútvrh. sem er veikur. Og ég hlýt að gera kröfu til þess að hæstv. forsrh. taki við þeim dæmum og þeim spurningum sem ég ber hér fram.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að einir sex hæstv. ráðherrar eru í húsinu. Þeirra á meðal er ekki hæstv. forsrh. En eins og ég gat um áðan, er hann væntanlegur á hverri stundu.)

Herra forseti. Ég mun þá reyna að draga þetta enn. En ég lýsi því yfir að ég tel það vanvirðingu hjá verkstjóra ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni, að vera ekki viðstaddur þessa umræðu. (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég ætla að bíða með þessi dæmi. Þessi dæmi lúta að kvótasvindli eða svindli gagnvart meðferð á fiski og því að þegar svona svindl fer fram, þá lýtur það að vöntun á skatttekjum til ríkissjóðs. Og ef einhver ætlar að halda því fram að sá sem hér stendur hafi ekki áhyggjur af stöðu ríkissjóðs, þá er það rangt. Ég hef miklar áhyggjur af henni og ég hef miklar áhyggjur af því misferli sem á sér stað, sérstaklega varðandi kvótann.

Ég sný mér þá að öðru meðan beðið er eftir hæstv. forsrh. í nokkra stund en síðan er þolinmæði mín þrotin, herra forseti. Ég get ekki hlaupið aftur á bak og áfram í minni ræðu sem er byggð upp til sérstaks flutnings, til þess að þjónka geði hæstv. ráðherra og þessum áhugamálum þeirra að vera ekki viðstaddir hér.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur skilning á þessum vandamálum þingmannsins. Hv. þm. hefur um það val að ræða að gera hlé á ræðu sinni þar til forsrh. kemur ellegar að halda áfram með svipuðum hætti.)

Ég mun reyna, af því að hæstv. félmrh. hefur gert mér það til geðs að sitja undir ræðu minni og taka niður þær spurningar sem ég hef beint til hans, að snúa mér þá til hans með þær tvær spurningar sem ég á eftir og þá hefur hann fengið þær. Ég sný mér þá að húsnæðismálum.

Það er ástæða til að fara nokkrum orðum um Byggingarsjóð verkamanna. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að stefnt skuli að stórfelldum skerðingum framlaga til hans. Þessi skerðing er að okkar mati aðför að sjóðnum og samkvæmt nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar stefnir í gjaldþrot sjóðsins með sama áframhaldi. Minni hluti fjárln. lýsir allri ábyrgð á stöðu sjóðsins á hendur ríkisstjórninni.

Minni hlutinn vill leggja áherslu á að úrræða verði leitað til að auka möguleika ungs fólks til að fjárfesta í húsnæði. Þá er ljóst að auka þarf framboð á leiguhúsnæði og tryggja betur en nú stöðu leigjenda á fasteignamarkaðinum.

Kem ég þá að Framkvæmdasjóði fatlaðra og þar kemur fram síðasta spurningin til hæstv. félmrh., svo að hann viti af því. Minni hluti fjárln. varar við aðgerðum ríkisstjórnarinnar varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þegar sjóðurinn tók við ákveðnum hluta af rekstrarkostnaði í þessum málaflokki var það raunverulega samkvæmt samkomulagi í síðustu ríkisstjórn að sett var inn í fjárlögin þá að við það væri miðað að ef þessi sjóður ætti að einhverju leyti að fjármagna rekstur yrði tryggt að hann fengi óskertar tekjur af erfðafjárskatti sem nú er 420 millj. Nú eru einungis 165 millj. kr. settar í sjóðinn þannig að um 255 millj. renna í ríkissjóð. Minni hluti fjárln. telur að hér sé um alvarlega aðgerð og mjög vafasama að ræða vegna þess að þó að ekki sé verið að skera niður reksturinn núna --- minni hlutanum er algerlega ljóst að ekki er verið að skera niður reksturinn --- þá fer framkvæmdageta sjóðsins mjög minnkandi. Það mun koma fram í stöðnun í uppbyggingu á málefnum fatlaðra núna og á næstu árum og í lengingu biðlista.

Því spyr ég: Hver eru áform hæstv. félmrh. varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra á árinu 1998? (Gripið fram í.) Á árinu 1998. Það er ljóst hver áform hæstv. ráðherra eru varðandi árið 1997. Það er ljóst. En það er mjög mikilsvert að velta því upp hvert framhaldið er. Ætlar hæstv. ráðherra að taka sama hlutfall til rekstrar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra þá? Þessi spurning er að mínu mati grundvallaratriði og hæstv. ráðherra hlýtur að vera ljóst núna hvernig framhaldið árið 1998 er hugsað.

Herra forseti. Ég mun ekki fjalla um menntamál í minni ræðu en vísa til álits minni hluta fjárln. og ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur sem fjallar sérstaklega um þann málaflokk. Sömuleiðis mun ég ekki heldur fjalla um þann hluta álits minni hluta fjárln. sem lýtur að umhverfismálum eða forvörnum og aðgerðum vegna vímuefnavandans. Um þann málaflokk mun hv. þm. Kristín Halldórsdóttir annast sérstaklega af hálfu minni hlutans og vísa ég til ræðu hennar þar að lútandi. Mönnum finnst e.t.v. undarlegt að ekki skuli rætt um samgöngumál eða hafnamál í áliti minni hlutans. En mín skýring þar að lútandi er þessi: Það hefur ekki verið rætt um þann málaflokk, en gefið í skyn að um niðurskurð verði að ræða og því er rétt að bíða með umræðuna þar til ljóst er hverjar tillögur verða um þau mál. Þessi mál verða rædd við 3. umr. ásamt og með tekjuhluta fjárlaganna sem er í endurskoðun núna hjá Þjóðhagsstofnun og hæstv. ríkisstjórn.

Herra forseti. Ég kalla eftir hæstv. forsrh.

(Forseti (GÁS): Hann er ókominn enn til fundar. Forseti vill þakka hv. þm. fyrir að bregðast vel við óskum forseta um að skipa ræðu sinni eins og hann hefur gert. Forseti verður því að grípa til þess ráðs að fresta fundi um tíu mínútna skeið.