Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 14:48:19 (2152)

1996-12-13 14:48:19# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[14:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður sé ég ekki að ég komist yfir að svara öllum þeim spurningum sem til mín og reyndar forsrh. var beint en ég vil byrja á því síðasta sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu, þ.e. kvótinn og hugsanlegt kvótasvindl. Ég vil undirstrika það að hér eru tvö mál. Það verður að greina þetta í tvö mál. Annars vegar er þetta brot á kjarasamningi og lögum vegna skiptingar á milli sjómanna og útgerðar og hins vegar eru þetta skattaleg brot. Það er verið að athuga skattalagabrotin og það gerist þannig að upplýsingar frá Fiskistofu eru sendar skattstofum. Skattstofur kanna bókhald fyrirtækjanna og kanna hvort það eru tekjur á móti gjöldum hjá fyrirtækjunum. En ég vil leggja sérstaka áherslu á að það verða engir skattar til nettó út úr þessu dæmi því að það sem eru tekjur hjá einum eru gjöld hjá öðrum. Þessu verða menn að átta sig á.

Varðandi hitt, og það er það kannski fyrst og fremst sem hér er um að ræða, þá get ég því miður ekki sagt það hér, en það þarf að kanna það til hlítar og það eru til þess bærir aðilar í þjóðfélaginu, hvort höfð hafa verið kjör af sjómönnum í báðum þessum dæmum, annars vegar með muninum á 70 og 122 kr. sem ég get því miður ekki sagt um en þarf að kanna sérstaklega og til þess eru bærir aðilar. Ég hef hins vegar efasemdir um það --- það er bara mitt persónulega mat --- að í síðara tilvikinu sé um brot að ræða því í raun og veru er ekkert sem þvingar þá um borð til þess að setja fiskinn í hugsanlega verðmestu pakkningar. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en skil vel að hv. þm. skuli velta þessum málum fyrir sér, ekki síst í þeirri umræðu sem orðið hefur um kvótann.

Önnur atriði vil ég ekki koma inn á á þessu augnabliki en ég fæ að koma með andsvar öðru sinni og mun þá reyna að nefna örfá atriði.