Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 16:00:23 (2159)

1996-12-13 16:00:23# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:00]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir mjög málefnalega ræðu þar sem hún fór vítt um völl í umfjöllun sinni um fjárlagafrv. og þær breytingartillögur sem fyrir liggja frá meiri og minni hluta hv. fjárln. En það sem ég vildi nefna var sú harða gagnrýni sem kom fram hjá hv. þm. á málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna, og það lýtur að stuðningi við námsmenn. Ég vil í því sambandi í fyrsta lagi nefna það og vekja athygli á því að í brtt. meiri hluta fjárln. kemur fram að gert er ráð fyrir því að hækka framlög til jöfnunar námskostnaðar, svokallaðs dreifbýlisstyrks. Þar er um nokkra hækkun að ræða sem er mikilvæg fyrir þá nemendur sem stunda nám í framhaldsskólum. En að hinu leytinu vil ég vekja athygli á því að þegar þáverandi fjmrh. og menntmrh. Alþb. stigu úr stólum sínum, skildu þeir efnahag Lánasjóðs ísl. námsmanna eftir mjög illa til reika má segja. Þar stefndi í gjaldþrot. Sjóðurinn hafði verið galopinn og ég efast um að það hafi verið námsmönnum mjög til góðs að svo laust var haldið um tauma á þeim bæ. En auk þess voru ekki tryggðir fjármunir til sjóðsins. Hann var látinn taka lán og það stefndi í gjaldþrot.

Strax þegar stjórnarskipti urðu árið 1991 var tekið mjög fast á því að styrkja stöðu lánasjóðsins. Það hefur tekist og nú er þessu umbótastarfi haldið áfram með þeirri tillögu um hækkun á framlögum til Lánasjóðs ísl. námsmanna sem hér um ræðir. Ég er sannfærður um að stjórnendur lánasjóðsins munu breyta þannig, og e.t.v. mun það síðar gerast með löggjöf, að staða sjóðsins styrkist enn frekar og ekki síst verður komið til móts við hagsmuni námsmanna.