Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 16:05:10 (2161)

1996-12-13 16:05:10# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:05]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vegna orða hv. 12. þm. Reykv. vekja athygli á því að tæplega er hægt að tala um goðsögn um gjaldþrot Lánasjóðs ísl. námsmanna. Staðreyndin er sú að árið 1991 og árin þar á undan var staðan þannig að lánasjóðurinn tók dýr lán sem birtast núna með allt að 9% vöxtum og með þeim lánum var síðan lánað til námsmanna án þess að greiddir væru vextir. Lítið sem ekkert kom úr ríkissjóði inn í sjóðinn þannig að það sér hvert mannsbarn að það gat ekki stefnt annað en til gjaldþrots þegar annars vegar voru tekin lán með háum vöxtum og hins vegar veitt lán úr sjóðnum án vaxta og án þess að til þess kæmu sérstök framlög.

Ég vil bara ítreka að þær breytingartillögur sem hér er verið að fjalla um frá hv. meiri hluta fjárn. snúast um að bæta kjör námsmanna. Ég tel að það skipti mjög miklu máli vegna þess að hin íslenska þjóð á mjög mikið undir því að sem flestir fari til náms og afli sér þeirrar þekkingar og reynslu sem þarf til þess að takast á við lífið í þjóðfélagi okkar.