Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 16:08:36 (2163)

1996-12-13 16:08:36# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:08]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stundum hefur verið skopast að því á Alþingi hvað fjárlaganefndarmenn eru ósparir á þakkir hver í annars garð í ræðum sínum, einkum í 2. umr. um fjárlög hverju sinni. Ég læt það nú ekki á mig fá og hef mál mitt á því að þakka meðnefndarmönnum mínum, svo og starfsfólki nefndarinnar fyrir samstarfið, prýðilegt samstarf á þessari önn sem endranær.

Starfið í hv. fjárln. er mjög sérstakt, vinnutörnin löng og hörð og mikil samskipti nánast hvern einasta dag í margar vikur og þá skiptir miklu að starfsandinn sé í lagi. Annað væri nánast óbærilegt. Samstarfið er að mínu mati með ágætum í þessari nefnd þótt skoðanir séu skiptar um einstök atriði og heildarstefnuna.

Vinnan við þetta frv. hefur að þessu sinni verið nokkuð sérstök. Hún gekk mjög vel framan af og virtist lengi vel sem tiltölulega auðvelt yrði að standa við áætlanir um 2. umr. 5. desember. Undir lok nóvember brá hins vegar svo við að allt sat fast og gekk hvorki né rak í störfum nefndarinnar dögum saman. Meiri hlutinn virtist hreinlega í gíslingu hjá ráðherrunum sem skiluðu ekki áliti og tillögum sem beðið var eftir. Þetta kom sér vitanlega einnig illa fyrir okkur í minni hlutanum sem höfum haft lítið svigrúm til að vinna úr því sem fram hefur komið allra síðustu daga og vantar þó enn stóran og veigamikinn þátt inn í heildarmyndina þar sem ákvarðanir um rekstur sjúkrahúsa bíða 3. umr. Svipuð staða var raunar uppi fyrir ári þegar 2. umr. fór fram viku síðar en áformað var líkt og nú og nánast öllum heilbrigðismálakaflanum var frestað til 3. umr. þannig að staðan var reyndar enn þá verri. Það gerist sem sagt aftur nú á síðustu stundu að verið er að varpa fram tillögum eða hugmyndum úr heilbrrn. um það hvernig reyna eigi að ná fram sparnaði svo að skiptir tugum milljóna. Maður hlýtur að undrast og gagnrýna þessi vinnubrögð vegna þess að það er nánast líkast því að menn ranki við sér í byrjun desember í því ágæta ráðuneyti, heilbr.- og trn., og muni skyndilega eftir því að nú þurfi að koma fram með einhverjar tillögur. Auðvitað er þessu ekki þannig varið og í rauninni held ég að starfsfólk ráðuneytisins standi frammi fyrir óvinnandi verki og tillögurnar bera þess oft keim að vera hálfgerð örþrifaráð. Á hverju einasta ári er því uppálagt að finna leiðir til sparnaðar og niðurskurðar í kerfi sem passar engan veginn inn í þann stakk sem því er skorinn. Niðurstaðan er oftar en ekki sú að vísa vandanum til hinna ýmsu stofnana og láta þeim eftir að leysa hann. Síðan þekkjum við ótal dæmi þess að lausnirnar eru ekki vel séðar og sæta mikilli gagnrýni og hæstv. ráðherra kemur svo sem frelsandi engill til hjálpar þeim sem aðgerðirnar hefðu bitnað á. Staðreyndin er auðvitað sú að sparnaður og niðurskurður læknar ekki sjúka og læknar ekki öryrkja. Þeir þurfa sína þjónustu eftir sem áður, en hún hefur því miður verið að versna og hún hefur breyst og kostnaðurinn sem á að sparast við allar þessar aðgerðir skýtur einfaldlega upp kollinum annars staðar í kerfinu. Við erum einmitt að fjalla um afar skýrt dæmi í tengslum við aukafjárlög þessa árs þar sem heilsugæslan í Reykjavík á nú við sívaxandi halla að etja og sá halli starfar einkum af niðurskurðinum á sjúkrahúsunum. Fólk þarf að bíða lengur eftir aðgerðum og það er sent veikara heim af sjúkrahúsunum. Þetta kallar m.a. á heimahjúkrun í sífellt auknum mæli sem veldur auknum kostnaði hjá heilsugæslunni.

Því miður hafnaði meiri hluti Alþingis tillögu minni hlutans um aukið framlag til heilsugæslunnar við 2. umr. um fjáraukalögin, en frekari umræða um heilbrigðismálin hlýtur að bíða 3. umr. þegar séð verður hvernig meiri hlutinn vill afgreiða fjárhagsramma sjúkrahúsanna og tryggingakerfisins og þá vitum við hugsanlega eitthvað meira um útfærslu nýjustu tillagna ráðuneytisins um 100 millj. kr. sparnað í kostnaði vegna rannsókna og röntgenmyndatöku. Um það efni vitum við lítið nema fulltrúar ráðuneytisins fullyrtu að ekki ætti að auka hlut sjúklingsins og á það verður að sjálfsögðu rækilega minnt.

Herra forseti. Fulltrúar allra þingflokka í minni hlutanum standa að sameiginlegu nefndaráliti sem hv. frsm., hv. 5. þm. Vesturl., hefur nú mælt fyrir. Það varð einnig að ráði að við stæðum saman að nokkrum tillögum til breytinga sem ekki náðust fram í vinnu nefndarinnar og við kusum að skipta með okkur verkum að mæla fyrir þeim. Ein þeirra er á þskj. 348 og er flutt vegna þess að við getum engan veginn fallist á þann niðurskurð í þessu frv. til fjárlaga 1997 sem beinist að framhaldsskólum landsins.

Nú vil ég sérstaklega taka það fram að við styðjum og fögnum þeim tillögum sem lesa má um og kynna sér á blaðsíðu fimm í þskj. 332, þ.e. brtt. meiri hlutans, tillögum 13--20 þar sem framlög til framhaldsskóla almennt eru allmikið aukin, til Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólans í Reykjavík og Húsmæðraskólans á Hallormsstað sem sérstök ástæða er til að fagna þar sem þar með voru tekin til baka áform um að hætta rekstri hússtjórnarskólans í núverandi mynd og vonandi verður framtíð þeirrar starfsemi tryggð betur og áfram. Framlög eru líka hækkuð til Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Lánasjóður ísl. námsmanna fær 100 millj. kr. hækkun og sömuleiðis jöfnun á námskostnaði. Allar þessar hækkunartillögur eru af hinu góða. En eftir sem áður er umtalsverður niðurskurður til framhaldsskólanna. Ég ræddi það talsvert við 1. umr. um frv. Þá beindust áhyggjur mínar fyrst og fremst að örlögum framhaldsskólanna á Laugum, Húsavík og í Nesjum í Austur-Skaftafellssýslu, enda bitnaði niðurskurðurinn harðast á þeim. En meiri hlutinn hefur nú fallist á að ekki verði gengið að þessum skólum á þennan hátt og er það vel. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það nú hversu mikilvægu hlutverki þessir skólar gegna í sínum heimabyggðum og hversu misráðið er að raska grunninum að starfi þeirra. Ég vil aðeins láta í ljós von um að viðræður sem í gangi eru um framtíð þessara skóla og fjárveitingar til þeirra leiði til farsællar niðurstöðu.

Meiri hlutinn leggur til að þessir skólar fái við svo búið viðbótarfjárveitingu af óskiptum lið framhaldsskólanna og að liðurinn verði m.a. í því skyni hækkaður um 30 millj. kr. Þótt með þessu verði vonandi bættur sárasti skaðinn finnst okkur í minni hlutanum ekki nóg að gert. Öllum framhaldsskólum er ætlað að búa til skert fjárframlög og það hefur að vonum vakið hörð viðbrögð og reiði, bæði meðal skólamanna og meðal alls almennings enda varða þessi mál hvert mannsbarn í landinu og framtíð okkar allra og vísa ég þar með til orða hv. 2. þm. Vesturl. sem hafði svipuð orð í andsvari sínu áðan.

[16:15]

Það bundu margir vonir við nýsett lög um framhaldsskóla sem m.a. áttu að tryggja aukna áherslu á verkmenntun sem hefur sannarlega verið vanrækt í þessu landi til mikils skaða fyrir þjóðfélagið allt. Tillögurnar í fjárlagafrv. um 200 millj. kr. niðurskurð til framhaldsskólanna komu því mörgum á óvart eftir öll faguryrðin fyrr á árinu og verkuðu sem reiðarslag á þá sem raunverulega trúðu því að nú ætti að hefja framhaldsmenntun og sér í lagi verkmenntun til vegs og virðingar. Lágmarkið var auðvitað að ekki yrði gert verr en áður og maður hlýtur að spyrja hvenær stjórnvöld telji tímabært að styrkja og bæta grunninn ef ekki nú þegar betur árar. Hver er eiginlega framtíðarsýnin þegar stefnan birtist í stórfelldum niðurskurði í sæmilegu árferði?

Tillagan um fallskattinn svokallaða vakti einnig mikla reiði og viðbrögð enda getur hann komið illa við þá sem síst skyldi. Þær raddir heyrast vissulega, m.a. frá stjórnendum í skólakerfinu, að nokkur hluti nemenda þurfi aðhald og hvatningu til að slá ekki slöku við og gjöld vegna endurtekinna prófa geti verkað á þann veginn. Vel má vera að ráðstafanir af þessu tagi mundu hitta fyrir einhver verðug fórnarlömb. En miklu meiri ástæða er til að gæta hagsmuna þeirra sem höllum fæti standa í þessu kerfi, nemenda sem af einhverjum ástæðum þurfa mikið fyrir náminu að hafa eða verða fyrir töfum af ýmsum óviðráðanlegum orsökum og þá er það vel kunnugt að miklu erfiðara er að skipuleggja námsferil í áfangakerfi fjölbrautaskólanna og þar vill brenna við að nemendur ætla sér um of og verða að slá af þegar líður á önnina eða freista þess að ná prófi þrátt fyrir takmarkaðan undirbúning. Að skattleggja nemendur og aðstandendur þeirra sérstaklega af þessum sökum er sérlega ógeðfellt og fáránlegt að vísa ábyrgðinni á fáeina svarta sauði í þeirra hópi. Minni hlutinn vill að snúið verði aftur af þessari braut. Við leggjum til að fjárveiting til liðarins Framhaldsskólar verði hækkuð um 250 millj. kr. og sú hækkun verði notuð til að skila framhaldsskólunum aftur þeim niðurskurði sem birtist í fjárlagafrv. og til að hætta við þessi heimskulegu áform um fallskattinn. Við leggjum til að þessum fjármunum verði deilt út til skólanna eftir þeim reglum og gildistölum sem verið hafa til viðmiðunar og við miðum við að þar með verði varið sama fé að raunvirði á hvern nemanda í framhaldsskólunum eins og skólarnir búa við á þessu ári. Það er hugsunin á bak við þessa tillögu og ég vona að hv. þingmenn skilji það og styðji tillöguna. Metnaður okkar stæði vissulega til þess að gera enn betur en það er okkar niðurstaða að minna sé ekki viðunandi.

Menn hafa vafalaust tekið eftir að við leggjum hvorki til niðurskurð né tekjuauka á móti. Ástæðan er sú að við teljum þessa upphæð fyllilega rúmast innan fjárlagarammans og þó talsvert meira væri. Tekjuhliðin er augljóslega vanáætluð um a.m.k. 1,5--2 milljarða kr. þannig að heildarniðurstöðutölur frv. standast fyllilega þótt allar útgjaldatillögur bæði meiri hluta og minni hluta yrðu samþykktar að viðbættum væntanlegum hækkunum í heilbrigðismálakaflanum. Við sáum því ekki ástæðu til að leggja fram mótaðar tillögur um tekjuauka eða niðurskurð á móti.

Ég vil um leið benda á tillögur okkar þingkvenna Kvennalistans sem eru á þskj. 345. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir mun væntanlega skýra þær nánar síðar í umræðunni, en ég vil vekja athygli á þeim tillögum hér og nú og biðja hv. þingmenn að skoða þær vandlega. Þær eru að sumu leyti kunnuglegar enda höfum við haft þær áherslur lengi. Þar er fyrst um að ræða hógværa tillögu um svolitla hækkun til Námsgagnastofnunar en Kvennalistinn hefur margsinnis reynt að vekja þingmenn til umhugsunar um nauðsyn þess að gera betur við þá stofnun sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í menntakerfinu. Ættu menn ekki síst nú að sýna henni skilning eftir þá miklu umræðu sem verið hefur að undanförnu í tilefni af birtingu skýrslu um stöðu raungreina í skólum landsins sem að hluta til mun rakin til ófullnægjandi námsgagna.

Þá er tillaga um framlag til Félags einstæðra foreldra, sem hefur sótt um styrk úr ríkissjóði til að fjármagna nauðsynlegar endurbætur og viðhald á húsnæði sínu þar sem einstæðir foreldrar frá aðstöðu gegn vægu gjaldi um takmarkaðan tíma. Félag einstæðra foreldra fær nokkurt framlag til reksturs á fjárlögum en ekki náðist samstaða í fjárln. um styrk til viðhalds og endurbóta á húsnæði félagsins sem það hefur áætlað að kosta muni um 12 millj. kr. Rökin fyrir þeirri afstöðu meiri hlutans voru m.a. þau að þetta væri fremur verkefni sveitarfélaganna. Við erum vissulega þeirrar skoðunar að þau ættu að koma þarna inn í þar sem Félag einstæðra foreldra er einmitt að stórum hluta að leysa vanda sem sveitarfélögin koma að og ber í raun og veru að leysa. En ríkið á að okkar dómi að koma þarna inn í og við leggjum til að það fjármagni helming þessa kostnaðar en sveitarfélögin komi þar á móti með framlag. Það er mjög brýnt að styrkja og styðja þessa athyglisverðu starfsemi sem hefur hjálpað svo mörgum í erfiðum aðstæðum. Ég vona að hv. þingmenn sjái sér fært að styðja þessa tillögu þrátt fyrir svolítinn meiningarmun því að ég veit að fulltrúar meiri hlutans hafa skilning á þeim aðstæðum sem þarna er um að ræða.

Loks er tillaga um sérstakt framlag til aðgerða til að jafna launamun kynjanna. Hér stendur að þetta sé nýr liður og vissulega er verið að leggja til nýjan lið á fjárlögum en þetta er ekki nýr liður í brtt. Kvennalistans. Við lögðum fram sams konar tillögu á síðasta ári og hún hlaut ekki brautargengi en lengi má manninn reyna og við vonum að hv. þingmenn sýni þessari tillögu skilning. Við höfum margsinnis reynt að koma fram með tillögur og hugmyndir sem gætu gagnast til að taka á því sérsaka vandamáli, þ.e. launamisrétti kynjanna, og þarf ekki að minna á þá umræðu sem var fyrirferðarmikil í aðdraganda síðustu þingkosninga eftir útkomu skýrslu um launamisrétti kynjanna og Kvennalistinn brást við með því að leggja fram mótaðar tillögur um hvernig mætti taka á þeim vanda. Þetta er ein af þeim, þ.e. að taka frá sérstaka upphæð. Hún er ekki há og mundi vitaskuld ekki duga en þetta er viðleitni og hún er ætluð til að hækka sérstaklega fólk sem er órétti beitt að þessu leyti. En ætlunin er að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir fjalli betur um þá tillögu síðar í umræðunni.

Þessar tillögur eru nokkuð táknrænar fyrir þær áherslur sem Kvennalistinn hefur lagt í sínu starfi og bera kvennapólitískt svipmót þótt það væri vitanlega sterkara og víðtækara ef við réðum meira ferðinni. Þó hlýt ég að segja að mér finnst skilningur og velvild í garð okkar sjónarmiða hafa vaxið á hv. Alþingi og í hv. fjárln. þar sem fátt kemur lengur þeim félögum mínum á óvart og er sá munur allnokkur frá fyrstu tíð okkar á þessum vettvangi.

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli hv. þingmanna á því sem segir í kaflanum um umhverfismál í áliti minni hlutans. Umhverfismál eru mjög vaxandi málaflokkur um allan heim og hafa víða annars staðar meira vægi en hér enda áhrif mengunar og annarra umhverfisvandamála miklu sýnilegri en hér á landi. Þó koma þeir dagar æ oftar þar sem mengun af völdum útblásturs frá bifreiðum og verksmiðjum er jafnvel tilefni myndatöku, eins og sjá má á bls. 6 í Morgunblaðinu í dag. Slíkt ástand og miklu verra kannast menn við víða erlendis, t.d. í iðnaðarlöndum Evrópu þar sem mengunin byrgir sýn stóran hluta ársins og öll könnumst við við hvernig er að koma hingað til landsins úr takmörkuðu skyggni utan lands og sjá landshornanna á milli þegar loftið er sem tærast eins og henti nýlega þá sem hér stendur. Það er notaleg tilfinning og hlýtur að vekja með manni einlæga löngun til að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að svo geti verið um langa framtíð. En það er einmitt þess vegna sem við Íslendingar erum of andvaralausir og skynjum ekki nógu sterkt þann mikla vanda sem steðjar að öllu lífi og framtíð á jörðinni. Flestir landsmenn telja okkur bara í góðum málum miðað við aðra og hafa litlar áhyggjur af umhverfismálum almennt. Það er helst að menn viðurkenni nauðsyn þess að taka til sýnilegt rusl og koma því fyrir á skikkanlegan hátt og bæta frárennslismálin auk þess sem vaxandi skilningur er á því að úrbóta sé þörf vegna vaxandi ferðamennsku og áhrifa hennar á umhverfið og náttúru landsins. En að við séum sek í sambandi við mengun andrúmsloftsins er mörgum ekki áhyggjuefni. En því miður, þar erum við svo sannarlega bullandi sek. Bílaeign og bílanotkun er mikil og gríðarlegu magni af koltvíoxíði er blásið út í loftið frá bílum, skipum og flugvélum, svo og frá iðnaðarframleiðslu og annarri eldsneytisnotkun. Langmesta mengunin er tengd samgöngum eða um 66% og þar eiga skipin okkar stóran og vaxandi hlut vegna æ lengri siglinga fiskiskipa og aukinnar frystingar úti á sjó.

Kvennalistinn hefur ítrekað reynt að þrýsta á um ákveðið frumkvæði af hálfu íslenskra stjórnvalda í rannsóknum og tilraunum með mengunarfrírra eldsneyti sem brýn nauðsyn er að koma á markað sem allra fyrst því að ekki er raunhæft að binda vonir við minnkandi notkun samgöngutækja, hvorki hér á landi né annars staðar. Hið gagnstæða verður örugglega frekar raunin.

Ríkisstjórnin hefur gefið fyrirheit um að hún vilji leggja aukna áherslu á umhverfismál þó það sé lítt sýnilegt í frv. til fjárlaga næsta árs. Um alllangt skeið hefur verið unnið að gerð framkvæmdaáætlunar í umhverfismálum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og er hún nú á lokastigi í umhvrn. Í byrjun nóvember var haldið fjölmennt umhverfisþing til umfjöllunar um þessa áætlun þar sem fram kom mikill áhugi og fjöldi tillagna og ábendinga en jafnframt vissar áhyggjur um að ekki yrði séð fyrir nægu fjármagni til framkvæmdanna. Áætlunin er til næstu fjögurra ára og í henni er að finna markmið og leiðir sem augljóslega munu kosta talsvert fé. Verkefnin munu dreifast á nokkur ráðuneyti, en umhvrn. þarf að hafa með höndum frumkvæði, skipulagningu, upplýsingar og eftirlit, auk beinna verkefna til að ná settu markmiði. Í fjárlagafrv. sjást þess hins vegar engin merki að gert sé ráð fyrir aukinni starfsemi ráðuneytisins vegna þessa. Það styður auðvitað þann ugg sem fram kom á umhverfisþinginu að ekki fylgi nægilegur hugur máli.

Allar stofnanir umhvrn. gegna mikilvægum og vaxandi verkefnum og þyrftu auknar fjárveitingar ef vel ætti að vera. Minni hlutinn vill sérstaklega benda á aðstæður innan tveggja þessara stofnana. Er þá fyrst til að taka Hollustuvernd ríkisins.

Þrátt fyrir aukafjárveitingu á þessu ári til Hollustuverndar ríkisins eru horfur á verulega auknum halla hjá stofnuninni sem henni virðist ætlað að draga áfram á eftir sér. Ástæðan fyrir erfiðum rekstri stofnunarinnar er sú að henni eru sífellt ætluð aukin verkefni án þess að fjárveitingar og stöðuheimildir fylgi. Aukin verkefni eru fyrst og fremst vegna alþjóðlegra samninga og skuldbindinga, svo sem vegna EES o.fl. Slík verkefni eru orðin svo rúmfrek að framkvæmd eftirlits og vöktunar sitja á hakanum, og sama er að segja um rannsóknir, fræðslu- og leiðbeiningarstörf. Niðurstöður úttektar á verksviði og mannaflaþörf stofnunarinnar, sem unnin var af Skipulagi og stjórnun ehf., eru þær að 20,5 stöðugildi til viðbótar þeim 40 sem fyrir eru sé ,,alger lágmarksþörf``. --- Ég er ekki með skýrsluna við höndina en ég man ekki betur en þeir teldu að það þyrfti nærri að tvöfalda mannafla til að sinna öllum þeim verkefnum sem hér væri um að ræða.

[16:30]

Í frv. er gert ráð fyrir að aðeins verði fjölgað um eitt starf vegna framkvæmda laga um erfðabreyttar lífverur. Málefnum þessarar stofnunar er með þessu stefnt í óefni. Ég tel að það þurfi að gera áætlun um uppbyggingu og lagfæringu á málefnum þessarar stofnunar.

Veðurstofan er önnur stofnun sem ég vil fara nokkrum orðum um. Hún hefur tekið á sig æ fleiri og stærri verkefni á síðustu árum, einkum við vöktun náttúru og umhverfis og er skemmst að minnast að til hennar var vísað snjóflóðavörnum á síðasta þingi. Forsvarsmenn stofnunarinnar telja launalið hennar vanáætlaðan um liðlega 11 millj. kr. miðað við óbreytt umfang almennrar starfsemi og telja samdrátt í þjónustu óhjákvæmilegan fáist hann ekki leiðréttur. Meiri hlutinn hefur ekki viljað fallast á það þótt ljóst sé að Veðurstofan þarf aukinn mannskap ef hún á að geta aukið sértekjur sínar eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Verra er þó að ekki hefur fengist leiðrétting á framlagi til eignakaupa stofnunarinnar. Sá liður þyrfti 10--20 millj. kr. hækkun og má til áherslu vitna í rökstuðning Veðurstofunnar. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að vitna í gögn frá Veðurstofunni: ,,120 ársverka stofnun sem veltir 450 millj. kr. (þar með talið vegna ICAO, ofanflóðasjóðsverkefni, ESB-styrkt verkefni o.fl.), rekur 150 veðurathugunarstöðvar, 30 jarðskjálftastöðvar, veðurratsjá, tvær háloftastöðvar, 50--60 tölvur, netkerfi til tölvuvinnslu og fjarskipta og margt fleira, gerir nánast ekkert til endurnýjunar búnaðar eða bætir þjónustu með eignakaupalið upp á 10,4 millj. kr.``

Þetta er að mínu mati réttmæt ábending og hefði verið skynsamlegt að koma til móts við óskir stofnunarinnar þó ekki væri nema að hálfu.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að forvörnum og aðgerðum vegna vímuefnavandans sem er sérstakur kafli í okkar nefndaráliti.

Stjórnvöld hafa nú loks tekið við sér vegna vaxandi neyslu vímuefna sem veldur ómældum vanda, ekki aðeins einstaklinga og heimila, heldur þjóðfélagsins alls. Það er mikið áhyggjuefni að ólögleg efni virðast beinlínis streyma inn í landið. Starfsemi innflytjenda, ef svo má að orði komast um þessa glæpamenn, og sölumanna teygir krumlurnar um allt samfélagið, neytendur verða sífellt yngri og ofbeldi verður æ harðara innan þessara hópa. Stjórnvöld hyggjast nú loks taka nokkuð á vandanum og þá fyrst og fremst með því að freista þess að draga úr framboði ólöglegra efna, herða löggæslu og tollgæslu. Því ber að fagna, enda brýn nauðsyn að efla gæslu á því sviði og sérstaklega að herða eftirlit í hinum ýmsu höfnum landsins. Einnig þarf stórbætta gæslu í Leifsstöð, m.a. vegna ábendinga frá Interpol um vaxandi hættu á að stöðin verði notuð sem skiptistöð til að koma ópíum og heróíni frá Suður-Ameríku til Evrópulanda. Og hvað vitum við nema sú starfsemi sé hafin.

Skuggahliðin á þessu átaki stjórnvalda er sú að það er ekki nóg að draga úr framboði eiturefnanna heldur þarf með öllum tiltækum ráðum að draga úr eftirspurninni sem er mikil og ört vaxandi, því miður ekki síst meðal ungmenna. Forvarnaþátturinn er vanræktur og illa skipulagður og meðferðarþátturinn er fjársveltur þrátt fyrir augljósan og merkilegan árangur á því sviði. Þar mætti ná enn betri árangri við björgun og endurhæfingu þeirra sem lent hafa í klóm eiturefnanna. Þessi mál verðskulda og þurfa styrkari stuðning en til þessa hefur verið veittur. Það er að stórum hluta forvarnir að stuðla að endurhæfingu vímuefnaneytenda og bjóða upp á úrræði sem duga til að halda þeim frá neyslu. Meiri stuðningur stjórnvalda mundi skila sér margfalt til samfélagsins aftur. Það er ég alveg sannfærð um. Ég hefði kosið að sjá myndarlega tekið á þeim þætti þótt rétt sé að ítreka ánægju og stuðning við aukin framlög til toll- og löggæslu til þess að freista þess að draga úr framboði ólöglegra vímuefna sem eru einn af bölvöldum mannkyns og ógn við framtíð barna okkar og unglinga.

Eins og segir í nefndaráliti minni hlutans, þá tókum við þátt í afgreiðslu þeirra brtt. sem meiri hlutinn flytur og styðjum margar þeirra. Það væri út af fyrir sig ástæða til að fjalla um það hér en það gæti orðið óþarflega langt mál og margir á mælendaskrá. Ég ætla að spara mér það og auðvitað er það aðeins smámunasemi af okkar hálfu að fara að flokka þessar tillögur og lýsa ánægju með sumar og óánægju með aðrar en þannig er þessu auðvitað farið að afstaða manna og áherslur eru misjafnar. Það voru nokkrir liðir sem ég lagði sérstaka áherslu á í nefndinni og er sátt við afgreiðslu sumra þeirra en síður annarra eins og gengur. Kvennasögusafnið var til umfjöllunar hjá síðasta ræðumanni, hv. 12. þm. Reykv., þannig að ég þarf ekki að hafa mörg orð þar um. Þetta merka safn var nýlega opnað með viðhöfn sem sérstök deild innan Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafnsins og er, eins og menn þekkja vonandi, stór hluti af ævistarfi merkrar konu, dr. Önnu Sigurðardóttur sem lést í janúar sl. Safnið var öll árin frá stofnun þess, þ.e. síðustu 20 ár, til húsa á heimili dr. Önnu, sem lagði ómetanlega sjálfboðavinnu af mörkum í þágu þessa málefnis og þar með ómetanlegan skerf til varðveislu og rannsókna á sögu kvenna. Er mjög mikilvægt að því starfi verði haldið áfram af fullum sóma. Annað væri vanvirðing við ómetanlegt starf þessarar merku konu. Staður þessa safns er tvímælalaust innan veggja Landsbókasafns -- Háskólabókasafns og það var stór stund þegar safnið var opnað 5. desember sl. á afmælisdegi dr. Önnu Sigurðardóttur. En eins og fram kom í máli hv. 12. þm. Reykv. fylgdi sá böggull skammrifi að stjórn Landsbókasafns -- Háskólabókasafns taldi sig ekki hafa fjármagn til þess að greiða starfsmanni Kvennasögusafnsins laun og tók við safninu með því skilyrði að stjórn Kvennasögusafnsins sæi um útvegun fjár vegna þess kostnaðar. Það er ljóst að hlutverk Kvennasögusafnsins er stórt og fer vaxandi vegna þess m.a. að nú er loks hafin kennsla í kvennafræðum í Háskóla Íslands og mikill áhugi á þeim auk vaxandi áhuga utan Háskóla Íslands. Það er ekki sjáanlegt að Kvennasögusafnið geti aflað sér sérstakra tekna og því er mjög nauðsynlegt að taka á þessu máli þannig að það sé algerlega tryggt að stjórn Kvennasögusafnsins fái það fjármagn sem þarf til þess að reka þetta safn.

[16:45]

Ég var ekki sátt við orðalag hv. formanns fjárln. í framsöguræðu hans og fannst ekki svo ljóst til orða tekið að hægt væri að herma það upp á stjórn Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns. Mér fannst sem sagt ekki koma nægilega skýrt fram að tryggt sé að þetta fé rati rétta leið en ég veit af samtölum við einstaka nefndarmenn í fjárln. að þeir hafa fullan vilja á því að svo verði. Ég þakka hv. formanni fjárln. fyrir þau orð sem hann viðhafði áðan og treysti því að við munum athuga þetta á milli umræðna. Ef einhver minnsti vafi leikur á því að þetta fari eins og okkar vilji hefur staðið til mun ég hafa frumkvæði að því að flutt verði brtt. við 3. umr. um sérstakan lið á fjárlögum eins og ég hef áður boðað í hv. fjárln. og ég mun leita eftir stuðningi a.m.k. allra þingkvenna og á bágt með að trúa því að þær verði ekki allar til þess búnar að koma til aðstoðar í þessu efni. (Gripið fram í.) Jú, en því miður er því búinn sá stakkur vegna naums fjárhagsramma Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns að stjórn þess taldi ekki svigrúm til þess að kosta sérstakan starfsmann til að veita þjónustu í þessari sérstöku deild. Ég geri ekki lítið úr velvilja Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns, svo ég fari nú enn einu sinni með þetta langa heiti á þessari merku stofnun, en það er okkar hlutverk þá að tryggja það að Kvennasögusafni Íslands verði sýndur sá sómi sem því ber. Saga kvenna hefur of lengi verið hornreka og tími til kominn að búa rannsóknum og fræðum á þessu sviði verðugri sess. En ég treysti því að við munum athuga þetta og tryggja þetta málefni milli umræðna.

Um annan málaflokk vil ég fara hér örfáum orðum um þ.e. ferðamálin. Ég ætla ekki að halda neina langloku um mikilvægi þeirra í atvinnu- og efnahagslífi landsmanna. Það hef ég gert oftsinnis áður og á sjálfsagt eftir að gera það við önnur tækifæri. Hér vil ég aðeins undirstrika nauðsyn þess að við séum vel á verði gagnvart þeim spjöllum sem ferðaþjónustan getur valdið á náttúru landsins. Um leið og ég þakka stuðning allrar fjárln. við hækkun framlags til þess verkefnis sem merkt er Fjölsóttum ferðamannastöðum og er ætlað til úrbóta og fyrirbyggjandi aðgerða hlýt ég að minna á hversu brýnt er að vinna ötullega á þessu sviði. Í fjárlagafrv. var þessi liður lækkaður um 5 millj. kr. frá yfirstandandi ári þar sem voru 10 millj. kr. til ráðstöfunar. Það varð að samkomulagi í hv. nefnd að hækka hann aftur og bæta um betur þannig að í heild nemur hann nú 14,1 millj. kr. eftir væntanlega samþykkt Alþingis og er það mikilvægt skref í rétta átt. En um leið og ég segi það vil ég biðja menn að íhuga að þessi upphæð er í raun aðeins ígildi þriggja vænna ráðherrabíla og má nú undarlegt teljast ef þjóðin telur sig ekki hafa efni á því að gera betur við stássstofu lands okkar og þjóðar.

Það er út af fyrir sig ánægjulegt í þessu sambandi að geta minnt á það að margir aðilar, bæði sveitarfélög, fyrirtæki, einstaklingar, félög og samtök af ýmsu tagi, hafa reynst fús til að bæta við þá upphæð sem frá ríkinu kemur til þessara hluta þannig að á næsta ári má búast við að unnt verði að vinna að úrbótum fyrir a.m.k. tvöfalda þessa upphæð. En þörfin er mikil og brýnt að tryggja áframhaldandi varðstöðu í þessu efni.

Herra forseti. Ég hef fyrst og fremst rætt um gjaldahlið frv. og einstaka liði hennar enda er það hún sem er fyrst og fremst til umræðu. Ég ræddi um tekjuhliðina og forsendu frv. við 1.umr. og þessir þættir verða frekar til umfjöllunar við 3. umr. Ég gæti í rauninni endurtekið allt sem ég sagði við 1. umr. um fjárlagafrv. þar sem allt bendir til að það sem ég sagði þar hafi átt við rök að styðjast. Ég hélt því fram þá að tekjuhliðin væri vanáætluð um 1--2 milljarða og það mun koma á daginn og því ber að fagna. Það bendir allt til þess að markmið ríkisstjórnarinnar um að afgreiða fjárlögin með afgangi á næsta ári náist og jafnvel meiri afgangi en stefnt var að þegar frv. var lagt fram og ég er sammála því markmiði í sjálfu sér og tel skynsamlegt og nauðsynlegt að grynnka á skuldum ríkissjóðs. Það næst auðvitað ekki nema ríkissjóður skili afgangi. Hins vegar er ég ekki sátt við skiptingu fjármuna eins og ljóst má vera af máli mínu og vísa í það sem ég hef sagt fyrr.

Ég vil aðeins koma inn á það sem kom fram í máli hv. formanns fjárln. þar sem hann ræddi nokkuð um störf fjárln. og hlutverk. Ég vil taka undir það sem hann sagði, ég skrifaði það ekki hjá mér en mig minnir að hann væri fyrst og fremst að tala um ágæti þess að gera fjárhagsáætlun til lengri tíma fyrir ríkissjóð og ég er sammála því. Hann talaði einnig um nauðsyn þess að gera forgangsröðun markvissari og því er ég hjartanlega sammála en því miður erum við ekki alltaf sammála um hvernig forgangsröðunin ber að vera en það er nauðsynlegt að vinna markvissar að því að forgangsraða í ríkisfjármálum. Hann drap einnig á þátt einstakra fagnefnda Alþingis og ég vil leggja áherslu á að mér finnst hafa orðið talsverð umskipti í þeim efnum þar sem ég þekki þetta starf frá fyrri tíð minni á Alþingi. Ég tel það mjög af hinu góða að fagnefndir þingsins fjalli um þá kafla sem tilheyra þeirra starfi. Það tryggir betra upplýsingaflæði milli þingmanna og gerir þá miklu virkari í umfjöllun um þetta stóra og mikilvæga dæmi sem við fáumst við. Ég er ekki að gagnrýna það sem fram kom í máli hv. formanns fjárln. heldur taka undir það og væri ástæða til að fjalla um það í betra tómi.

Ég vil að lokum nefna það, sem ég hef reyndar oft rætt úr þessum ræðustóli og síðast við umfjöllum um fjáraukalög þessa árs. Það er ekki aðeins svo að ég hafi ýmislegt við forgangsröðun og skiptingu fjármuna í fjárlögum ársins að athuga heldur koma þar fram ýmsar upphæðir sem aðgerðir af ýmsu tagi standa á bak við. Þar vil ég sérstaklega til taka ráðstafanir sem framkvæmdar voru á síðasta ári og ríkisstjórnin stóð fyrir til lækkunar á útgjöldum sem hv. 12. þm. Reykv. fjallaði einmitt rækilega um. Ég ætla nú að stytta það mál sem ég ætlaði að hafa um það, enda margir sem bíða á mælendaskránni. Ég vil aðeins vísa sérstaklega til þess óhæfuverks í lok síðasta árs að aftengja elli- og örorkulífeyri við almenna launaþróun í landinu. Stjórnarandstaðan barðist hart gegn þeim gjörningi sem var bæði óréttlátur og heimskulegur og þarf ekki að endurtaka öll rökin í því máli. Ég vil aðeins vísa til ræðu hv. 12. þm. Reykv. sem var með allnákvæma útlistun á áhrifum þessarar ráðstöfunar. Í máli hennar kom einmitt fram að það er deginum ljósara að elli- og örorkulífeyrisþegar töpuðu verulega á þessum gjörningi og þar var svo sannarlega ráðist að þeim sem síst skyldi. Það er margt sem laga þarf í rekstri og efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og þetta síðastnefnda er að mínum dómi efst á þeim lista.