Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 17:18:50 (2165)

1996-12-13 17:18:50# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:18]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vesturl. fyrir ágæta ræðu, skýra og góða. En það var atriði sem laut að Lánasjóði íslenskra námsmanna sem mig langaði aðeins til að spyrja hann út í. Samkvæmt því sem fram hefur komið í tillögum og málflutningi stjórnarliða er gert ráð fyrir því að bætt verði við sjóðinn, ég held 100 millj. kr. á næsta ári. Það hefur ekki komið fram til hvers þeir fjármunir eiga að fara. Það er sagt að það eigi eftir að útfæra það. Það er væntanlega ljóst að ef samtímagreiðslur verða teknar upp þá þýðir það að flýta yrði greiðslum a.m.k. að einhverju leyti á árinu 1997. Nú reikna ég í sjálfu sér ekki með því að menn geri ráð fyrir að taka upp samtímagreiðslur núna frá og með næstu áramótum. Það þarf bersýnilega lagabreytingar til þess að taka þær upp en væntanlega reikna menn með því að samtímagreiðslur verði í síðasta lagi teknar upp frá og með haustinu 1997. Verði það gert þá þýðir það bersýnilega nokkur hundruð millj. kr. í viðbót við ríkissjóð á rekstrargrunni ársins 1997. Hins vegar er það bara flýting á greiðslum. Það þýðir ekki hækkun til lengri tíma litið. Þess vegna vil ég spyrja hv. 2. þm. Vesturl. hvort það sé ekki örugglega rétt skilið hjá mér að það sé ætlunin að taka upp samtímagreiðslur og að inni í tölunni 100 millj. kr. geti ekki falist þessi tilfærsla á greiðslunum sem yrði ef samtímagreiðslur verða teknar upp vegna þess að það hljóta að vera allmiklu hærri upphæðir.