Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 17:24:02 (2168)

1996-12-13 17:24:02# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:24]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg rétt metið hjá hv. 8. þm. Reykv. að ef teknar yrðu upp samtímagreiðslur þá er um að ræða verulegar tilfærslur á fjármunum, þ.e. það þyrfti að greiða meira út en sem nemur 100 millj. ef allir námsmenn kæmust undir reglur um samtímagreiðslur. En ég vil bara endurtaka að um þetta liggur ekki fyrir niðurstaða. Ég tel afar mikilvægt að það skuli hafa náðst samkomulag á milli stjórnarflokkanna um að leysa þann vanda sem vissulega er uppi hjá námsmönnum almennt því þeir þurfa auðvitað að tryggja sína afkomu. Ég held hins vegar að það sé mikilvægast að leggja áherslu á að námsmenn reyni í lengstu lög að komast hjá því að taka lán, reyni að afla tekna eins og nokkur kostur er þannig að greiðslubyrðin af námslánum verði í lágmarki þegar til þess kemur að námi lýkur og námsmenn standa frammi fyrir því að þurfa að koma sér upp húsnæði og standa skil á greiðslum vegna þeirrar heimilisuppbyggingar. Mér finnst skipta miklu máli að skapa námsmönnum góðar aðstæður til náms og draga úr kostnaði þeirra eftir öllum hugsanlegum leiðum en einnig þarf auðvitað að huga að þeim þætti sem námslánin eru. Það er verið að stíga ákveðið skref hér með því að hækka framlög til lánasjóðsins um 100 millj. kr.