Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 17:51:18 (2171)

1996-12-13 17:51:18# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það væri til of mikils mælst ef hv. þm., sem ég vil leyfa mér að kalla foringja stjórnarandstöðunnar í fjárln. við umræðuna að þessu sinni og ég gæti vel hugsað mér að yrði það oftar, væri sammála öllu sem ég segi en mér þykir þó ágætt að hann skuli vera sammála ýmsu af því.

Um hvað neyslan þurfi að vera há, þá er ég ekki sammála því að unglingur sem býr á hótel mömmu þurfi endilega 38 þús. kr. í vasapeninga ef hann fær húsnæði og matinn frían. Ráðgjafarstofan hefur einmitt litið á það mál hvað sé lágmarksframfærsla. Hún fékk búreikninga 30 fjölskyldna sem hafa væntanlega ekki lifað í neinu óhófi og þar er um allt aðrar tölur að ræða.