Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 19:12:15 (2179)

1996-12-13 19:12:15# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[19:12]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. flutti að venju góða framsöguræðu fyrir þeim breytingartillögum sem hann hefur lagt fram. Ég vildi veita andsvar gagnvart því sem hann sagði um brtt. vegna framkvæmda og endurbóta á sýslumannshúsinu við Bjólfsgötu 7 á Seyðisfirði. Þetta er hið merkilegasta hús og tek ég undir það sem hv. þm. sagði um það. Ég tel að það eigi að vera hægt að sjá til þess að viðgerð á þessu húsi fari fram. Því hefur verið þannig komið fyrir að Fasteignir ríkisins hafa fengið þetta hús til umsjónar, þ.e. að Fasteignir ríkisins eiga að sjá um viðgerð á húsinu og kosta hana af þeim fjármunum sem til þeirrar stofnunar renna, ef stofnun má kalla. Ég tel að það sé mikill menningarauki að því að endurgera hús eins og það sem hér um ræðir, og það eigi að gera það. Annað væri ríkisvaldinu til minnkunar, ekki síst þegar litið er til þess að í gildi eru lög um húsfriðun og það er alveg skýrt og klárt hvernig á að framfylgja þeim. Þetta hús er meðal merkustu húsa þeirrar tíðar sem það var byggt á þegar litið er til byggingarlistar. Það væri því mikill skaði ef ekki yrði af því að húsið yrði endurbyggt.

Að öðru leyti vil ég segja að formáli hv. þm. að framsöguræðunum var með öðrum hætti og vildi ég koma að því í seinni hluta andsvars.