Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 19:14:36 (2180)

1996-12-13 19:14:36# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[19:14]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Vænt þótti mér um að heyra viðbrögð varaformanns fjárln. varðandi þessa breytingartillögu og kom mér kannski ekki á óvart að þar væri skilnings að vænta á því sem snýr að björgun menningarverðmæta því að þar hefur hv. þm. Sturla Böðvarsson tekið mjög vel á sem formaður þjóðminjaráðs nú um stundir. Stundum er talað í neikvæðum tón um að þingmenn komi að fleiru heldur en því sem til fellur bara innan veggja Alþingis. En það munar um það ef menn hafa skilning á þeim málum sem þeim er ætlað að sinna og ég tel að þar eigum við hauk í horni sem horfum til verndunar gamalla húsa, þ.e. varaformann fjárln.

Málið er að þarna verði úr framkvæmdum. Það er það sem við þurfum að tryggja. Mér þykir vænt um að heyra þann skilning á þessu máli og undirtektir við það, að auðvitað ber ríkinu að leysa málið þannig að embættinu og minjaverndinni sé borgið sameiginlega. Að þessu þarf að hyggja mjög víða eins og hv. þm. þekkir manna best, virðulegur forseti og að þegar um opinberar byggingar er að ræða geti þetta tvennt farið saman þar sem aðstæður leyfa.